Kínversk dekk í fyrsta skipti í toppslagnum hjá Auto Bild

Dekkið frá Sailun var ódýrast af þeim sem tóku þátt …
Dekkið frá Sailun var ódýrast af þeim sem tóku þátt í lokaslagnum hjá Auto Bild.

Þýska bílablaðið Auto Bild birti á dögunum ítarlega úttekt á bestu sumardekkjum þessa árs. Í þetta skiptið voru meira en 250 ólíkar gerðir af dekkjum prófaðar og deildu Goodyear og Michelin fyrsta sætinu, með Eagle F1 Assymetric 6-dekkinu annars vegar, og Pilot Sport 5 hins vegar. Bridgestone lenti í þriðja sæti en Continental, Hankook og Kumho deildu með sér fjórða sætinu.

Vakið hefur sérstaka athygli að í fyrsta skipti í 39 ára sögu Auto Bild komst kínverskur dekkjaframleiðandi í eitt af tíu efstu sætum könnunarinnar. Er það Sailun sem hlotnast þessi heiður, nánar tiltekið dekkið Atrezzo ZSR2 í stærðinni 225/40 R18 og hafnaði Sailun í tíunda sæti.

Auto Bild segir umrætt dekk ekki sýna neina veikleika hvað öryggisþætti varðar. Þvert á móti ryður sumardekkið frá Sailun vel frá sér vatni, hefur stutta hemlunarvegalengd, er hljóðlátt og svarar ökumanni vel. Auto Bild bendir jafnframt á að verðlaunadekk Sailun sé það ódýrasta af þeim dekkjum sem komust í lokaumferð úttektarinnar.

mbl.is
Loka