Bílabúð Benna frumsýnir á laugardag bíl númer 570 af aðeins 1.974 sem smíðaðir voru af sérstakri afmælisútgáfu Porsche 911 Turbo.
Það var árið 1974 að 911 Turbo kom fyrst á markað og þótti meiri háttar tæknibylting en Porsche var á þeim tíma leiðandi í þróun kappakstursbíla með forþjöppu. Var þekking og reynsla Porsche úr kappakstursheiminum síðan yfirfærð á bifreiðar fyrir almenna kaupendur og í október 1974, á bílasýningunni í París, var hulunni svipt af 260 hestafla tryllitæki með meira en 250 km/klst hámarkshraða og aðeins 5,5 sekúndur í hundraðið.
Á 50 ára afmæli 911 Turbo afréð Porsche að smíða sérútgáfu í 1.974 eintökum, en jafnt að innan sem utan má sjá skemmtileg tilþrif í hönnun og efnisvali sem vísa í sögulegar rætur bifreiðarinnar. Ekki vantar kraftinn hjá 911 Turbo, frekar en fyrri daginn, og er vélin á nýja sportbílnum 650 ps, með 330 km/klst hámarkshraða og aðeins 2,7 sekúndur úr kyrrstöðu upp í 100 km/klst.
Í tilkynningu segir að afmælisútgáfan hafi m.a. háþróað loftflæði og óviðjafnanlega aksturseignleika. „Hér á ferðinni einstakt tækifæri til að eignast sannkallaðan safngrip frá Porsche,“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri bílaumboðsins. „911 Turbo hefur verið tákn hraða og framsækinnar hönnunar í hálfa öld og þessi afmælisútgáfa endurspeglar sögu Porsche og framtíðarsýn.“
Frumsýningin fer fram á laugardag frá 12-16 í sýningarsalnum á Krókhálsi 9.