Þúsundir manna munu sækja tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskahelgina og því mun hraðhleðslutengjum fyrir rafbíla á Ísafirði fjölga tímabundið, þar sem Orkan hefur sett upp færanlega hleðslustöð í bænum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkunni.
Til að koma til móts við aukna aðsókn í rafhleðslu sem kann að fylgja stórum viðburði á borð við tónlistarhátíð hefur Orkan sett upp 350kW hleðslustöð í samstarfi við Orkubú Vestfjarða og Aldrei fór ég suður.
Með rafhlöðubanka myndast minna álag á raforkukerfið, segir í tilkynningunni, og er því hægt að tengja lausnina við minni rafmagnstengingu en hefðbundin hleðslustöð en samt sem áður halda fullu afli.
Stöðin er með fjögur stæði, þrjú CCS-tengi og eitt CHAdeMO-tengi. Stöðin mun standa við Sundabakka á höfninni þar sem hátiðin fer fram og verður þar fram yfir páska. Færanlegar hleðslustöðvar voru fyrst teknar í notkun af Orkunni í nóvember 2023 en um er að ræða rafhlöðubanka sem geymir 350 kWh af orku.
„Þetta breytir miklu fyrir okkur og frábært að sjá fyrirtæki taka þátt í að gera upplifun gesta sem besta,” er haft eftir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóra Aldrei fór ég suður, í tilkynningu.
Auður Daníelsdóttir forstjóri Orkunnar segir í tilkynningunni að það sé Orkunni „ljúft og skylt að taka þátt í að halda uppi stuðinu á Ísafirði um páskana“.