Bílaframleiðandinn Kia var með áhugavert framlag á hönnunarvikunni í Mílanó þetta árið, en þar freistaði fyrirtækið þess að sýna hvernig nýstárleg ökutæki geta brúað bilið á milli borgarlífs og náttúru.
Í aðalhlutverki var svokölluð PBV-lína Kia (e. Platform Beyond Vehicle) sem Bílablaðið á mbl.is hefur áður fjallað um, en hönnun þessara ökutækja gengur út á það að eigendur geti auðveldlega aðlagað þau að eigin þörfum og virkjað hugbúnaðarlausnir til að fá enn meira út úr bifreiðunum.
Nánar tiltekið kynnti Kia bílana PV5, PV5 WKNDR og EV2, en PV5 er fyrsti bíllinn í PBV-línunni og verður fáanlegur á Íslandi í lok þessa árs. Hann er að öllu leyti rafdrifinn og er hugsaður bæði til einkanotkunar og sem atvinnubifreið. PV5 verður með drægni upp á 400 km og mun bjóða upp á 30 mínútna hraðhleðslu.
Hugmyndabíllinn PV5 WKNDR umbreytir PV5 í útivistar- og ævintýrabifreið og er m.a. búinn sólarsellum og viðbótarrafhlöðum sem auka á notagildi ökutækisins, en til að undirstrika sérstöðu ökutækisins var því stillt upp með plöntum, útilegubúnaði og kaffivagni.
Þá er EV2 hugsaður sem lipur og rafmagnaður B-flokks jepplingur og á að „umbreyta því hvernig notendur upplifa borgarumhverfið“, að því er segir í tilkynningu. Var EV2-hluti sýningarinnar hannaður til að minna á garðveislu í borg.