Greinin birtist fyrst í Bílablaði Morgunblaðsins 15. júlí. Bílablaðið kemur að jafnaði út þriðja þriðjudag hvers mánaðar.
Það er gaman að setjast upp í bíl og skoða heiminn, en hvort sem ferðinni er heitið í skreppitúr rétt yfir til Evrópu, eða í heljarinnar reisu um framandi lönd þver og endilöng, þá er eitt og annað sem ætti að huga að áður en lagt er í hann.
Bílablað Morgunblaðsins ráðfærði sig við reynslumikla sérfræðinga og safnaði saman bestu ráðunum fyrir þá sem hyggjast aka bíl á nýjum slóðum og vilja tryggja að allt gangi sem best fyrir sig.
Oft er mjög gagnlegt að leita að myndböndum heimshornaflakkara á YouTube sem fara í saumana á því hvernig er að aka í hinum ýmsu löndum, og hvað kemur aðkomufólki á óvart. Eru vegirnir góðir eða slæmir? Eru aðrir ökumenn tillitssamir eða frekir? Er algengt að brotist sé inn í bíla eða þeir skemmdir? Er langt á milli bensínstöðva? Eru einhverjar óskrifaðar reglur sem vissara er að hafa á hreinu? Eflaust má finna fimm mínútna myndband sem er með svarið.
Stundum fylgir einkabílnum meira umstang en frelsi. Það sakar ekki að gera einfalda þarfagreiningu og athuga hvort ekki megi komast af með almenningssamgöngum eða nota leigubíla. Aldrei hefur verið auðveldara að panta skutl, og kortaforritið í símanum leiðbeinir fólki um strætó- og lestakerfið.
Þannig má losna við þá fyrirhöfn sem felst t.d. í því að sækja bílinn og skila honum uppi á flugvelli, finna hentugan stað til að leggja og hafa áhyggjur af tjóni, tryggingum, sektum og öðrum leiðindum. Ef til vill er nóg að leigja bíl part úr ferðinni, t.d. þá daga sem haldið er út fyrir þéttbýlið.
Þegar bíll er tekinn á leigu dugar ekkert annað en að vera nákvæmur og erfiður kúnni. Þegar tekið er við lyklunum þarf að skoða ökutækið í þaula og skima eftir minnstu rispum og dældum og helst láta starfsmann vita án tafar. Ekki gleyma að líta undir bílinn – hvort rispur eru undir fram- og afturstuðaranum – og aðgæta hvort felgurnar séu rispulausar og farþegarýmið laust við rispur og bletti.
Skoðunin þarf að fara fram í góðri birtu og ætti að mynda bílinn allan hringinn.
Nýlega bárust þær fréttir frá Bandaríkjunum að ein stærsta bílaleigukeðjan þar sé að innleiða sérstaka skanna sem ekið er í gegnum við upphaf og endi leigunnar. Gervigreind kemur auga á hvers kyns frávik og fær viðskiptavinurinn sendan reikning um leið ef eitthvað er í ólagi. Bandarískar bílaleigur þóttu oft sveigjanlegri en þær evrópsku þegar kom að umgengni við bílana, en mögulega virðist það vera að breytast.
Ekki gleyma heldur að skoða stöðuna á bensíntankinum í upphafi ferðar og gera ráð fyrir viðbótartíma til að finna bensínstöð áður en bílnum er skilað svo að bæta megi á tankinn. Það sakar heldur ekki að taka ferskan umgang af myndum, allan hringinn, þegar bílnum er skilað svo að ekki standi orð á móti orði um ástand bifreiðarinnar.
Íslensk greiðslukort – a.m.k. þau sem eru í fínni kantinum – veita handahafa yfirleitt fría bílaleigutryggingu. Það er leiðinlegt að lesa smáa letrið, en getur borgað sig, og rétt að skoða líka hvaða tryggingar bílaleigan sjálf býður til sölu. Við nánari athugun gæti eitthvað óvænt komið í ljós, eins og t.d. það að íslensku kortatryggingarnar undanskilja „sérstaklega hraðskreið ökutæki“ og er t.d. ekki með öllu ljóst hvort það ákvæði gildi þá um betri gerðir rafbíla sem geta spyrnt af stað með sama krafti og ítalskur sportbíll.
Í sumum löndum, t.d. víða í Austur-Evrópu, hafa bílaleigur það jafnframt fyrir sið að frysta háa upphæð á greiðslukorti viðskiptavinarins og skila ekki fyrr en nokkrum dögum eftir að leigutímanum lýkur. Þessi upphæð getur hlaupið á mörgum hundruðum þúsunda króna og er fljót að éta upp kortaheimildina hjá venjulegu fólki. Getur það verið óheppilegt ef búið er að gera fjárhagsáætlun fyrir ferðina m.v. ákveðnar forsendur, en lenda síðan í svona viðskiptaháttum.
Því miður eru sum lönd, og sumar borgir, annáluð fyrir það að bílar verði þar fyrir innbrotum og skemmdum. Ef ferðast er á þannig slóðir gæti verið skynsamlegra að leggja bílnum í vöktuðu bílastæðahúsi, frekar en við kantinn á fjölfarinni gangstétt.
Vitaskuld ætti að ganga þannig frá verðmætum að þau sjáist ekki þegar litið er inn í bílinn og góð regla, í lok dags, er að tæma bifreiðina af farangri og innkaupapokum svo að ekkert geti freistað þjófa.
Þá er ekki sama hvernig bílum er lagt og víða er t.d. fylgst vel með því að bifreiðum sé lagt í samræmi við akstursstefnu. Sérreglur hafa verið settar í sumum borgum og í San Francisco gildir það t.d. að ef lagt er í halla þarf að snúa framhjólunum að gangstéttinni ef bíllinn snýr niður í móti, en frá gangstéttinni ef bifreiðin snýr upp í móti. Er þetta varúðarráðstöfun til að tryggja að mannlausir kyrrstæðir bílar rúlli ekki langar leiðir ef bremsurnar virka ekki sem skyldi. Ef þetta gleymist má eiga von á sekt.
Jafnframt ætti að skima vel og vandlega eftir merkingum sem gefa til kynna hvar má leggja, hvað það kostar og hvernig á að borga.
Þeim borgum fer ört fjölgandi sem setja bílaumferð skorður og leggja gjald á bifreiðar sem ekið er inn í miðborgarkjarnann. Allur gangur er á hversu vel þessar aðgangsstýringar eru sýndar með skiltum og vissara að kynna sér aðstæður fyrir fram. Oft gildir það um fólk sem gistir á hóteli innan gjaldsvæðisins, að hótelið sér um að skrá bílinn í þar til gerðan aðgangslista – að því gefnu að gesturinn biðji um það – og er þá oft hægt að sleppa við gjaldið.
Ísland er sér á báti þegar kemur að reglum um forgang í hringtorgum. Í öðrum löndum hefur innri akrein ekki forgang og er sá sem skiptir um akrein alltaf í órétti.
Á breskum hringtorgum gilda alveg sérstakar reglur, en þegar ekið er upp að hringtorgi þar í landi má finna skilti sem sýnir útgangana á skífulaga hringtorginu. Ef útgangurinn er vinstra megin á skífunni þarf að nota ytri akrein, en annars velja innri akreinina.
Svo sakar ekki að rifja upp umferðarmerkin. Sum merki, sem varla sjást á íslenskum vegum geta verið mikið notuð erlendis, og ekki skrítið ef að íslenskir ökumenn séu ekki alveg með það á hreinu hvað þessi merki eru að reyna að segja þeim. Stundum geta merkin líka verið gjörólík þeim íslensku, eins og t.d. í Japan þar sem stopp-merkið er ekki áttstrendingur heldur rauður þríhyrningur á hvolfi.
Sími með nettengingu er þarfasti þjónninn þegar ekið er í útlöndum. Þar má leita svara ef eitthvað varðandi vegakerfið vekur spurningar og leiðsögukerfið hjálpar ökumanni að komast hratt og vel á leiðarenda – og leyfir honum að beina allri athygli sinni að umferðinni. Ekki gleyma heldur hleðslutækinu. Muna þarf að leiðsögukerfum má ekki treysta í blindni: vegir geta breyst og aðstæður verið aðrar en leiðsöguforritið heldur.
Þegar sest er upp í ókunnugan bíl er síðan ágætt að kynnast honum aðeins áður en lagt er af stað. Stilla sæti og spegla, finna út hvernig ljósunum er stýrt og hvernig rúðuþurrkurnar virka. Eins ætti að gaumgæfa hvort bíllinn sé í góðu standi: er t.d. nægur loftþrýstingur í öllum dekkjum og allar perur í lagi?
Gott er að hafa seðla og mynt við höndina, t.d. til að borga veggjöld – ekki er alltaf hægt að treysta því að borga megi með korti. Þessu tengt er ógalið að skoða fyrir fram hvort eiga megi von á að þurfa að greiða vegatolla, og þá hvernig greiðslan fer fram.
Það er góð regla að fá alþjóðlegt ökuskírteini hjá FÍB áður en ferðalagið hefst. Sums staðar er það nauðsynlegt og annars staðar getur það einfaldlega komið í góðar þarfir.
Svo er að muna að hvílast reglulega. Vegalengdirnar úti í heimi geta verið lengri en Íslendingar eru vanir, og það er meira en að segja það að aka t.d. 500 eða jafnvel 1.000 km á einum degi – hvað þá ef líkaminn er að jafna sig á löngu flugi og aðlagast nýju tímabelti.