Los Angeles að hætti Ölmu

Alma nýtur lífsins í Los Angeles
Alma nýtur lífsins í Los Angeles Ljósmynd/Aðsend

Laga­höf­und­ur­inn Alma Goodm­an hef­ur búið í Los Ang­eles und­an­far­in átta ár og er búin að koma sér vel fyr­ir í miðri Hollywood. Hún seg­ir ómiss­andi fyr­ir þá sem eru að heim­sækja borg­ina í fyrsta skipti að fara á strönd­ina hvort sem það er Santa Monica, Venice eða Mali­bu.

„Það er líka gam­an að keyra Mul­hol­land Dri­ve og fara upp að Hollywood skilt­inu til að njóta út­sýn­is­ins. Einnig er gam­an að fara í Bever­ly Hills og rölta um Rodeo Dri­ve. The Getty Villa, Hunt­ingt­on Gardens og The Grove eru líka allt skemmti­leg­ir staðir.“ Alma seg­ir það besta við borg­ina sé hvað það er sí­fellt nóg við að vera og hvet­ur ferðalanga til að skoða hvaða uppistönd, tón­leik­ar eða íþróttaviðburðir séu í gangi hverju sinni. „Það er til dæm­is mjög gam­an að fara á Los Ang­eles Lakers-körfu­bolta­leik og sjá Le­Bron spila.“

Raf­knú­in hlaupa­hjól spenn­andi val­kost­ur

Sjálf byrj­ar Alma dag­inn á því að skella sér í jóga en það vill svo vel til að Wand­erlust-jóga­stúd­íóið er staðsett a næsta horni við heim­ilið henn­ar.

„Það er geggjað að geta bara rúllað út úr rúm­inu og vera kom­in í tíma nokkr­um mín­út­um seinna, ég get ekki hugsað mér betri leið til að byrja dag­inn. Ég mæli ein­dregið með því og svo er Wand­erlust Café þar inni líka mjög nota­leg­ur staður.“

Eft­ir góðan jóga­tíma er komið að því að kljást við dag­inn og ekki síst um­ferðina í borg­inni. „LA er rosa­lega mik­il bíla­borg því al­menn­ings­sam­göng­ur eru því miður ekki jafn­góðar og t.d. í NY eða London. En það er frá­bært hvað það er auðvelt að kom­ast á milli staða með Uber eða Lyft fyr­ir þá sem eru ekki á bíl. Það er bæði fljót­legra, ódýr­ara og ör­ugg­ara en að taka leigu­bíl. Ég vona inni­lega að þessi þjón­usta verði í boði á Íslandi sem fyrst og ein­ok­un­in á leigu­bíla­markaði hætti,“ seg­ir Alma og bæt­ir við að ný­lega hafi svo bæst við ann­ar spenn­andi ferðakost­ur sem sé al­gjör snilld í góða veðrinu en það séu raf­knú­in hlaupa­hjól sem heita Bird og Lime. 

Drauma­dag­ur­inn í borg­inni

Aðspurð hvernig drauma­dag­ur­inn í borg­inni líti út seg­ir Alma það vera svo mikið fram­boð að erfitt sé að koma því fyr­ir á ein­um degi. „Ætli það væri ekki að byrja dag­inn á að fara í göngu, til dæm­is í Runyon Canyon og njóta góða veðurs­ins. Næst myndi ég kíkja á Far­mers Mar­ket og kaupa ferska ávexti, blóm og osta og fara í svo í mimosa brunch með vin­um. Síðan er mjög gam­an að fara niður á strönd, t.d. í Venice, rölta um á Ab­bot Kinn­ey, kíkja í búðir og fara í sólbað. Enda síðan dag­inn með góðri máltíð, helst á rooftop-veit­ingastað með góðu út­sýni yfir borg­ina eins og til dæm­is á Waldorf Astoria-hót­el­inu.“

Alma á sér marga eft­ir­lætisveit­ingastaði í borg­inni og nefn­ir til að mynda The District By Hanna An og Catch sem fínni kosti. Hún seg­ir að í borg­inni sé mik­il menn­ing fyr­ir dög­urði eða bröns og þá sé Jo­an's On Third sá allra besti. Aðrir staðir sem hún fer reglu­lega á eru svo Yuko Kitchen , Sus­hi Stop, Veggie Grill og Ea­ta­ly. Fyr­ir þá sem eru í kaffi­húsa­hug­leiðing­um seg­ir Alma Elder­berries Café vera mjög krútt­legt veg­an kaffi­hús sem bjóði bæði upp á góðan mat og drykk og einnig Javista en þar sé það hemp latte með aga­ve sem standi upp úr.

Ansi mikið er fram und­an hjá okk­ar konu í Los Ang­eles og virðist ekk­ert bera á því að hún sé á heim­leið enda með mörg lög í vinnslu sem koma út á ár­inu. Fyr­ir þá sem vilja fylgj­ast með Ölmu er bent á In­sta­gram-síðu henn­ar @almagood

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert