Er Suðurlandið uppselt?

Er Ísland orðið uppselt?
Er Ísland orðið uppselt? Ljosmynd/Markaðsstofa Suðurlands

Ferðamenn sem fara um Suður­land eru stórt hlut­fall af heild­ar­fjölda ferðamanna sem koma til lands­ins. Árið 2018 var heild­ar­fjöldi ferðamanna til Íslands um 2,3 millj­ón­ir og af þeim komu um 1,7 millj­ón­ir á Suður­land. Tals­verður mun­ur er þó á milli svæða inn­an lands­hlut­ans þar sem sum svæði fá mik­inn fjölda ferðamanna á meðan önn­ur svæði fá til­tölu­lega fáa gesti.

Oft heyr­ist að fjöldi ferðamanna á Íslandi og sér­stak­lega á ákveðnum ferðamanna­stöðum sé orðinn of mik­ill og þá vakn­ar spurn­ing­in, er Ísland orðið upp­selt? Sum svæði eru ef­laust orðin þétt set­in á ákveðnum tím­um eða tíma­bil­um. Rann­sókn­ir hafa verið gerðar á fé­lags­leg­um áhrif­um ferðamennsku á sam­fé­lagið og sýna þær að þrátt fyr­ir að sums staðar kvarti heima­menn yfir of mörg­um ferðamönn­um þá finnst þeim á sama tíma ferðaþjón­usta mik­il­væg fyr­ir þróun at­vinnu­lífs og byggðar. Einnig hafa komið fram vís­bend­ing­ar í rann­sókn­um, á þol­mörk­um ferðamanna á ákveðnum ferðamanna­stöðum, að fjöldi ferðamanna sé far­inn að hafa áhrif á upp­lif­un þó svo al­mennt finn­ist ferðamönn­um fjöldi annarra ferðamanna hæfi­leg­ur.

Á Suður­landi eru fjöl­marg­ir staðir og svæði sem fá til­tölu­lega fáa gesti og þar er árstíðarsveifl­an enn þá mik­il. Þessi mun­ur á milli svæða, inn­an lands­hlut­ans, er ekki endi­lega tengd­ur ná­lægð við höfuðborg­ar­svæðið eða flug­völl­inn í Kefla­vík. Tölu­verður mun­ur er t.d. á fjölda ferðamanna í upp­sveit­um Árnes­sýslu, þar sem mik­ill fjöldi ferðamanna fer Gullna hring­inn, og í Ölfusi eða Flóa­hreppi en allt eru þetta svæði í svipaðri fjar­lægð frá flug­vell­in­um og höfuðborg­ar­svæðinu. Eins er hægt að nefna mun­inn á Vík, sem er vin­sæll áfangastaður ferðafólks, og Þykkvabæ eða Vest­manna­eyj­um þar sem fjöl­mörg tæki­færi fel­ast í aukn­ingu í fjölda ferðamanna.

Það er mik­il­vægt að styrkja Suður­land sem ferðamanna­svæði í heild sinni til þess að styðja við jafn­ari dreif­ingu ferðamanna í lands­hlut­an­um. Byggja þarf upp ferðaleiðir og ferðamannastaði sem geta tekið á móti fleiri gest­um en einnig þarf að setja fram virka stýr­ingu á fjöl­menn­ustu ferðamanna­stöðunum. Hægt er að gera það með ýmsu móti, til dæm­is með bættu skipu­lagi á staðnum eins og upp­bygg­ingu göngu­stíga eða staðsetn­ingu bíla­stæða. Á sum­um stöðum get­ur verið þörf fyr­ir aðgangs­stýr­ingu eins og lok­an­ir/​tak­mark­an­ir vegna ágangs eða stýra dreif­ingu gesta yfir dag­inn.

Markaðsstofa Suður­lands er hluti af stoðkerfi ferðaþjón­ust­unn­ar á Suður­landi. Til­gang­ur henn­ar er m.a. að hafa yf­ir­sýn, gæta hags­muna og veita upp­lýs­ing­ar um at­vinnu­grein­ina. Þessi grein er liður í að efla umræðu og fræðslu um áhrif ferðaþjón­ustu á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert