Létu drauminn rætast í óbyggðum

Hópurinn sem fór í ævintýraferðina til Grænlands.
Hópurinn sem fór í ævintýraferðina til Grænlands. Ljósmynd/aðsend

Hér eft­ir fer frá­sögn Gunn­ars Inga af ferðinni og mynd­ir úr mynda­safni ferðar­inn­ar. Með í för var líka par frá Sviss, Greg og Andrea, og leiðsögumaður­inn John frá há­lendi Skot­lands.

Græn­land er okk­ar næsti ná­granni en ekki verður sagt að straum­ur Íslend­inga þangað sé mik­ill. Þó er fljót­legt að fljúga þangað frá Reykja­vík­ur­flug­velli með Air Ice­land Conn­ect og tek­ur flugið til Kul­usuk inn­an við tvær klukku­stund­ir. Ég hef verið með vax­andi óbyggða- og fjalla­dellu frá því að mesta smá­barna­stúss­inu lauk og frá 2010 hafa verið farn­ar marg­ar góðar ferðir í frá­bær­um fé­lags­skap fyrr­ver­andi vinnu­fé­laga úr Mar­el og fé­laga í HSSR, m.a. á nokkra tinda Vatna­jök­uls, yfir Kjöl á göngu­skíðum að ógleymdri frá­bærri ferð yfir S-hluta Vatna­jök­uls vorið 2017 þegar ekki hreyfði hár á höfði í 3ja daga göngu­skíðaferð. 

Hundarnir bíða eigandans í Kulusuk.
Hund­arn­ir bíða eig­and­ans í Kul­usuk. Ljós­mynd/​Gunn­ar Ingi

Eft­ir að hafa lesið marg­ar bæk­ur um heim­skauta­ferðir hinna ýmsu land­könnuða og æv­in­týra­fólks fór ég að renna auga til Græn­lands, enda Suður­heim­skautslandið afar fjar­læg­ur og dýr draum­ur. Græn­land hef­ur nán­ast ótæm­andi mögu­leika til úti­vistar­ævin­týra af ýmsu tagi, s.s. til sigl­inga inn­an um ís­jak­ana, göngu­ferða, göngu- og fjalla­skíðaferða – að ógleymdu nán­ast óend­an­legu úr­vali granít­fjallstinda sem rísa allt að 3.700 m yfir sjár­var­máli. Þangað sem ferðinni var heitið, norður af Kul­usuk, rísa tind­arn­ir þó lægra og hæst fór­um við í um 1.100 m hæð en ávallt var lagt af stað frá tjald­búðum við sjáv­ar­mál og reynt að ná aft­ur í tjald­búðir fyr­ir myrk­ur.

Ég hef verið áhugamaður um land­könnuði og æv­in­týri frá því að við þrír fé­lag­arn­ir fór­um í 4 mánaða út­skrift­ar­ferð úr HÍ til Afr­íku, að feta í fót­spor Rich­ard Burt­on og fé­laga sem brut­ust alla leið að Vikt­oríu­vatni á landa­mær­um Ken­ía og Úganda. Nú er auðvitað búið að kanna jörðina þvera og endi­langa og skrá­setja hana í Google Earth en þó voru hugs­an­lega ein­hverj­ar leiða okk­ar og tinda á Græn­landi ófarn­ar og ósnert­ar af mann­ver­um, og enn má ganga þarna á stöðum sem mögu­legt er að eng­in mann­vera hafi áður stigið. Mér finnst þó ekki síður áhuga­vert að kanna eig­in getu og mörk við nýj­ar aðstæður, og  að kanna hvaða áhrif nýir staðir, ný reynsla og áskor­an­ir hafa á mig, og sé staður­inn ný upp­lif­un fyr­ir mig næg­ir það – það er mín land­könn­un.

Kyrrðin í Grænlandi er engri annarri lík.
Kyrrðin í Græn­landi er engri ann­arri lík. Ljós­mynd/​Gunn­ar Ingi

Lit­rík byggð í Kul­usuk

Aðflugið að flug­vell­in­um á Kul­usuk-eyju er fal­legt, ljós fjöll, ís­jak­ar á floti og snjór í fjöll­um. Aðeins um 250 manns búa á þess­ari eyju sem er í senn fal­leg og drunga­leg. Það er eng­inn Flybus á Kul­usuk, fjór­hjól sæk­ir far­ang­ur­inn okk­ar og við leggj­um af stað gang­andi eft­ir mal­ar­veg­in­um. Gang­an tek­ur um 30 mín­út­ur og John, okk­ar skoski leiðsögumaður með gráu skegg­brodd­ana, held­ur á riffl­in­um. Hér er alltaf mögu­leiki á að rek­ast á ís­birni og aðeins eru nokkr­ir dag­ar síðan full­vaxið karldýr var á ferð ná­lægt Kul­usuk. Við göng­um fram hjá kirkju­g­arði, ryðguðum ol­íu­tunn­um og veðruðum dönsk­um bjórdós­um sem liggja víða. Það er ekk­ert hægt að grafa í granítið hér svo graf­ir eru bara nafn­laus­ir kross­ar ofan á grjót­hrúg­um. Við eitt húsið er grjót­hrúg­an bara rétt fyr­ir utan dyrn­ar, eins og ein­hver hafi und­ir­búið að detta bara ofan í lægðina þegar enda­lok­in koma, og samið við ná­grann­ana að hrófla grjót­inu svo yfir lægðina og reisa svo við hvít­an óá­letraðan kross­inn. 

Gunnar Ingi á toppi tilverunnar.
Gunn­ar Ingi á toppi til­ver­unn­ar. Ljós­mynd/​Aðsend

Byggðin er lit­rík og sum hús­anna eru fal­leg, en all­nokk­ur yf­ir­gef­in hús inn á milli. Þau eru veðruð og rúðurn­ar brotn­ar. Við bryggj­una eru nokkr­ir bát­ar og dauðir sel­ir í kipp­um í sjón­um, lík­lega er best að geyma þá þannig, sjór­inn er salt­ur kæl­ir. Kul­usuk er enn sam­fé­lag veiðimanna þótt ferðamenn séu farn­ir að ramba inn í þorpið. Við erum hér á veg­um nokk­urra breskra æv­in­týra­manna og -kvenna, en Matt Spenceley hafði komið fyr­ir 18 árum sem ung­ur maður hingað til að klifra og tekið ást­fóstri við staðinn og byggt upp lítið fyr­ir­tæki (Pir­huk) sem sinn­ir æv­in­týra­ferðum um A-Græn­land. Þau deila heim­ili sínu með okk­ur og öðrum ferðalöng­um, fal­legu bláu húsi og því eina í þorp­inu með renn­andi vatni í krön­um. Kló­settið er ein­hvers kon­ar innikam­ar þó.

Fyrstu tvo dag­ana í Kul­usuk rigndi nokkuð stöðugt og dimm þoka lá yfir. Það er ekki girni­legt að koma upp tjald­búðum í slíku og því frestuðum við brott­för og skoðuðum okk­ur um í Kul­usuk, hitt­um fleiri leiðsögu­menn og ferðalanga frá Pir­huk og keypt­um út­skorið skart úr hrein­dýra­beini af gam­alli konu sem leitaði okk­ur uppi. Seinni dag­inn fór­um við í upp­hit­un­ar­hring, geng­um um 13 km hring á eyj­unni og kíkt­um upp á nokkra lága tinda. Tók­um með okk­ur litlu blys­byss­urn­ar okk­ar og skoðuðum þær en þær á að nota ef fæla þarf frá ís­birni ef þeir nálg­ast um of – sem er í senn ógn­vekj­andi og spenn­andi, svona eins og snar­bratt­ar fjalls­hlíðar geta verið líka.

Voru vör um sig vegna ís­bjarna

Þegar stytti upp var lagt af stað til Ap­usiiak-eyju sem ligg­ur skammt norðan við Kul­usuk og sést ágæt­lega frá þorp­inu. Þangað sigld­um við með heima­manni, veiðimanni sem nýt­ur mik­ill­ar virðing­ar í þorp­inu og er mik­il­væg­ur liðsmaður Pir­huk. Græn­lensk­ir fiski­menn eru lagn­ir að sigla hratt og ör­ugg­lega fram hjá litl­um ís­jök­um sem eru um allt. Þeir kunna líka að leggja að landi á ólík­leg­ustu stöðum og á ein­um slík­um lögðum við að og bár­um svo all­an far­ang­ur­inn, ásamt tveim­ur plast­tunn­um af mat og búnaði ca. kíló­metra inn að fyrsta tjald­stæðinu okk­ar, „basecamp“. Matt og og John höfðu komið þar ein­hverj­um dög­um áður og sett upp viðvör­un­ar­kerfi, stál­víra í kring­um tjald­stæðið og tengt þá við hvell­hett­ur sem eiga að springa með lát­um ef bangsi geng­ur á vír­ana. Mat­artjaldið er svo reist ca. 50 metra frá tjald­búðunum til að minnka lík­urn­ar á að lykt­in dragi bangsa að svefnstaðnum. Við erum líka með hrey­fiskynj­ara sem vöktu okk­ur nokkr­um sinn­um, lík­lega vegna fugla og refa, en svo töld­um við okk­ur líka einu sinni sjá ein­hver skrít­in spor en erfitt er að segja til um hvað það var. 

Hópurinn þurfti að vera var um sig vegna ísbjarna.
Hóp­ur­inn þurfti að vera var um sig vegna ís­bjarna. Ljós­mynd/​Gunn­ar Ingi

Við geng­um svo inn að skriðjökli á eyj­unni sem fell­ur svo til­vilj­ana­kennt með lát­um út í sjó­inn. Jarðfræðing­ur myndi ekki kom­ast mikið úr spor­un­um hér því lita­dýrðin í grjót­inu og fjöll­un­um í kring er engu lík. Þar ægir sam­an rönd­óttu, hvítu, svörtu, rauðu, gráu og gulu bergi og grjóti í litap­all­ettu sem get­ur al­ger­lega dá­leitt ferðalang­inn. Við nær­umst á dag­inn á súkkulaði og smá­kök­um, „flapjacks“, að ógleymd­um Tesco chedd­ar-osti með hot dog rel­ish og salt­kexi, namm! Bjarn­ar­vakt var sett á fyrstu nótt­ina því það rigndi og þá er ekki hægt að treysta á vír­a­kerfið. Hver á 1,5 klst. af bjarn­ar­vakt og ég tek bók­ina mína um heim­skautafar­ann Tom Cre­an mér til inn­blást­urs. Þegar maður sit­ur á bjarn­ar­vakt hljóma öll nátt­úru­hljóð eins og björn en ég svaf ágæt­lega bæði fyr­ir og eft­ir vakt­ina.

Næsta dag var var sett í dag­pok­ann og við héld­um á tind­inn sem gnæfði eins og granít­pýra­mídi yfir skriðjökl­in­um. Þeir eru nokkr­ir tind­arn­ir hérna á þess­ari eyju, 700-1.000 m háir. Það er þó ekk­ert Esju-rölt að fara á topp­inn en það hjálp­ar að þurrt og hrjúft granítið gef­ur ótrú­lega gott grip og nán­ast er eins og að vera með fransk­an renni­lás und­ir skón­um. Það er alltaf góð til­finn­ing að ná nýj­um tindi og það gerðum við tvisvar þarna, í seinna skiptið kl. 11 að morgni eft­ir að hafa vaknað um kl. 4.30 til að geta verið búin að bera far­ang­ur­inn aft­ur niður í fjöru fyr­ir kl. 15 þegar bát­ur­inn átti að koma. Tunnu­burður­inn seig í og minnti mig á mynd­ir af sherp­um bera slík­ar tunn­ur í Nepal, upp í móti og í þunnu súr­efni. Hví­líkt fólk. 

Þögli leiðsögumaður­inn

John leiðsögu­mann okk­ar er ekki að finna á sam­fé­lags­miðlum, hann er þög­ull stund­um, þrautreynd­ur fjallamaður um heim all­an og úrræðagóður. Hann hef­ur misst átta vini á Ev­erest og hef­ur eng­an áhuga á því, en hef­ur verið í Himalaya, S-Am­er­íku og Ölp­un­um, fyr­ir utan að hafa al­ist upp í fjall­lendi Skot­lands. Þegar búið er að trekkja hann í gang koma sög­urn­ar. 24. ág­úst sigld­um við svo burt frá eyj­unni og héld­um í norður, ein­hverja 80 km inn í Sermiliqaq-fjörðinn og inn að Knud Rasmu­sen-skriðjökl­in­um. Sigl­ing­in var skemmti­leg, smá­hveli og ís­jak­ar af ýms­um stærðum verða á vegi okk­ar ásamt enda­lausu úr­vali fjallstinda. Knud Rasmu­sen-skriðjök­ull­inn er af stærri gerðinni og skríður inn í fjörðinn þar sem stór­feng­leg­ir 70 m háir ís­vegg­irn­ir hrynja með drun­um í sjó fram á nokk­urra mín­útna fresti. Við tjöld­um á lít­illi syllu með út­sýni yfir ís­vegg­inn og bíðum storms­ins og rign­ing­ar­inn­ar sem skall á síðdeg­is og hristi tjöld­in okk­ar fram á nótt­ina.

Setið í kvöldkyrrðinni við fjörðinn.
Setið í kvöld­kyrrðinni við fjörðinn. Ljós­mynd/​Gunn­ar Ingi

Bjarn­ar­vakt­in mín milli 02.30 og 4 var ansi hrá­slaga­leg og þau eru mörg hljóðin í græn­lensku nótt­inni, og öll hljóma þau auðvitað eins og svang­ur hvíta­björn í myrkr­inu þegar maður sit­ur á vakt­inni. Ná­býlið við hrynj­andi jök­ul­inn var magnað og jók rign­ing­in enn á hrunið. Á þriðja degi átti svo að hætta að rigna svo að við pökkuðum í bak­poka og héld­um í göngu meðfram skriðjökl­in­um í austurátt og klif­um einn af 800 m háum tind­un­um sem við blöstu. Hann reynd­ist okk­ur Íslend­ing­un­um nokkuð krefj­andi en það var ein­mitt til­gang­ur ferðar­inn­ar, að fara út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann og upp­lifa al­vöru­fjalla­mennsku í óbyggðum. Mögu­lega var þetta einn af tind­un­um sem aldrei hafa séð manns­fæt­ur. Parið frá Ölp­un­um aðstoðaði við að koma of­ur­ánægðum en pínu titrandi Íslend­ing­um á topp­inn. Þessi dag­ur endaði í 11 tíma göngu og klifri og ekki reynd­ist erfitt að sofna þá um kvöldið.

Gangan var oft og tíðum mikil áskorun.
Gang­an var oft og tíðum mik­il áskor­un. Ljós­mynd/​Gunn­ar Ingi

Næstu dag­ar voru bjart­ir og fagr­ir og næt­urn­ar ís­kald­ar und­ir dans­andi norður­ljós­um. Því­lík for­rétt­indi að fá að upp­lifa svona. Einn af tind­un­um sem við náðum á þess­um dög­um var í 1.100 m hæð og svo odd­hvass að aðeins tveir gátu staðið á toppn­um í einu. Ganga þurfti lang­an veg yfir sprung­inn jök­ul til að kom­ast að hon­um, þar var ann­ar 11 tíma dag­ur. Útsýnið var al­ger­lega ótrú­legt enda tók­um við mörg hundruð mynd­ir þessa fögru og björtu daga, oft al­ger­lega orðlaus yfir dýrðinni. Fjallið hinum meg­in í firðinum var rönd­ótt og lit­ríkt og skartaði tindi með hvít­um löng­um rák­um, eins og hann hefði verið klóraður af ógn­ar­stór­um hvíta­birni. Að lokn­um þrem­ur tinda­dög­um í röð náðum við Íslend­ing­arn­ir að væla út hvíld­ar­dag því læri, hné og fæt­ur voru al­veg búin og sum­ir þurftu að láta blöðrur og bólg­ur jafna sig. Við nýtt­um dag­inn í að fá kennslu­stund í Alpa-fjalla­mennsku hjá John, og til að stara á jök­ul­inn ryðjast með drun­um og brest­um fram í sjó­inn, sem ólgaði eins og suðupott­ur í hvert skipti sem jak­arn­ir hrundu fram. Aft­ur var lagt í tinda­ferðir að lokn­um hvíld­ar­degi og m.a. á tind­inn beint fyr­ir ofan tjald­búðirn­ar okk­ar, en einnig út með firðinum þar sem einn tind­ur­inn reynd­ist of laus í sér og við sner­um við frek­ar en að fara að renna – það eru eng­ar björg­un­ar­sveit­ir hér.  Þegar þetta er skrifað, kl. 01.56 að morgni 31. ág­úst 2017, er Ven­us að skríða yfir fjallstopp­ana í austri og það stytt­ist í heim­ferð. Eft­ir svona slark er Kul­usuk eins og heims­borg, með heit­um sturt­um og köld­um bjór. Hingað kem ég ör­ugg­lega aft­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert