Einfaldasta leið mannsins til að fljúga

Nemendur á svifvængjaflugnámskeiði setja sig í stellingar.
Nemendur á svifvængjaflugnámskeiði setja sig í stellingar. Ljósmynd/Fisfélag Reykjavíkur

„Það má finna flugveður nánast hvern einasta dag þar sem við erum með svo mikið af fjöllum, hæðum og hólum nálægt okkur og oftast er stutt að keyra út úr rigningunni eða rokinu. Auðvitað má rokið ekki vera of mikið, en ekki heldur of lítið. Það er nú ekki fyrr en maður fer að stunda svifvængjaflug að maður kemst að því að það er stundum logn á Íslandi.“

Í kvöld mun Fisfélag Reykjavíkur vera með kynningu á íþróttinni og komandi námskeiðum sem fara fram í Reykjavík og á Vík. „Við segjum aðeins frá svifvængjaflugi almennt og undirgreinum þess. Myndir segja meira en þúsund orð svo við ætlum að sýna mikið af gullfallegum myndbrotum, aðallega frá Íslandi, en líka erlendis frá.“

Frjáls eins og fuglinn fljúgandi.
Frjáls eins og fuglinn fljúgandi. Ljósmynd/Fisfélag Reykajvíkur

Aðspurð hvað sé svona spennandi við íþróttina segir Aníta svifvængjaflug vera einföldustu leið mannsins til að fljúga. „Fluggræjan pakkast í bakpoka sem þú getur svo arkað með á næsta fjall eða hvert sem er út í heim á ferðalagi. Nokkrar mínútur að rigga og komast í loftið, og svífur svo stutt eða langt, hratt eða hægt, hátt eða lágt, eftir því hvar þitt áhugasvið liggur. Fjölmargar undirgreinar íþróttarinnar, til dæmis rólegt hafgoluflug inn í sólsetrið, hraðflug á skíðum yfir sprungur og dali, hitauppstreymisflug í 2.000 metra hæð í frönsku ölpunum, sandölduflug við Þorlákshöfn í 5 metra hæð, listflug og fleira, gera það að verkum að þetta hentar ólíku fólki. Á námskeiðin kemur fólk á öllum aldri og af öllum kynjum úr öllum áttum og sameinast um flugástríðuna. Suma hefur dreymt um að fljúga frá því þeir voru börn,“ segir hún og bætir við að „svifvængjaflug er fyrir alla sem hafa áhuga á að upplifa nýja vídd í útivist, svífa yfir gullfalleg landsvæði og upplifa landið frá öðru sjónarhorni eða spítta á skíðum yfir áður ófær svæði.“

Kynningin verður haldin á Loft hostel, Bankastræti 7, og byrjar stundvíslega klukkan 20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka