Ég bara gat ekki sagt nei

Gunnar Karl og Freyja ásamt börnum sínum á fallegum sumardegi …
Gunnar Karl og Freyja ásamt börnum sínum á fallegum sumardegi í New York. Ljósmynd/Aðsend

„Claus Meyer, stofnandi veitingastaðarins Noma í Kaupmannahöfn, hafði samband við mig og sagðist vera að opna veitingastaðinn Agern á Grand Central í New York og hann hefði áhuga á því að ráða mig sem yfirkokk á staðnum. Okkur Freyju, eiginkonu minni, hafði svo sem dreymt um að búa erlendis og ákváðum því að slá til. Það er jú ekki á hverjum degi sem manni býðst að opna veitingastað á þessari mögnuðu lestarstöð, ég bara gat ekki sagt nei.“

Fjölskyldan kom sér vel fyrir í hverfi sem heitir Greenpoint og er í Brooklyn. „Það var algerlega yndislegt að vera þar, einstaklega rólegt og fjölskylduvænt,“ segir Gunnar Karl og bætir við að það hafi einnig verið kostur að búa með fjölskyldunni fyrir utan Manhattan og með því forðast skarkala stórborgarinnar. „Börnin voru alveg ótrúlega fljót að venjast þessu nýja umhverfi sem er svo sannarlega allt öðruvísi en Ísland. Það sama má segja um tungumálið, þau voru farin að leiðrétta mína ensku eftir nokkra mánuði.“

Gunnar Karl vinnur þessa dagana að nýjum matseðlum á veitingahúsunum …
Gunnar Karl vinnur þessa dagana að nýjum matseðlum á veitingahúsunum Dill og Systur restaurant. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður hvert fjölskyldan fór helst út að borða segir Gunnar Karl þau helst hafa haldið sig í hverfinu. „Við fórum til dæmis gríðarlega mikið á The Four Horsemen, af öllum veitingastöðum í NY þá hugsa ég að við höfum farið oftast þangað því þar var bara svo yndislegt að vera en þess utan fékk ég mína allra bestu máltíð í borginni á veitingastað sem heitir Atera. Það var algerlega framúrskarandi máltíð þar sem allt var upp á tíu.“

Fjölskyldan er nú flutt heim eftir þessa ævintýradvöl og hefur Gunnar Karl tekið að sér yfirumsjón með öllum mat á veitingastaðnum Dill og Systur restaurant. „Okkur fannst bara tími til kominn að skottast aftur heim. Hér eru ræturnar og okkur finnst svo sannarlega gott að vera hér. Svo er ég líka í rekstri hér þannig að það er líka ein af ástæðunum. Núna í þessum töluðum orðum sit ég og vinn að því að gera nýjan matseðil á Systur og er meiningin að byrja að breyta þessum réttum í vikunni,“ segir Gunnar Karl og bætir við að það sé dásamlegt að koma heim á þessum tíma. „Vorið er svo yndislegur tími með sinni frábæru náttúrulykt og öllum frábæru villijurtum sem núna vaxa villt og galið um allt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka