Svipmyndir frá Saltey

Greinarhöfundur við Hákarlaflóa. Fleiri hákarlaskoðarar í bakgrunni.
Greinarhöfundur við Hákarlaflóa. Fleiri hákarlaskoðarar í bakgrunni. Ljósmynd/Aðsend

Græn­höfðaeyj­ar eru tíu tals­ins og rísa úr Atlants­haf­inu 570 kíló­metra vest­ur af Græn­höfða í Senegal, vest­asta odda meg­in­lands Afr­íku. 

Þeir, strák­arn­ir við Há­karla­flóa, á aust­ur­strönd Salteyj­ar, höfðu raðað upp gúmmí­skóm á jörðina handa okk­ur að máta þegar við stig­um útúr 20 manna rút­unni. Þeir, strák­arn­ir, brostu breiðbrosi, kát­ir, göntuðust hver við ann­an; lífs­glaðir, brún­ir á skinnslit, af­kom­end­ur portú­galskra þræla­sala og afr­ískra ambátta, fal­leg kynþátta­blanda. Þeir leigðu skóna á tvær evr­ur parið, völdu þá á okk­ur með smiðsauga hins vana skósala og réttu okk­ur síðan að máta; tóku við greiðslu. Við fór­um úr eig­in skóm og bisuðum síðan við það berkríkuð á stutt­bux­un­um að draga á okk­ur gúm­skæðin.
Kofi við Hákarlaflóa á Saltey.
Kofi við Há­karla­flóa á Saltey. Ljós­mynd/​Aðsend

Svo er vaðið útí volg­an sjó­inn eft­ir klöpp­un­um. Pör leiðast gjarna til þess styðja hvort annað á ósléttu grjót­inu sem hálfs­árt er að stjákla á þrátt fyr­ir skó­búnaðinn. Sól­in skelli­hlær að til­b­urðum okk­ar, brenn­heit í heiði. Vind­ur­inn syng­ur hlýr, kom­inn frá Sa­hara að blása um Saltey ein­sog hann hef­ur gert í þús­ald­ir og sorfið hana í leiðinni, flatt hana út, klætt hana úr nán­ast öll­um fjöll­um, hæðum, hraun­um og hól­um; reytt burt mest­all­an gróður, sem kannski var aldrei. Sá sem eft­ir er hjar­ir þyrst­ur og þyrrk­ings­leg­ur. En vind­ur­inn hef­ur líka fært Saltey þess­ar löngu hvítu baðstrend­ur gerðar úr eyðimerk­urs­andi þar sem sól­s­leikj­ur – ná­bleik­ir norður­heims­menn – eiga sinn draumastað; og vind­ur­inn er einnig leik­fang þeirra sem stunda flug­brettaíþrótt­ir; hef­ur þá á loft þönd­um flug­segl­um við strönd­ina. Og hann er nátt­úru­leg vifta, þurrk­ar and­rúms­loftið, kæl­ir mann, svo að maður svitn­ar ekki ein­us­inni þótt hit­inn fari í 25 – 30 stig um miðjan dag­inn.

Við vöðum aðeins lengra. Sjór­inn glitr­ar kvik­ur, marg­lit­ur, gyllt­ur sumstaðar, blár eða grænn ann­arstaðar, gagn­sær. En utar er brim­g­arður­inn hvít­bros­andi.

Ég er kom­inn upp að hnjám í sjón­um, og vel það, svo að ein­staka glett­in sletta nær að bleyta lær og klof, jafn­vel rump og mjó­hrygg. Ekk­ert við því að gera. Maður verður hvorteðer ekki rass­blaut­ur lengi í hit­an­um og gol­unni þegar up­p­úr er komið.

Menn – við – safn­ast sam­an í hálf­hring að til­lögu inn­lends fylgd­ar­manns úr hópi strákanna í landi, draga upp farsíma, kveikja á mynda­vél, munda tólið, stara í vatnið. Aðstoðarmaður­inn er með ein­hverj­ar fiskúr­gangstutl­ur í plast­flösku. Dýf­ir henni í sjó­inn, sýg­ur inn í hana vökva og spraut­ar síðan úr henni skýi í gagn­sæið. Og þeir eru ekki lengi að renna á lykt­ina, há­karl­arn­ir, koma strax synd­andi, kannski fimm, sex, sjö ...; líða hjá með fett­um eða renna sér hrein­lega á milli fóta manni, kipp­ast við ef tekið er um sporðinn á þeim. En reynd­ar er þetta bara ungviði, svona eins metra langt hvert og varla það. Þeir full­orðnu hins­veg­ar á sveimi aðeins utar að gæta þeirra og flíka svört­um bak­ugg­um up­p­úr sjón­um. Þetta eru há­karl­ar af teg­und sem nefn­ist gul­háf­ur eða sítr­ónu­háf­ur á ís­lensku en heit­ir „tubarão-limão“, með þessu nef­mælta ã-i portú­gölsk­unn­ar sem er op­in­bert tungu­mál Græn­höfðey­inga þótt þeir tali sín á milli kre­ólsku, sam­bland af móður­máli herraþjóðar­inn­ar fyrr­ver­andi og afr­ískra tungna þræl­anna fyrr á tíð ...

Korktapp­ar í salt­pækli ...

Við stönd­um á gíg­barm­in­um; kom­in þangað upp í rút­unni, horf­um niðrí gíg­inn, yfir inn­hlíðar hans, þurr­ar og vindsorfn­ar ein­sog allt hérna. Í gíg­botn­in­um eru stór­ir salt­vinnslureit­ir, fer­hyrnd­ir; vinnsl­an kom­in mis­langt á leið. Þar sem all­ur sjór hef­ur gufað upp eru þeir þakt­ir hvítu salt­inu en fjólu­blá­ir þar sem minna hef­ur gufað upp; upp­guf­un samt orðin tals­verð. Sumstaðar eru salt­hrauk­ar. Fremst er lón, brimsalt, miklu salt­ara en Dauðahafið, er okk­ur sagt. Sjór síast inn í gegn­um jarðlög­in. Þarna niðri eru nokk­ur úr hópn­um okk­ar. Við þykj­umst bera kennsl á þau þar sem þau fljóta eins og litl­ir korktapp­ar í vatn­inu. Dá­sam­legt sögðu þau, efti­rá.

Ströndin við Santa Maria – kílómetrar og kílómetrar af hvítum …
Strönd­in við Santa Maria – kíló­metr­ar og kíló­metr­ar af hvít­um sandi. Ljós­mynd/​Aðsend

Pedra de Lume, eig­in­lega kveiki­steinn, heit­ir þessi gíg­ur; varð til í sprengigosi fyr­ir millj­ón árum.

Við höfðum komið ak­andi frá hót­el­un­um sunn­ar á eynni, í og við bæ­inn Santa Maria. Þetta er ekki lang­ur akst­ur; eyj­an er ekki nema 216 fer­kíló­metr­ar; íbú­ar tæp 26.000. Þegar við nálg­umst Pedra de Lume sjá­um við ann­an gra­freita eyj­ar­inn­ar og hálf­byggða hót­el­sam­stæðu sem Ítal­ir ætluðu að reisa fyr­ir nokkr­um árum en svo kom kreppa í Evr­ópu. Hálf­köruð húsa­fylk­ing­in minn­ir mann á kvik­mynd­ar­legt virki í eyðimörk, svona úr fjar­lægð, og mér flýg­ur Ar­ab­íu-Lárens í hug. Þarna er líka kirkja með hvíta út­veggi, blá­máluð í kring­um glugga og dyr, með bláa hurð, og lít­inn kross á mæni. Þakið okk­urrautt. Það eru líka nokkr­ir ryðgaðir saltpramm­ar í fjör­unni. Einskon­ar skíðalyfta ligg­ur úr mann­gerðu skarði í gígn­um niðrað sjó. Þessa leið voru salt­bagg­arn­ir látn­ir gossa niðreft­ir. Þarna er líka yf­ir­gef­inn skóli. Flest­ir íbú­ar flutt­ir burt. Salt­vinnsluæðið úti, draum­ur­inn bú­inn. Fyrr á tíð var þarna salt­vinnsla, frá 16. öld og fram­um miðja 20. öld. Saltið eft­ir­sótt. Skip komu úr ýms­um átt­um eft­ir því. Mörg lögðu upp til Bras­il­íu með það.

Portú­gal­ar finna Græn­höfðaeyj­ar um miðja 15. öld. Þær eru þá óbyggðar. Ant­onio da Noli er sagður hafa komið fyrst­ur manna til Salteyj­ar. Hon­um þótti salt­magnið svo mikið í gígn­um að hann líkti því við snjó­inn í Ölp­un­um. Skipu­lagða salt­vinnslu má rekja til enda 18. ald­ar. Nú á dög­um er fram­leitt lít­il­ræði af salti, miðað við fyrri tíma. Til heima­brúks á eynni og líka í ýms­ar snyrti­vör­ur og svo­kallaða sjáv­ar­meðferð á Ítal­íu.

Vegna salts­ins heit­ir eyj­an Ilha do Sal, þ.e. Saltey ...

Sól­in í Sankti Maríu ...

Hita­belt­is­sól­in skín beint á skall­ann á manni hér á Saltey þótt maður taki varla eft­ir því enda vind­ur­inn í liði með sól­inni. Sí­felld norðaustan­átt­in hef­ur sveigt þau fáu tré sem hjara; engu lík­ara en að þau líti und­an, snúi höm­inni uppí vind­inn.

Saltey er ein kul­borðseyja. Á þeim blæs meira en á skjól­borðseyj­un­um. Stærst Græn­höfðaeyja er Santiago sem við get­um kallað Jak­obs­ey; tæp­ir 1000 fer­kíló­metr­ar, er skjól­borðseyja, fjöll­ótt og all-gróður­sæl. Þar er höfuðborg­in Praia. Skammt und­an er Fogo, þ.e. Eld­ey. Þar er hæsta fjall eyj­anna, Pico do Fogo, sum­sé Eldtind­ur, 2829 metr­ar; eina virka eld­fjallið á þess­um eyj­um sem jarðeld­ar skópu. Síðast varð þar gos 2014-2015

Saltvinnsla í Pedra de Lume.
Salt­vinnsla í Pedra de Lume. Ljós­mynd/​Aðsend

En snú­um aft­ur til Salteyj­ar. Þessi strönd hér við Santa Maria er hreint ótrú­leg, kíló­metr­ar og kíló­metr­ar af hvít­um sandi, og utar sést hviss­andi ald­an brotna og enn utar er safír­blár sær­inn, Atlants­hafið í blíðum ham. Það sigl­ir skúta hjá þönd­um segl­um; tónlist um borð, fólk að njóta lífs­ins. Og flug­bretta­menn­irn­ir svífa um við strönd­ina, ein­sog fugla­ger.

Og svo er maður kom­inn á Bryggj­una, með stór­um staf, því að það er bara ein bryggja í Santa Maria. Nokkr­ir trillukall­ar eru komn­ir að með afla. Eng­inn land­b­urður af fiski en samt nokkr­ir titt­ir. Einn sjó­ar­inn stend­ur þarna á bryggj­unni, ung­ur maður á stutt­bux­um og stutterma­bol með hatt­kúf á höfði, og hef­ur dregið á land hinn vænsta tún­fisk, svona rúm­lega eins metra lang­an, þykk­an og glæst­an. Sjó­maður­inn mund­ar hníf; ætl­ar að gera að fengn­um. En þetta er ein­hver bévít­ans kuti sem bít­ur ekki á blaut­an skít, og því síður á silf­urgljándi tún­fisk­inn. En hann sargar og sverf­ur og tekst loks að rista fisk­inn á kvið. Slorið vell­ur út. Hann þreif­ar um mag­ann, ber kut­ann að, nær að rjúfa gat og kann­ar með ann­arri hend­inni inn­haldið. Allt í einu dreg­ur hann hönd­ina út, held­ur á ein­hverju í lokuðum lófa en opn­ar hann svo framaní gláp­andi ferðamann sem rek­ur upp stór augu þegar í ljós kem­ur lít­ill og lögu­leg­ur sæhest­ur, blóðugur og auðvitað dauður. Sjó­maður­inn bregður hon­um í fötu fyllta sjó, skol­ar af hon­um og gef­ur hann síðan túr­hest­in­um sem veit eig­in­lega ekki hvað hann á að gera við hnossið/​hrossið ...

Mýkt og mús­ík ...

Í Santa Maria búa ríf­lega 6.000 manns. Þar er eig­in­lega bara ein aðal­gata og við hana eða í grennd við hana er allt. Þar er bar­inn Buddy: mannþröng við bar­borðið, þétt­set­inn bekk­ur­inn í litl­um saln­um sem er eig­in­lega bara stórt her­bergi; bekk­ir og borð ut­anmeð, fólk útá stétt líka í blíðu kvöld­inu.

„Sandlægjur“ og „sólsleikjur“ njóta lífsins á ströndinni við Santa Maria. …
„Sand­lægj­ur“ og „sól­s­leikj­ur“ njóta lífs­ins á strönd­inni við Santa Maria. Flug­bretta­menn, eins og fugla­ger, í bak­grunni. Ljós­mynd/​Aðsend

Luis sit­ur á lág­um palli innst um­kringd­ur ým­is­kon­ar raftól­um til að flytja og magna tónlist. Hann hef­ur gít­ar í fang­inu og hljóðnema næst­um því uppí sér. Mér er sagt að hann sé Spán­verji sem skaut hér rót­um fyr­ir mjööög löngu, orðinn heimamaður. Ná­ungi í kring­um fimm­tugt, sköll­ótt­ur, horaður en syng­ur af mikl­um krafti. Núna er hann að syngja Don't Worry, Be Happy og viðstadd­ir taka marg­ir und­ir viðlagið í þess­ari gömlu sum­ars­mellu.

Tvær ung­ar kon­ur dansa sam­an á miðju gólfi þar sem varla er pláss fyr­ir fleiri. Önnur er ensku­leg í fasi og fatnaði, grann­vax­in, með slegið ljóst hár niðrá hálft bak, í stutt­um blóma­kjól með hlýr­um, hef­ur fengið sér í eina tána, jafn­vel tvær – ekk­ert til­töku­mál hér á þess­um stað. Hún dans­ar með rykkj­um og hnykkj­um, stíg­ur skarpt til jarðar, hvet­ur grund frjáls­um fæti, ein­sog Hóras kvað, en stirðum liðamót­um. Hin kon­an er svört, í reynd óvenju dökk fyr­ir heima­mann að vera, hnell­in ung Salteyj­ar­stúlka sem látið hef­ur hrokkið hárið vaxa svo að það er í afróstíl hippa­tím­ans og muss­an henn­ar er líka hippaleg. Hún dans­ar ljúf­lega, sveig­ir sig eft­ir hljóma­fall­inu með þess­ari áreynslu­lausu mýkt og mús­ík í kroppn­um sem aðeins býr í þeim sem fengið hef­ur slíkt í vöggu­gjöf.

Luis er far­inn að svitna, syng­ur af svo mikl­um krafti en samt á slak­an máta sem kveðst ein­hvern­veg­inn á við ein­kunn­ar­orð eyj­ar­skeggja en þeir flíka þeim gjarn­an á spjöld­um eða á kort­um handa er­lend­um streitu­búk­um að kaupa: NO STRESS!

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert