Miðaldra kona leggur undir sig hálendið

Hópurinn saman kominn í heitu lauginni í Landmannalaugum. Allir sem …
Hópurinn saman kominn í heitu lauginni í Landmannalaugum. Allir sem einn með bros á vör. Ljósmynd/Matthías Sigurðsson

Ég hugsaði, ég verð að setja þetta upp í ein­hverja flókna stærðfræðiformúlu og reikna þetta út.  Ég ákvað að það væri best að diffra þetta, en mundi svo að ég kann ekk­ert að diffra, eina sem ég veit um dif­frun er að það er eitt­hvað stærðfræðihug­tak.  Ég út­skrifaðist af mála­deild úr MA, ein­mitt af því að mér fannst stærðfræði ekk­ert svo rosa­lega skemmti­leg.  Þetta vissi ég af því að ég byrjaði á stærðfræðibraut.  Ég ákvað því að beita bara al­mennri skyn­semi og Excel.  Það er ágæt­is lang­lífi í minni fjöl­skyldu.  Ása langamma varð níræð og Hörður afi rúm­lega níræður.  Ég hafði því alltaf gert ráð fyr­ir að verða alla­vega níræð.  Síðan breytti ég um lífstíl og fór að hreyfa mig meira og borða holl­ara.  Ég ákvað því blákalt að bæta 10 árum við þessa spá mína og reiknaðist því til að ég yrði hundrað ára.  Ég setti þetta upp í Excel til að vera viss um að fá rétta út­reikn­inga, þetta var frek­ar flók­in formúla „ =100/​2 = 50“.  Þannig að sam­kvæmt mín­um út­reikn­ing­um er ég akkúrat á miðjum aldri eða miðaldra.  Er ég þá gam­al­menni? Ónei, ég er á besta aldri, í besta formi lífs míns, bæði lík­am­lega og and­lega og það er sko nóg eft­ir í gömlu.

Veðurguðirnir voru blíðir við ferðalangana.
Veðurguðirn­ir voru blíðir við ferðalang­ana. Ljós­mynd/Á​sdís Ósk Vals­dótt­ir

Æfinga­helg­ar kynnt­ar hjá Land­vætt­um og stressið fer um suma

Þegar ég skráði mig í Land­vætt­ina hjá Ferðafé­lagi Íslands,FÍ Land­vætti, sendi Bryn­hild­ur Ólafs­dótt­ir yf­ir­leiðtogi okk­ar Land­vætt­anna mjög ít­ar­legt plan um æf­inga­helg­ar og mót.  Fyr­ir hverja þraut var ein æf­inga­helgi og æf­inga­helg­in sem ég kveið mest fyr­ir var göngu­skíðaferð inn í Land­manna­laug­ar.  Það kom til af nokkr­um ástæðum.

  1. Ég hef aldrei farið í Land­manna­laug­ar og vissi því ekk­ert hvað stóð til.
  2. Ég hef aldrei sofið í fjalla­skála, hvað þá með 80 manns og sá fyr­ir mér allskon­ar krís­ur sem gætu komið upp. Myndi ég sofa fyr­ir hrot­um?  Hvað ef ég vakna um miðja nótt og næ ekki að sofna aft­ur, vek ég alla með brölt­inu mínu?  Hvað ef ég þarf á sal­ernið um miðja nótt, það er ekki einu sinni í sama húsi?  Hvernig verður að vakna um miðja nótt, klæða sig í öll föt­in með til­heyr­andi brölti og vekja mögu­lega 80 manns með til­heyr­andi úrillu?  Hvað ef mér verður of kalt, hvað ef mér verður of heitt, hvað ef ég get ekki sofið í svefn­poka?  Síðast þegar ég svaf í svefn­poka þá var það í upp­hafi þess­ar­ar ald­ar.
  3. Ég hafði aldrei gengið 25 km á göngu­skíðunum á há­lend­inu og ég hafði smá áhyggj­ur af nokkr­um smá­atriðum, eins og hvað ef ég verð svöng? Hvað ef mér verður of heitt? Hvað ef mér verður of kalt?  Hvað ef ég þarf að pissa á leiðinni?  Hvað ef ég verð langsíðust og all­ir þurfa að bíða eft­ir mér?  Hvernig yrði braut­in, þyrft­um við að fara yfir á á leiðinni eða bratt­ar kletta­brún­ir?

Það stytt­ist í ferðina og Bryn­hild­ur sendi út upp­lýs­inga­póst­inn.  Þetta eru bestu póst­arn­ir, það kem­ur ein­fald­lega allt fram í þeim.  Þetta eru líka verstu póst­arn­ir, það kem­ur gjör­sam­lega allt fram í þeim.  Fyr­ir miðaldra kon­ur sem eru að stíga sín fyrstu skref þá get­ur þetta verið gíf­ur­leg­ur stressvald­ur.

Bryn­hild­ur tók fram hvaða nesti við þyrft­um að hafa.  Það yrði sam­eig­in­leg­ur kvöld­mat­ur og morg­un­mat­ur en við yrðum að nesta okk­ur fyr­ir göng­urn­ar sjálf­ar.  Við vær­um svona 4-6 tíma að ganga og hóf­legt nesti væri svona 2 flat­kök­ur og slatti af súkkulaðirús­ín­um og eitt­hvað til að drekka á leiðinni.  Ég horfði á þetta og hugsaði að hún hlyti að vera pínu veru­leikafirrt með þess­ar þarf­ir.  Hvað veit hún hvað ég þarf að borða?  Ég fór því og nestaði mig fyr­ir ferðina.  Ég keypti flat­kök­ur, hangi­kjöt, nokk­ur orku­stykki, dökkt súkkulaði, kanil­snúða, þurrkaða ávexti og hnetumix.  Setti þetta svo allt í dag­pok­ann minn með til­heyr­andi þyngsl­um.  Hvað skildi ég svo hafa borðað mikið hvora leið?  Jú ná­kvæm­lega 2 flat­kök­ur með hangi­kjöti og slatta af súkkulaðirús­ín­um.  Þetta var í síðasta skiptið sem ég rengdi matar­plön Bryn­hild­ar, eða bara ein­hver plön Bryn­hild­ar.

Hún sendi líka út leiðbein­ing­ar fyr­ir fata­val.  Mér leist ekk­ert held­ur á það.  Við vor­um að fara að ganga á há­lend­inu og ég er al­gjör kulda­skræfa.  Ég hef alltaf haldið því fram að stork­ur­inn minn hafi villst af leið.  Hann var á leiðinni í Kar­ab­íska hafið þegar hann lenti í felli­byl og villt­ist af leið.  Minn veðurfars­leg­ur kjör­hiti ligg­ur nefni­lega í kring­um svona 30 °C. 

Skáli Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum var þétt setinn af glaðlyndu …
Skáli Ferðafé­lags Íslands í Land­manna­laug­um var þétt set­inn af glaðlyndu göngu­skíðafólki. Ljós­mynd/Á​sdís Ósk Vals­dótt­ir

Tal­ar þú há­len­dísku?

Ég pakkaði því niður aðeins meira en þurfti fyr­ir göng­una, eina sem það skilaði var að þyngja bak­pok­ann á leiðinni.  Við þurft­um ekki kodda þar sem hún ætlaði að kenna okk­ur að gera kodda úr Primaloftjakka.  Það fannst mér reynd­ar ansi smart.  Svo kom rús­ín­an í pylsu­end­an­um.  All­ur far­ang­ur­inn á að rúm­ast í lít­illi trús­stösku.  Það var á þess­ari stundu að ég áttaði mig á því að þrátt fyr­ir að tala 3 tungu­mál reiprenn­andi, ég hafði meira segja verið túlk­ur fyr­ir spænska landsliðið á HM í hand­bolta 1995, þá skildi ég ekki orð í há­len­dísku. Hvað í ósköp­un­um er trús­staska?  Sá bara fyr­ir mér ein­hverja trúss­hesta og gat bara ekki ímyndað mér hvað kon­an átti við.  Sendi póst til Bryn­hild­ar sem svaraði um hæl með mynd af dæmi­gerðri trús­stösku.  Ég leitaði mikið af nógu lít­illi trús­stösku.  Var búin að fá lánaðan svefn­poka sem tók ansi mikið pláss.  Þetta orð lít­il trús­staska stressaði mig ansi mikið.  Hvað er lít­il?  Hvað ef það yrði bara ekk­ert pláss fyr­ir all­ar tösk­urn­ar? Yrði bara eitt­hvað skilið eft­ir og við köld og hrak­in á há­lend­inu í blaut­um föt­um? Hversu mik­il harðjaxla­ferð var þetta?  Ég var bara svona 1 á skal­an­um 1 -10.  Yrði þetta eitt­hvað svona lost in the wilder­ness dæmi?  Eitt­hvað eins og Survi­vor þætt­irn­ir, nema bara í staðinn fyr­ir að hafa það heitt og nota­legt, mynd­um við detta út í frost­inu.

Bryn­hild­ur sagði að hafa ekki áhyggj­ur, trús­stösk­ur geta verið allskon­ar.  Það hefði meira að segja ein komið með bleika flug­freyjutösku í fyrra.  Við þetta róaðist ég aðeins og áttaði mig á því að sund­task­an sem ég keypti á Baham­as var bara hin fín­asta trús­staska.  Ég pakkaði samt niður eins litlu og ég gat, enda var búið að gefa það út ef við lent­um í vand­ræðum með töskupláss þá yrði pakkað mis­k­un­ar­laust upp úr tösk­un­um áður en við lögðum af stað.   Þetta reynd­ist vera fyrsta ferðalagið sem ég fór í á æv­inni sem ég notaði allt sem ég tók með.  Eft­ir á að hyggja hefði samt verið gott að taka með eitt auka sokkap­ar.

Er fjalla­skáli í Land­manna­laug­um eins og ferja á Amazon?

Ég svaf illa um nótt­ina, var frek­ar stressuð að þetta myndi bara alls ekki ganga vel.  Ég hafði mikl­ar áhyggj­ur af því hvernig skál­inn yrði, enda aldrei gist í fjalla­skála á æv­inni. Hvernig var svefnaðstaðan, voru þetta kannski bara harðir bekk­ir?  Yrði ég prins­ess­an á baun­inni?   Hvernig verður lykt­in og búk­hljóðin hjá 80 manns?  Þegar ég var tví­tug ferðaðist ég um Suður Am­er­íku.  Við ferðuðumst með ferju á Amazon ánni í nokkra daga.  Kló­sett aðstaðan var ekki upp á marga fiska og kló­settið angaði eins og óútstungið fjár­hús að vori.  Yrði þetta eins?  Mun­ur­inn þar var reynd­ar að við sváf­um i hengi­rúm­um und­ir ber­um himni og 20 ára blaðran var mun sam­vinnuþýðari en þessi 50.  Verður hægt að opna glugga?

Við hitt­umst á venju­lega staðnum okk­ar, Olís plan­inu við Norðlinga­holtið og ég fékk far með 2 verðandi Land­vætt­um.  Síðan keyrðum við sam­an til Há­lend­ismiðstöðvar­inn­ar í Hraun­eyj­um þar sem við tók­um smá pepp­fund, tók­um nest­ispásu og síðasta pissupás­an áður en við lögðum af stað til Sigöldu þar sem planið var að byrja að ganga inn í Land­manna­laug­ar.

Þegar þangað var komið var komið að stóru stund­inni, við spennt­um á okk­ur skíðin og héld­um af stað út í óviss­una.  Þetta gekk ágæt­lega í upp­hafi.  Ég var svo hepp­in að vera mjög framar­lega og náði al­veg að halda í við tempóið sem  hann Ró­bert Mars­hall ann­ar for­svars­manna Land­vætt­anna gekk á.  Svo kom fyrsta nest­ispás­an.  Ég var ekk­ert að fylgj­ast með, þurfti að fara á bakvið stein að pissa og hluti hóps­ins var lagður af stað þegar ég var til­bú­in.  Ég var ekk­ert stressuð að ég yrði skil­in eft­ir, enda er Land­vætta­pró­grammið hugsað fyr­ir alla sem upp­fylla þeirra kröf­ur.  Kraf­an er sem sagt að all­ir sem geta hlaupið 10 km á 90 mín­út­um í upp­hafi pró­gramms eiga er­indi og eiga mögu­leika á að klára pró­grammið ef þeir fylgja leiðbein­ing­um og halda vel utan um æf­ing­arn­ar sín­ar all­an vet­ur­inn.  Í hverju stoppi versnaði þetta samt aðeins og eft­ir síðasta stoppið var ég orðin langsíðust, þ.e. ég og Birna Braga­dótt­ir far­ar­stjóri.  Ég var pínu far­in að vor­kenna henni að þurfa að hanga ein með mér síðustu kíló­metr­ana.  Þarna kom ber­lega í ljós hversu mik­il­væg­ur haus­inn á manni er.  Ég var búin að hafa áhyggj­ur af því all­an tím­ann að ég yrði síðust og með það lagði ég upp.  Ég var þreytt og ósof­in og ekki nógu vel fyr­ir kölluð.  Það má auðveld­lega koma í veg fyr­ir þetta með því að peppa sjálf­an sig bara bet­ur upp fyr­ir ferðina.  Birna reynd­ist hins veg­ar betri en eng­inn.  Al­veg poll­ró­leg all­an tím­ann, lét mig aldrei finna að þetta væri eitt­hvað vesen að ég væri síðust.  Hún hafði hins veg­ar verið loft­hrædd eins og ég og skildi mig því full­kom­lega og það hjálpaði heil­mikið að hafa hana með mér.

Þröngt mega sáttir liggja.
Þröngt mega sátt­ir liggja. Ljós­mynd/​Skja­skot

Fjalla­geit­ur frjó­sa á þver­hníptri hlíð

Það voru 2 vélsleðar sem fylgdu okk­ur alla leið.  Bæði til að passa að eng­inn úr hópn­um týnd­ist og líka ef ein­hver bugaðist þá var hægt að fá far með vélsleðanum, annað hvort alla leið eða hluta úr leið. Það var búið að tala um ein­hverja hlíð sem við þyrft­um að kom­ast yfir til að kom­ast í skál­ann.  Það verður að viður­kenn­ast að það fór að mynd­ast kvíðahnút­ur í mag­an­um við þess­ar frétt­ir.  Hversu brött yrði hún og hversu hátt yrði fallið í ána sem var fyr­ir neðan?  Þegar við vor­um kom­in ansi langt þá kem­ur mjög brött brekka.  Ann­ar vélsleðagaur­inn bauð mér far.  Mér fannst það hið besta mál, enda ekki verið boðið á rúnt­inn síðan ég var 17.  Ég hélt líka að mögu­lega væri þetta hlíðin og var svo ansi kát með að sleppa svona létt.  Nei, Ásdís þetta er brekka, ekki hlíð.  Við færðust alltaf nær og nær þess­ari hlíð og kvíðahnút­ur­inn stækkaði og stækkaði.  Ég fór að hugsa, hvað er það versta sem get­ur gerst, jú, ég bara kemst ekki yfir þessa blessuðu hlíð og fer heim.  Hvernig ég ætlaði heim var ekki al­veg út­fært.  Þarna var ég reynd­ar ekki að hugsa al­veg rök­rétt þar sem það voru bæði vélsleðar og jepp­ar með í för sem hefðu reddað mér.   Hóp­ur­inn beið eft­ir okk­ur Birnu, eða mér þar sem Birna hefði verið löngu kom­in.  Loks­ins var komið að hlíðinni.  Ég horfði á aðstæður og sá þver­hnípta hlíð, eitt göngu­skíðasp­or og svo þessa blessuðu á beint fyr­ir neðan.  Mér leist ekk­ert á þetta og ræddi þetta við Birnu.  Hún horfði beint á mig og sagði, veistu Ásdís, þú get­ur þetta al­veg, ég veit það.  Með þetta trúnaðar­traust að láni frá Birnu fór ég áfram  Ég ákvað að vera aft­ar­lega í hópn­um.  Fannst það flokk­ast und­ir sam­fé­lags­lega ábyrgð því ef ég dytti og tæki ein­hvern með mér í fall­inu þá yrðu það amk ekki marg­ir.  Þegar kom að því að þrepa hlíðina þá var loft­hrædda fjalla­geit­in orðin mjög stressuð.  Það var sann­ar­lega göngu­skíðasp­or en það er sko eitt að ganga mjóa hlíð með þver­hnípi niður á 2 m löng­um snjóþrúg­um í hálku.  Ég sá fyr­ir mér að ég myndi bara bruss­ast beint ofan í á og drukkna þar með fæt­urn­ar upp í loftið því að allt björg­un­ar­sveitar­fólkið mitt þyrfti jú tíma til að losa skíðin af.  Ég fór í sporið og fraus.  Fann strax að þetta myndi ekki ganga.  Þarna voru góð ráð dýr.  Þú ert kom­in í sporið, þú get­ur ein­fald­lega ekki bakkað.  Bæði vegna þess að það var fólk fyr­ir aft­an þig og svo var ég bara ekk­ert rosa­lega góð að bakka á göngu­skíðum og hefði lík­lega endað í ánni.  Neyðin kenn­ir naktri konu að spinna.  Ég horfði yfir hlíðina, sá alla skjót­ast yfir eins og ekk­ert væri og svo sá ég snjó fyr­ir ofan sporið.  Ég sleppti því bara spor­inu og þrepaði mig ofar í hlíðinni þar sem ég náði miklu betri festu í djúp­um snjó held­ur en gler­hálu spor­inu.  Ég lifði hlíðina af og þá var þetta bara beinn og breiður veg­ur í kof­ann, hélt ég sko.  Við kom­um að bryggj­unni og allt gekk vel, all­ir komn­ir yfir nema ég sem var síðust.  Þá kom síðasta brekk­an mín.  Það var ör­mjór gönguplanki frá bryggj­unni yfir á landið.  Ég stoppaði og fór að hugsa hvað gæti farið úr­skeiðis og þá var ekki aft­ur snúið.  Það héldu all­ir áfram enda beinn og breiður veg­ur.  Svo lít­ur Bryn­hild­ur aft­ur fyr­ir sig og sér að ég er ennþá á bryggj­unni.  Ásdís mín, er ekki allt í lagi, Nei, sagði ég aum­ingja­lega því grín­laust þetta var pínu glatað að kom­ast ekki yfir.  Fallið var svona ca 1 m. Það hefði eng­inn dáið við það.  Kemstu yfir, Nei, eig­um við að sækja þig, já takk.  Ragn­ar Ant­onius­sen björg­un­ar­sveit­armaður var send­ur eft­ir mér, enda dugði ekk­ert minna en fagmaður í verkið.  Hann reyndi ýms­ar þekkt­ar björg­un­ar­leiðir svo sem að halda í staf­ina og láta mig fara þannig yfir.  Mér fannst það glötuð hug­mynd því ég sá fyr­ir mér að ég myndi bara brjóta staf­ina og detta niður.  Leiðin sem við fór­um var að hann tók skíðin og staf­ina og rétti mér svo hend­ina og tosaði mig yfir.  Mér fannst nefn­in­lega ólík­legra að ég næði að draga hann niður í fall­inu enda bæði stærri og þyngri en ég.  Leiðin til baka gekk fínt. Ragn­ar tosaði mig yfir plank­ann og það var ekk­ert mál að þrepa hlíðina því það er svo ein­falt að þegar það er búið að sigr­ast á ótt­an­um einu sinni þá er þetta yf­ir­leitt ekk­ert mál næst þegar það þarf að gera þetta.

Þrátt fyr­ir smá hnökra á leiðinni inn í Land­manna­laug­ar, eins og að vera síðust og þreytt þá var þetta frá­bær ganga.  Veðrið var mjög gott og lands­lagið stór­brotið.  Ég var mjög feg­in að hafa komið með.

For­svars­menn Land­vætt­anna, Bryn­hild­ur og Ró­bert, sem og all­ir far­ar­stjór­arn­ir halda svo gíf­ur­lega vel utan um hóp­inn og hjálpa okk­ur að vaxa og verða betri.  Ég hefði bara ekki getað valið betri fé­lags­skap til að byrja minn íþrótta- og úti­vist­ar­fer­il en Land­vætt­ina.

Það er samt ekki al­veg þannig að ég hafi ekki átt mín mó­ment sem íþrótta­hetja á mín­um yngri árum.  Einu sinni varð ég næst­um því í þriðja sæti í mín­um ald­urs­flokki á svigskíðum á Dal­vík.  Það voru 2 kepp­end­ur, ég bara tók ekki þátt. Svo vann ég einu sinni kapp­róður á 17. júní á Dal­vík.  Ég var stýri­maður­inn.  Ég var bara betri í því að læra skóla­ljóðin utan að held­ur en að reyna mikið á mig lík­am­lega.

Látið líða úr sér í heita pott­in­um

Þegar við kom­um á staðinn var búið að ákveða að skella sér í ein­hvern pott.  Mér fannst það nú ansi gott að hafa pott á Há­lend­inu.  Þetta reynd­ist vera geggjuð heit nátt­úru­laug.  Ró­bert var bú­inn að segja að við ætt­um bara að fara í skíðaskón­um, jakka og sund­bol út í þessa laug.  Ég ákvað bara að hlýða því. Það var stór­kost­legt að fara í heita laug eft­ir lang­an dag.  Hún var reynd­ar svo heit að við fór­um reglu­lega upp úr og velt­um okk­ur upp úr köld­um snjón­um til að kæla okk­ur.  Um kvöldið var sam­eig­in­leg­ur kvöld­mat­ur og svo var kvöld­vaka.  Bryn­hild­ur kenndi mer að gera kodda úr primaloftúlpu og ekki laust við að gamli skát­inn sem hafði legið í dvala í ára­tugi léti á sér kræla.  Þetta hefði pottþétt verið færni­merki í denn.

All­ar mín­ar áhyggj­ur af sal­ern­isaðstöðu og hörðum bekkj­um í fjalla­kof­an­um reynd­ust ástæðulaus­ar.  Það voru fín­ar dýn­ur og það var sofið á 2 hæðum, nóg pláss fyr­ir alla.  Renn­andi vatn í sal­erni og heit­ar sturt­ur, aðstaðan var til fyr­ir­mynd­ar.  Eft­ir á að hyggja hefði ég getað sparað mér and­vöku­næt­ur og stress og kvíðahnúta.  Þetta var miklu skemmti­legra og betra en ég átti von á.  Þarna spilaði Land­vætta­hóp­ur­inn stærsta hlut­inn.  Fólkið í pró­gramm­inu er ein­fald­lega gíf­ur­lega skemmti­legt og sam­heldið.  Alltaf til­búið að gefa af sér, leiðbeina og hjálpa. Hérna er mark­miðið að all­ir njóti og klári. Þetta stress mitt lit­ast pínu af fyrri tíma reynslu.  Ég reyndi mikið að fara í fjall­göng­ur, það var alltaf svipuð reynsla.  Ég var síðust og hóp­ur­inn sem ég gekk með var á und­an.  Ég náði þeim alltaf þegar þau voru búin að setj­ast niður og hvíla sig og jafn­vel nesta sig.  Þegar ég loks­ins kom, þá var alltaf ein­hver sem sagði, jæja, all­ir komn­ir, þá get­um við lagt af stað.  Þannig að ég náði sjald­an minni hvíld og minni nest­ispásu.  Land­vætta­pró­grammið er and­stæða þess­ar­ar upp­lif­un­ar.  Það er bara gíf­ur­lega vel haldið utan um alla.

Ferðin til baka var ekk­ert minna en stór­kost­leg.  Veðrið var eins og best var á kosið. Sól og hlýtt en samt vind­ur.  Það var reynd­ar svo mik­ill meðvind­ur að við vor­um ekki nema 3,16 klst til baka á meðan ég var 4,52 klst inn eft­ir.  Mér leið vel og færið var gott og ég endaði í miðjum hópi og hélt mig þar.  Það er allt svo miklu auðveld­ara þegar sjálfs­traustið er í lagi.  Við kom­um miklu fyrr heim en áætlað var þannig að ég náði meira að segja í ferm­ing­ar­veisl­una hjá Ísaki syst­ur­syni minni þannig að helg­in var full­kom­in.

Ég er ekki orðin fullnuma í há­len­dísku en ég er far­in að geta pantað af mat­seðlin­um.

5 ráð fyr­ir framtíðar há­lend­is­fara.

  1. Ekki of­hugsa þetta, treystu skipu­leggj­end­um. Þeir kunna þetta og vita hvað þarf og hvað er hægt að gera
  2. Það þarf ekki að eiga allt. Fáðu lánað á meðan þú ert að finna út úr því hvað hent­ar þér
  3. Það sem þú kaup­ir, ekki kaupa einnota. Það eru góðar lík­ur á því að þú eig­ir eft­ir að fara aft­ur þannig að oft er dýr­ara að kaupa ódýrt fyrst.
  4. Farðu í ferðina með opn­um huga. Þetta er æv­in­týri fyrst og fremst.
  5. Njóta en ekki þjóta.

Fyr­ir þá sem vilja fylgj­ast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á In­sta­gram: as­disoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert