Uppáháldsstaður Unnar á Tenerife

Lífið á Teneri­fe er draumi lík­ast og aldrei logn­molla í …
Lífið á Teneri­fe er draumi lík­ast og aldrei logn­molla í kring­um Unni Maríu og fjöl­skyldu Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Þau hafa náð að kynn­ast eyj­unni nokkuð vel á þess­um mánuðum og deil­ir Unn­ur María með les­end­um Ferðavefjar­ins sín­um eft­ir­læt­is­stöðum á eyj­unni.

Göngu­leiðin frá Santiago del Teide yfir til Masca

Þetta er sú göngu­leið sem kom mér hvað mest á óvart, því­lík nátt­úru­feg­urð. Masca er af mörg­um tal­inn vera einn feg­ursti staður Teneri­fe en það er eitt­hvað töfr­andi við Masca, kannski vegna sögu þess og hversu af­skekkt það var þar til fyr­ir aðeins nokkr­um árum. Þorpið sem nú tel­ur 80 íbúa hef­ur stund­um verið kallað týnda þorpið því það var ekki fyrr en árið 1991 sem veg­ur var lagður að þorp­inu. Frá bæn­um Santiago del Teide ligg­ur þessi fal­lega 10 km langa göngu­leið yfir Teno-fjall­g­arðinn og yfir til Masca, sem ég get svo sann­ar­lega mælt með!

Horft yfir Masca sem er af mörgum talinn einn fegursti …
Horft yfir Masca sem er af mörg­um tal­inn einn feg­ursti staður Teneri­fe. Ljós­mynd/​Unn­ur María Pálma­dótt­ir

Duque-strönd­in

Það er alltaf nota­legt að kíkja aðeins á strönd­ina, en strand­lengj­an á suður­hlut­an­um tel­ur sam­tals níu strend­ur frá gamla bæn­um í Los Cristianos upp að Duque-strönd­inni sem er án vafa okk­ar upp­á­halds­strönd hér á Teneri­fe. Hún er ólík hinum strönd­un­um að því leyti að um­hverfið er allt mun skemmti­legra og af­slappaðra. Göngu­stíg­ur­inn meðfram strönd­inni og veit­ingastaðirn­ir minna svo­lítið á Ítal­íu, eitt­hvað svo róm­an­tískt. Við end­ann á strönd­inni er svo Duque-kast­al­inn sem set­ur skemmti­leg­an svip á strönd­ina. Fyr­ir þá sem eru að leita af ró­legra um­hverfi burt frá skarkal­an­um þá er dag­ur á Duque-strönd­inni full­kom­inn.

Duque-ströndin býður upp á afslappað og skemmtilegt umhverfi.
Duque-strönd­in býður upp á af­slappað og skemmti­legt um­hverfi. Ljós­mynd/​Unn­ur María Pálma­dótt­ir

Barr­anco de in­fierno eða Hel­vít­is­gilið

Gilið sem geng­ur und­ir nafn­inu Hel­vít­is­gilið. Al­gjör­lega frá­bær göngu­leið sem hefst efst í bæn­um Adeje, rétt fyr­ir ofan ferðmanna­svæðið. Á göngu­leiðinni má sjá ótrú­lega skemmti­legt fugla­líf, suðræn­an gróður, gul fiðrildi á sveimi og froska sem synda í litl­um tjörn­um. Þeir gefa frá furðulega há­vær og sér­kenni­leg hljóð sem berg­mála í gil­inu. Í botn­in­um á gil­inu er svo að finna fal­leg­an foss, en það er lengsti foss Teneri­fe. Hann blikn­ar nú í sam­an­b­urði við fal­legu foss­ana okk­ar á Íslandi en engu að síður fal­leg­ur að sjá. Leiðin er vel merkt alla leið og göngu­stíg­ur­inn nokkuð þægi­leg­ur. Gott er að hafa í huga að aðeins 300 manns fá að ganga leiðina á dag og því er nauðsyn­legt að bóka fyr­ir fram á heimasíðunni þeirra.  Leiðin er 6,5 km löng og göngu­tím­inn er um 3 klukku­stund­ir fram og til baka. Öllum er skylt að nota hjálma á leiðinni eft­ir bana­slys sem varð þar fyr­ir nokkr­um árum og halda sig á göngu­stígn­um. Mæli klár­lega með þess­ari leið fyr­ir þá sem vilja kom­ast aðeins út í nátt­úr­una og hreyfa sig.

Einungis 300 manns á dag fá leyfi til að ganga …
Ein­ung­is 300 manns á dag fá leyfi til að ganga Barr­anco de in­fierno-göngu­leiðina og því nauðsyn­legt að bóka fyr­ir fram. Ljós­mynd/​Unn­ur María Pálma­dótt­ir

Teide og þjóðgarður­inn

Teide-þjóðgarður­inn sem staðsett­ur er á miðri eyj­unni er gríðar­vin­sæll meðal ferðmanna og ekki að ástæðulausu. Garður­inn er á minja­skrá Unesco og er kennd­ur við eld­fjallið Teide, hæsta fjall Spán­ar, en topp­ur þess er í 3.718 m hæð sem ger­ir það að þriðja hæsta eld­fjalli í heimi. Vin­sælt er að taka kláfinn upp á topp og þaðan er svo hægt (með leyfi) að ganga tæpa 170 m ofar upp á topp fjalls­ins. Það ber þó að var­ast að loftið í þess­ari hæð er þynnra og þeim sem eru viðkæm­ir fyr­ir er ekki ráðlagt að fara upp. Einnig er boðið upp á sól­set­urs­ferð upp á topp­inn sem er mjög áhuga­vert.

Hér sést í eldfjallið Teide sem er þriðja hæsta eldfjall …
Hér sést í eld­fjallið Teide sem er þriðja hæsta eld­fjall í heimi. Ljós­mynd/​Unn­ur María Pálma­dótt­ir

Sigl­ing og sjó­sund í Los Gig­an­tes

Fyr­ir þá sem vilja skreppa aðeins frá strand­ar­líf­inu er skemmti­legt að fara í bíltúr og skoða bæ­inn Los Gig­an­tes. Bær­inn er gam­alt fiskiþorp og eru helstu ein­kenni bæj­ar­ins tigna­leg­ir klett­ar sem teygja sig upp eina 800 metra. Los Gig­an­tes er sagður sól­rík­asti staður eyj­unn­ar svo ef það er skýjað niðri við am­er­ísku strönd­ina er lík­legt að sól­ina sé að finna í Los Gig­an­tes. Á leiðinni að bæn­um er út­sýn­ispall­ur með skemmti­leg­um veit­ingastað sem ég get mælt með. Við höfn­ina er svo boðið upp á fjöl­breytt­ar sigl­ing­ar þar sem siglt er út eft­ir klett­un­um og al­veg að Masca-gil­inu, þeir sem vilja mega taka sér sund­sprett í sjón­um og jafn­vel snorkla. Nátt­úru­laug­in Isla Cangrejo, mann­gerð laug við sjó­inn vek­ur líka áhuga margra, en þar er vin­sælt að stinga sér til sunds í góðu veðri, en hafa þó var­ann á því öld­urn­ar geta verið ansi kröft­ug­ar á þessu svæði.

Los Gigantes er sagður sólríkasti staður eyjunnar.
Los Gig­an­tes er sagður sól­rík­asti staður eyj­unn­ar. Ljós­mynd/​Unn­ur María Pálma­dótt­ir

Fyr­ir þá sem hafa áhuga er hægt að fylgj­ast með Unni Maríu og ferðalög­um henn­ar um eyj­una á Face­book-síðunni Íslend­ing­ar á Teneri­fe. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert