Enginn dagur dæmigerður á skútunni

Ævintýraleg stund á skútunni.
Ævintýraleg stund á skútunni. Ljósmynd/Kelvin Trautman

Óhætt er að segja að þær hafi vakið þónokkra athygli á samfélagsmiðlum en bæði hafa fyrirtækin og viðskiptavinir verið dugleg að pósta myndum og frásögnum úr ferðalögunum saman. Í upphafi var Sigurður Jónsson, stofnandi og eigandi Aurora Arktika, skipstjórinn í þessum ferðum en undanfarin tvö ár hafa Ólafur Kolbeinn Guðmundsson, Hayat Mokhenache og Viðar Kristinsson einnig verið skipsstjórar í ferðunum. Inga Fanney hefur verið hlaupaleiðsögumaðurinn í öllum þessum ferðum hingað til, enda hennar ær og kýr.

Hvað er hlaupaskútuferð?

„Hlaupaskútuferð er samsetning þriggja orða sem eru hvert fyrir sig lýsandi fyrir sinn hluta fyrirbærisins: Hlaupa - skútu - ferð(alag). Í hlaupaskútuferðum er ferðast með skútu á upphafsstað hlaups, hlauparar fara þar í land á léttabát og hlaupa um ákveðið svæði, ákveðna leið og hitta skútuna svo aftur á endastað hlaupsins. Oftar en ekki siglir skútan á milli fjarða og víkna á meðan hlauparar nota tvo jafnfljóta til að komast þangað.“

Hvað kom til að þú fórst að bjóða upp á þessar ferðir?

„Ég hitti Sigurð Jónsson, skipstjóra, fyrir tilviljun á ferðakaupstefnu í Reykjavík þar sem ég var að kynna mitt fyrirtæki, Inga Fanney Travels, og Sigurður Jónsson sitt, Aurora Arktika. Þá hafði Aurora Arktika boðið uppá gönguferðir um friðland Hornstranda í fjölmörg ár en langaði til að bæta við upplifunum. Ég hafði jafnframt boðið uppá hlaupaferðir í mörg ár og langaði til að kanna nýja áfangastaði og útfærslur. Síðar sama ár fórum við saman í prufu ferð og þar sem það gekk ágætlega var ákveðið að bjóða fleirum með í för ári síðar.“

Inga Fanney rýnir í næstu skref með hlaupurum.
Inga Fanney rýnir í næstu skref með hlaupurum. Ljósmynd/Kelvin Trautman


Hvernig er hefðbundinn dagur í hlaupaskútuferð?

„Enginn dagur er dæmigerður í hlaupaskútuferð og ekkert plan er 100% heldur í hlaupaskútuferð. Því í óbyggðum verður að fara varlega og spila ferðina eftir veðri og vindum. Til dæmis í Hornstrandaferðinni 8.-13.júlí í ár er stefnt að því að fara fyrsta dag siglandi frá Ísafirði í Hesteyrarfjörð og hlaupa aðeins um þar. Jafnframt nýtum við tímann til að skoða gamlar minjar frá hvalstöðinni, komum við í gamla læknishúsinu og könnum fornar slóðir. Það er hægt að stilla hlaupadagleiðirnar af í þessum firði og því er þetta góður staður til að hefja hlaupalegg ferðarinnar. Dæmigerður dagur í hlaupaskútuferð er að vakna  í rólegheitum á bátnum, borða morgunmat og fara yfir plan dagsins. Því næst taka allir til við að undirbúa sig, fara í hlaupagallann, smyrja sér samlokur og undirbúa hlaupabakpokann. Þá skutlar skipstjórinn hópnum í land á léttabátnum sem tekur yfirleitt bara örfáar mínútur. Þar sem við byrjum við sjávarmál er mjög algengt að hlaup dagsins byrji á því að fara upp í móti og fer það eftir undirlendinu hvort hægt sé að hlaupa það eða ganga rösklega. Oftar en ekki liggja leiðirnar yfir í aðra vík eða annan fjörð og er því farið upp á fjall eða í fjallaskarð til að komast yfir. Þetta er ekki stanslaust hlaup, heldur er stoppað oft á leiðinni til að taka myndir, borða nesti, hlæja, dást og hvað sem okkur dettur í hug. Þegar á áfangastað er komið kemur skipstjórinn aftur að sækja okkur og flytur okkur um borð í skútuna þar sem flestir fá sér drykk og snarl, skipta um föt, hoppa í sjóinn, fara á kajak, stand up paddle board, leggja sig, lesa bók, taka myndir eða bara hvað sem fólki dettur í hug. Þá er kvöldmatur og farið yfir daginn og það sem er á dagskrá fyrir daginn eftir. Stundum er siglt og hlaupið, stundum er bara hlaupið. Stundum taka veðurguðirnir framfyrir hendurnar á okkur og beina okkur í aðra átt en við ætluðum, en það er einmitt það skemmtilega við þessa gerð af ferðalögum.“

Notaleg kvöldstund í skútunni.
Notaleg kvöldstund í skútunni. Ljósmynd/Kelvin Trautman

Hvert er helst verið að fara í þessum ferðum?

„Smám saman hefur hugmyndin þróast yfir á Grænland og verður nú í sumar farið fjórða árið í röð í hlaupaskútuferð á Austur Grænland. Þá fljúga flestir hlauparar til Kulusuk þar sem skútan bíður í höfninni og fara svo með henni í 8 daga um Austur Grænland, hlaupandi og siglandi. Grænland er vitanlega afskaplega stórbrotið og sérstakt og ekkert í líkingu við friðland Hornstranda að hlaupa í. Enda eru engir stígar, engar götur og engar leiðir. Hér fylgjum við hjartanu en fyrst og fremst þurfum við að gæta fyllsta öryggis því þetta er ekki eins og á Íslandi þar sem hægt er að ferðast án þess að óttast nein dýr. Á Austur Grænlandi geta verið ísbirnir og þarf leiðsögumaðurinn því að hlaupa með riffil sem allra sísta kost til að verja hlaupahópinn ef ferðalangar skyldu rekast á hann, en það hefur aldrei komið til þess hingað til. Svo eru stundum líka moskítóflugur, sem okkur Íslendingum finnst oft ólíklegt þar sem við erum svona nálægt, moskítólaus.
Í fyrsta skipti verður boðið uppá hlaupaskútuferð á Suður Grænlandi í júní á þessu ári. Þá fljúga hlaupararnir til Narsarsuaq og hitta skútuna þar, ferðast á milli siglandi og hlaupandi. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi ferð er farin en greinilega er mikil eftirvænting eftir henni þar sem hún er fullbókuð og sumir sem hafa komið ýmist í hlaupaskútuferðirnar á Hornströndum eða Austur Grænlandi sem vilja prófa þennan nýja áfangastað.“

Það borgar sig að fara vel búinn á land í …
Það borgar sig að fara vel búinn á land í Grænlandi ef ísbirnir skyldu láta sjá sig. Ljósmynd/Kelvin Trautman

Hvað er svo framundan?

„Það eru örfá sæti laus í hlaupaskútuferðina á Hornströndum 8.-13.júlí í ár þar sem ég fer með Ólafi Kolbeini um friðlandið, hann siglir og ég hleyp. Þetta er í fyrsta skipti sem það eru fleiri íslenskir ferðamenn skráðir í hlaupaferð en erlendir ferðamenn. Suður Grænlands ferðin í júní er uppbókuð en tvö sæti eru ennþá laus í Austur Grænlands ferðinni 11.-19. Ágúst í ár.
Annars sigla Aurora og Arktika um norðlæg höf allan ársins hring og ég hleyp sjálf allan ársins hring um Ísland, Grænland og Færeyjar og eru frekari upplýsingar um það á vefsíðunni minni

Þeir sem vilja fylgjast frekar með hlaupaskútuævintýrum er bent á instagram síðurnar @auroraarktika og @ingafann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka