Mæðgur gefa út bók um Tenerife

Mæðgurnar á góðri stund á Tenerife.
Mæðgurnar á góðri stund á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Snæfríður gaf út hand­bók­ina „Ævin­týra­eyj­an Teneri­fe - stór æv­in­týri á lít­illi eyju“ í fyrra­vor en nýja bók­in sem heit­ir „Teneri­fe krakka­bók­in - Geggjað stuð fyr­ir hressa krakka” er af allt öðrum toga en um er að ræða sam­starfs­verk­efni henn­ar og dótt­ur­inn­ar Ragn­heiðar Ingu, en fjöl­skyld­an hef­ur verið bú­sett á Teneri­fe í nærri því ár.  

Hvað kom til að þið skrifuðuð þessa bók sam­an?

Ragn­heiður:  „Mamma skrifaði bók um Teneri­fe í fyrra sem var mjög vin­sæl. Mér fannst hún hins veg­ar ekki nógu skemmti­leg fyr­ir krakka því hún fjallaði mest um göngu­ferðir og geita­ost. Það er fullt skemmti­legt að gera fyr­ir krakka á Teneri­fe og ég segi frá því helsta í þess­ari bók. Við erum sjálf búin að prófa allt sem er sagt frá í bók­inni svo þetta er eng­inn aug­lýs­inga­bækling­ur.“

Snæfríður: „Ragn­heiður var að skrifa um lífið á Teneri­fe í dag­bók­ina sína og þar sem við vor­um alltaf að gera fjöl­skyldu­væna hluti á Teneri­fe þá kom þessi hug­mynd fljót­lega upp að við mynd­um hrein­lega setja sam­an ferðahand­bók fyr­ir krakka.“

Bókin er stútfull af hugmyndum að geggjuðu stuði fyrir hressa …
Bók­in er stút­full af hug­mynd­um að geggjuðu stuði fyr­ir hressa krakka. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvað eruð þið fjöl­skyld­an búin að búa úti lengi? Hvað kom til að þið fluttuð út?

Snæfríður: „Eins og svo marga Íslend­inga dreymdi okk­ur um að prófa að búa á heit­ari slóðum. Við höf­um ferðast reglu­lega til Kana­ríeyja und­an­far­in ár og heill­ast mjög af eyj­un­um. Við ákváðum að láta þenn­an draum okk­ar ræt­ast og flutt­um út í lok síðasta sum­ars,  en erum reynd­ar á heim­leið eft­ir viðburðarík­an vet­ur. Það virðist aldrei vera rétti tím­inn fyr­ir svona æv­in­týri, börn­in eru aldrei á rétta aldr­in­um eða pen­ingastaðan er aldrei eins og hún á að vera. En nú þegar þessi vet­ur er á enda þá erum við afar sátt við að hafa látið slag standa. Við erum reynsl­unni rík­ari og dæt­urn­ar þrjár eru altalandi á spænsku.“

Ragn­heiður: „Ég kunni ekk­ert í spænsku þegar við kom­um hingað og þess vegna var mjög erfitt að byrja í skól­an­um. Núna finnst mér pínu leiðin­legt að við séum að fara heim. Þetta er bú­inn að vera mjög skemmti­leg­ur vet­ur þó að skól­inn hafi stund­um verið erfiður.  Við erum búin að gera alls kon­ar skemmti­lega hluti hérna. Um pásk­ana fór­um við til dæm­is í hús­bíla­ferðalag um eyj­una og gist­um í kirkju­g­arði. Ég var líka í dans­skóla í vet­ur og fékk að taka þátt í karni­val­inu hérna og dansa út á götu, það var mjög gam­an.“

Hvernig kunnið þið við ykk­ur?

Snæfríður: „Við kunn­um mjög vel við okk­ur á Teneri­fe. Þetta er ótrú­lega fal­leg eyja og þægi­legt að ferðast um hana. Við eig­um marga vini hérna og höf­um fengið dýpri inn­sýn í líf íbúa eyj­unn­ar. Dæt­ur okk­ar voru í spænsk­um skóla sem var mikið æv­in­týri fyr­ir þær og ótrú­legt fyr­ir okk­ur for­eldr­ana að fylgj­ast með hvernig þær náðu að spjara sig í fram­andi aðstæðum. Teneri­fe á sér­stak­an stað í hjarta okk­ar og það verður pottþétt ekki langt þangað til við för­um þangað aft­ur.“

Ragnheiður segir ómissandi að smakka Churros með súkkulaði.
Ragn­heiður seg­ir ómiss­andi að smakka Churros með súkkulaði. Ljós­mynd/​Aðsend

Um hvað fjall­ar bók­in?  

Ragn­heiður: „Bók­in fjall­ar um allt það skemmti­lega sem krakk­ar geta gert á Teneri­fe. Til dæm­is er sagt frá bestu ísbúðunum og öðru sem krakk­ar verða að smakka á eyj­unni. Ég mæli til dæm­is með churros, það er í al­gjöru upp­á­haldi hjá mér og er eitt­hvað sem all­ir verða að smakka.“

Snæfríður: „Bók­in er sett þannig upp að krakk­ar hafi gam­an af því að lesa hana og geti tekið þátt í því að und­ir­búa ferðalagið. Ragn­heiður skrif­ar út frá sínu sjón­ar­horni og ég bæti svo við smá­veg­is upp­lýs­ing­um fyr­ir for­eldra.“

Churros með heitu súkkulaði er ómótstæðilegt.
Churros með heitu súkkulaði er ómót­stæðilegt. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvað það svo sem er skemmti­leg­ast fyr­ir krakka að gera á Teneri­fe?

Snæfríður: „Flest­ir ferðamenn sem hingað koma fara með börn­in í stóru skemmtig­arðanna, Aqua­land, Siam Park og Loro Parque, en það er  hægt er að gera svo miklu meira með börn hérna, hluti sem eru oft mun ódýr­ari. Sem for­eldri er ég t.d. mjög hrif­in af trampolíng­arðinum í La Lag­una og Dúkkusafn­inu í Icod de Vin­os. Eins eru Spán­verj­ar snill­ing­ar í að hanna úti­leiksvæði og raða bör­um og kaffi­hús­um allt í kring­um þau, það er yf­ir­leitt mjög þægi­legt að vera for­eldri með börn hérna.“

Ragn­heiður: „Það er nátt­úru­lega alltaf hægt að fara á strönd­ina og leika sér í sjón­um. Ég fór til dæm­is í brimbretta­skóla hérna sem var geggjað gam­an. Ég mæli líka sér­stak­lega með vís­inda­safn­inu í La Lag­una sem er ekk­ert venju­legt safn held­ur ótrú­leg­ur staður þar sem hægt er að prófa alls kon­ar tæki og gera til­raun­ir. Á Teneri­fe er líka hægt að fara út að borða í kast­ala þar sem ridd­ar­ar eru að berj­ast, fara í úlf­ald­areiðtúr og smakka pöddugos. Þið verðið bara að lesa bók­ina til að fá fleiri hug­mynd­ir.“

Bók­in er fá­an­leg á heimasíðunni lifi­der­fer­da­lag  og í versl­un­um Ey­munds­son.

Á Face­book-síðu fjöl­skyld­unn­ar má svo finna ýms­ar upp­lýs­ing­ar um eyj­una, göngu­leiðir sem þau hafa prófað og annað sem þeim finnst þess virði að deila.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert