Andlit þeirra ljómuðu

Ekið eftir troðnum og vöktuðum slóðum. Fyllsta öryggis er gætt.
Ekið eftir troðnum og vöktuðum slóðum. Fyllsta öryggis er gætt. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þetta eru kannski full­fleyg orð þegar lýsa á fjöl­skylduæv­in­týri á jökli. En jökl­ar eru ein­fald­lega al­veg mögnuð fyr­ir­bæri; fal­leg­ir þar sem þeir liggja eins og hvít­ur mar­ens ofan á fjöll­um og eld­fjöll­um lands­ins, stór­hættu­leg­ir því þeir geta gleypt fólk og heilu flug­vél­arn­ar en eru alltaf sagðir skila því sem þeir taka, oft ára­tug­um síðar. Svo virka þeir staðfast­ir og óum­breyt­an­leg­ir en eru í raun í sí­felldri breyt­ingu. En þeir eru ekki aðgengi­leg­ir og ör­ugg­ast er að fara alltaf með fag­fólki á jök­ul, hvort sem fólk ætl­ar að ganga eða eins og við ákváðum að prófa; að fara á vélsleða á með börn­un­um okk­ar.

Dóra Magnúsdóttir og eiginmaður hennar Guðmundur Jón Guðjónsson skelltu sér …
Dóra Magnúsdóttir og eig­inmaður henn­ar Guðmund­ur Jón Guðjóns­son skelltu sér í vélsleðaferð á Langjökli ásamt börnum fjórum. Ferðin var ótrúlega mik­il upp­lif­un. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Það er nefni­lega staðreynd að á ferðalög­um er­lend­is höf­um við oft verið til­bú­in að eyða heil­mikl­um pen­ing­um í dagspassa í Tív­olí eða ýmsa skemmtig­arða en skirr­umst við að borga fyr­ir skemmti­lega afþrey­ingu inn­an­lands. Lang­jök­ull er ann­ar stærsti jök­ull lands­ins, ríf­lega 950 km2 og einna aðgengi­leg­ast­ur frá Skálpanesi að sunn­an­verðu eða frá Jaka aust­ur af Húsa­felli vest­an til. Ferðalagið okk­ar hófst við Gull­foss. Ju­li­an hinn belg­íski, leiðsögumaður Fjalla­manna, sótti okk­ur við Gull­foss og varaði við rysj­ótt­um akstri upp að skála og var ekk­ert að ýkja með það. Börn­un­um mín­um fannst það stuð að hoss­ast svona yfir hol­ótt­an veg­inn í grýttu jök­ullands­lag­inu en við for­eldr­arn­ir hugsuðum með samúð til demp­ara smárút­unn­ar sem þræðir þessa leið reglu­lega.

Dekkin ná 10 ára dreng upp að öxlum og tröppurnar …
Dekk­in ná 10 ára dreng upp að öxlum og tröpp­urn­ar upp í trukk­inn eru sjö. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Þegar komið var í skála Fjalla­manna fóru all­ir í galla og hjálma og litu út eins og 15 manna stubbahóp­ur að því loknu. Við héld­um svo upp á jök­ul að sleðunum á jöklatrukki sem er með svo stór dekk að fólk þarf að klifra upp sjö þrep til að kom­ast inn í hann. Þessi trukk­ur ein og sér er upp­lif­un út af fyr­ir sig, ekki síst fyr­ir börn. Síðan var haldið áfram yfir ruðninga, jök­ul­leir og að lok­um upp á jök­ul­inn þar sem sleðarn­ir biðu. Hóp­ur­inn fékk nám­skeiðið „Hvernig á að aka vélsleða á jökli 101“ beint í æð og svo var haldið af stað og brunað um víðátt­ur jök­uls­ins á slóða sem búið að er tryggja og þétta til að ferðalagið verði sem allra ör­ugg­ast.

Besti staðurinn fyrir snjóboltastríð á Íslandi í júní er .. …
Besti staður­inn fyr­ir snjóbolt­astríð á Íslandi í júní er .. Langjökull. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Þegar við tók­um pásu upp á jökl­in­um til að njóta stór­fengs­legs út­sýn­is­ins spurðum við krakk­ana hvernig þeim líkaði. And­lit þeirra ljómuðu, eins og sól­in sem braust stund­um fram úr skýj­un­um, og þau svöruðu: „æði“. Það var ekk­ert flókið. Ju­li­an leyfði krökk­un­um að keyra sjálf­um smá hring und­ir vök­ulu eft­ir­liti og fyr­ir vikið er hann nú orðin ein helsta fyr­ir­mynd drengj­anna minna sem ætla báðir að verða jökla­leiðsögu­menn þegar þeir vaxa úr grasi. Pás­an upp á toppn­um endaði eins og hún hlaut að enda – með snjók­asti - í júlí - áður en brunað var niður jök­ul­inn með víðátt­ur Suður­lands­ins í aug­sýn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert