Mistök sem ferðamenn gera í Brussel

Hefur þú gert þessi mistök í Brussel?
Hefur þú gert þessi mistök í Brussel? Ljósmynd/Aðsend

Stella Vest­mann þekk­ir hvern krók og kima í Brus­sel í Belg­íu. Hún rek­ur þar fyr­ir­tækið Stell­ar Walks sem býður upp á göngu­ferðir um þessa sögu­frægu borg. Stella tók sam­an fimm mis­tök sem ferðamenn gera þegar þeir koma til borg­ar­inn­ar.

Kynna sér ekki nöfn lest­ar­stöðva nægi­lega vel

Al­menn­ings­sam­göng­ur eru góð leið til að ferðast á milli staða í Brus­sel og losna við tíðar um­ferðartepp­ur. Þú ert kom­inn með miða, hopp­ar um borð og veist að þú átt fara út á metrostöðinni Arts-Lois. Áður en þú veist af ertu kom­inn á enda­stöð, kófsveitt­ur og ruglaður. Þú ert ekki í rangri lest, þú hef­ur lík­leg­ast bara séð skiltið „Kunst-Wet“ og þar hefðir þú átt að stíga af, enda ein og sama stoppistöðin. Í Belg­íu eru öll op­in­ber nöfn og heiti bæði á hol­lensku og frönsku. Oft­ast eru nöfn­in keim­lík en þó ekki alltaf. Bæði heit­in eiga að vera sýni­leg en engu að síður er gott að vera meðvitaður um bæði heit­in. Annað dæmi, þú átt er­indi til borg­ar­inn­ar Mons í Suður-Belg­íu og legg­ur áhyggju­laus af stað í bíla­leigu­bíln­um en staðsetn­ing­ar­tækið þitt vill ólmt senda þig til Ber­gen! Þú spyrð þig hvaða furðulega þrá­hyggja þetta sé og af hverju Ber­gen í Nor­egi af öll­um stöðum?! Jú sjáðu til, þetta er sama borg­in. Mons er franska heitið en Ber­gen það hol­lenska. Það verður seint sagt að Belg­ar séu húm­ors­laus­ir. 

Kaupa sér vöffl­ur við ferðamanna­göt­ur

Belg­ar vita ekki hvað keto er og munu lík­leg­ast aldrei viður­kenna þann lífs­stíl með all­an sinn bjór, djúp­steiktu frít­urn­ar sín­ar og ilm­andi vöfflu­sölustaði á hverju horni. Horn­stein­ar belg­ískr­ar nær­ing­ar­fræði og selt á öll­um götu­horn­um. Marg­ir ferðamenn til­einka sér þetta mataræði meðan á dvöl þeirra stend­ur en gera þau mis­tök að kaupa vöffl­ur við mestu ferðamannastaðina þar sem þær eru oft­ar en ekki bara hitaðar upp og gest­ir plataðir til að hlaða alls kyns óþarfa á vöffl­una, lík­leg­ast til að fela dags­gamla bragðið af vöffl­unni. Þumalputta­regl­an er að því færri túrist­ar, þeim mun meiri gæði.

Halda að Deleri­um sé besti bar­inn í Brus­sel og ætla sér of mikið í bjórs­makki

Marg­ir kann­ast við Deleri­um-bar­inn þar sem hann komst í Heims­meta­bók Guinn­es árið 2004 fyr­ir að bjóða upp á flest­ar teg­und­ir af bjór, yfir 2.000 teg­und­ir. Staður­inn varð gríðarlega vin­sæll og stækkaði um­tals­vert eft­ir það. Fyr­ir vikið er hann einskon­ar pöbba­skrímsli með rorr­andi full­um bak­poka­ferðalöng­um eft­ir aðeins þrjá bjóra. Lík­leg­ast banda­rísk­ir ferðamenn, van­ir 4-6% bjór­um meðan 7-9% er al­geng­asta áfeng­is­magnið í belg­ísk­um bjór. Bjór­inn í Belg­íu ber að var­ast enda afar lúmsk­ur.

Skoða bara gamla miðbæ­inn

Gamli miðbær­inn er lít­ill og hef­ur upp á margt stór­feng­legt að bjóða með skyldu­stopp­um ferðamanns­ins. Fagráð er að fá sér leiðsögn við upp­haf ferðar til að sjá þessa lyk­ilstaði með skip­lögðum hætti og fá skýr­ing­ar á þeim. Á stutt­um tíma nær maður öllu því helsta og get­ur notað tím­ann af­gangs til að kanna aðra spenn­andi staði í borg­inni sem flest­ir ferðamenn missa af á meðan þeir flögra ómark­visst og ringlaðir um í gamla miðbæn­um. Í Brus­sel eru ótal torg og hverfi þar sem gam­an er að fara á veit­inga­hús eða kaffi­hús til að slaka á og fylgj­ast með mann­líf­inu. Torg eins og Sa­blon, Place Saint Boniface, Place du Chatelain eða hverfi eins og Saint Gil­les eða Mar­ol­len eru aðeins örfá dæmi um skemmti­lega staði. 

Treysta öllu sem sem Belg­ar segja þér

Ekki mis­skilja, þetta er ekk­ert nei­kvætt. Segj­um sem svo að þú setj­ist inn á kaffi­hús við fal­legt torg og lend­ir á spjalli við inn­fædd­an. Gam­an að fá Brus­sel beint í æð í gegn­um inn­vígða borg­ara í marg­ar kyn­slóðir. Í fyrstu geta þeir virkað al­var­leg­ir og full­ir af fróðleik sem þeir deila glaðir með þér. Þá er kom­inn tími til að deila í með tveim­ur eða meira. Lík­leg­ast er þetta allt upp­spuni frá rót­um! Þeir elska að gant­ast í ferðamönn­um og hafa ákaf­lega gam­an af því að segja sög­ur. Njóttu þess en ekki taka þá of al­var­lega, við Íslend­ing­ar kunn­um að meta góðar sög­ur og vit­um sem er að góð saga á aldrei að líða fyr­ir sann­leik­ann.

Þess má geta að hægt er að fá ís­lenska leiðsögn í Brus­sel með Stell­ar Walks. Einnig má fylgj­ast með Stell­ar Walks á Face­book og In­sta­gram.

Belgísk vaffla er algjör lostgæti.
Belg­ísk vaffla er al­gjör lost­gæti. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert