Fossavatnið sem var ekki gengið

Ásdís Ósk Valsdóttir.
Ásdís Ósk Valsdóttir.

„Í gær laug­ar­dag­inn 20. apríl átti ég að vera á Ísaf­irði að þreyta 50 km skíðagöngu ásamt hundruðum göngu­skíðagarpa. Ég fór í fyrra, náði að klára og var ekki einu sinni síðust. Að vísu var sú ganga „bara“ 42 km vegna snjó­leys­is en ágæt­lega krefj­andi engu að síður. Ég á ekki lang­an göngu­skíðafer­il að baki,“ seg­ir Ásdís Ósk Vals­dótt­ir, miðaldra kona, í sín­um nýj­asta pistli:

Ég steig fyrst á göngu­skíði í des­em­ber 2018. Það var reynd­ar á fjög­urra daga nám­skeiði á Ísaf­irði sem ég fór á með Hildu vin­konu. Ég átti eng­ar græj­ur, hvorki skíði né föt, þannig að ég var sann­ar­lega að byrja frá grunni. Fyr­ir­fram hafði ég litl­ar áhyggj­ur af göngu­skíðunum. Það litla sem ég hafði séð var mjög þægi­legt stroll á jafn­sléttu. Ég hefði ekki getað haft meira rangt fyr­ir mér. Þetta er gíf­ur­lega krefj­andi íþrótt sem reyn­ir á all­an lík­amann og það er eig­in­lega ekk­ert á jafn­sléttu, bara miserfiðar brekk­ur.

Hérna má lesa allt um hvernig gekk að byrja á göngu­skíðum og Fossa­vatnið 2019

2020 verður besta ár ævi minn­ar

Mikið svaka­lega verður 2020 frá­bært ár. 31.12. 2019 vissi ég að fram und­an væri besta ár ævi minn­ar. 2019 var svona æf­inga­ár. Ég var að fínstilla alls kon­ar hluti. Koma mér í besta form lífs­ins og svo fann ég mér kær­asta. Ég setti mér metnaðarfull mark­mið. Klára Land­vætt­irn­ar, hlaupa Lauga­veg­inn, hlaupa mitt fyrsta maraþon og keppa í mín­um fyrsta hálfa járn­karli. Ég skráði mig líka í æf­inga­ferð með Breiðabliki til Heil­bronn í Þýskalandi þar sem ég ætlaði að keppa í ólymp­ískri þríþraut. Hún var hugsuð til að læra að keppa og njóta. Ég var til­bú­in lík­am­lega og and­lega. Ég þurfti aðeins að ná tök­um á hjól­inu, losna við brekkuótt­ann og loft­hræðsluna og þá væri þetta komið. Ég er svo hepp­in að kærast­inn á raf­magns­hjól og planið var að fara upp og niður brekk­ur þar til mér liði vel. Ég setti líka fókus­inn á göngu­skíðin. Þau yrðu sett í al­ger­an for­gang enda planið að toppa mig í Fossa­vatns­göng­unni. Þegar ég segi toppa mig þá er ég að miða við að ganga á sama tíma og Hilda vin­kona gekk á í fyrra. Við Brynj­ar bókuðum okk­ur á göngu­skíðanám­skeið á Ísaf­irði og það vildi svo heppi­lega til að það yrði helg­ina á und­an Stranda­mót­inu. Það sem ég hlakkaði til að fara á Stranda­mótið. Ég missti því miður af því í fyrra. Það var öm­ur­leg veður­spá og dótt­ir mín átti 10 ára af­mæli dag­inn eft­ir mótið. Mér fannst ekki lík­legt að ég fengi verðlaun sem móðir árs­ins ef ég færi á mótið og myndi svo verða veðurteppt á Strönd­um og missa af af­mæl­inu.

Ég prófaði raf­magns­hjólið í des­em­ber og fannst það al­gjör­lega frá­bært og hlakkaði gíf­ur­lega til að ná tök­um á því í vet­ur.

Hvernig mass­ar kona Fossa­vatnið?

Ég ákvað að setja upp metnaðarfullt æf­ingapl­an fyr­ir Fossa­vatnið. Vera dug­leg að fara á göngu­skíði um helg­ar og eft­ir vinnu. Fara á Her­manns­mótið á Ak­ur­eyri í janú­ar. Æfinga­búðir á Ísaf­irði í lok fe­brú­ar og svo þráðbeit á Stranda­mótið helg­ina á eft­ir. Vera svo á Dal­vík alla pásk­ana og ganga eins mikið og ég gæti. Það er gíf­ur­lega mikið af flott­um göngu­leiðum á Dal­vík, inn í Svarfaðar­dal. Svo er hægt að fara í Hlíðarfjall, Kjarna­skóg, Ólafs­fjörð og Siglu­fjörð. Fossa­vatnið var stuttu eft­ir pásk­ana og jú Bláfjalla­gang­an var þarna ein­hvers staðar líka. Ég og Bláfjalla­gang­an eig­um góðar minn­ing­ar. Þetta var fyrsta göngu­skíðamótið mitt og ég kom ekki síðust í mark.

Þegar kærast­inn byrj­ar bet­ur en þú

Svo kom 2020. Það byrjaði ágæt­lega en svo lagðist ég í flensu. Þetta var ein­hver ómerki­leg flensa en nóg til að ég hreyfði mig lítið eina viku. Það kom smá snjór í Bláfjöll og ég skellti mér á göngu­skíði um miðjan janú­ar og fann göngu­skíðagleðina. Í lok janú­ar fór­um við Brynj­ar í Fjalla­kof­ann og græjuðum hann fyr­ir göngu­skíðin. Mér fannst það reynd­ar pínu glatað. Allt í einu skildi ég Hildu vin­konu sem fyllt­ist öf­und þegar ég byrjaði að græja mig fyr­ir hreyf­ingu. Öll föt­in mín voru ný og í stíl. Henn­ar voru meira svona samtín­ing­ur síðustu 10 ára. Mun­ur­inn á mér og Hildu var ein­mitt að hún var búin að stunda hreyf­ingu svona 20 árum leng­ur en ég og átti því allt til alls. Við Brynj­ar feng­um okk­ur einka­tíma hjá Sæv­ari Birg­is­syni.

Þá kom næsta svekk­elsi.

Það var ekki nóg að kærast­inn væri bet­ur dressaður og liti því bet­ur út á skíðum, held­ur náði hann miklu betri tök­um á göngu­skíðunum á fyrstu æf­ingu en ég á minni fyrstu æf­ingu. Hvers vegna var það? Hann fékk einka­kennslu í fyrsta tím­an­um sín­um og svo þetta smá­atriði. Hann er ekki hrædd­ur við brekk­ur. Það er pínu hraðamun­ur á aðila sem þorir að bruna niður brekk­ur og aðila sem fer í 90 gráðu plóg. Sæv­ar kenndi okk­ur nokkr­ar tækniæf­ing­ar sem við ákváðum að gera fyr­ir hverja göngu. Nokkuð sem ég lærði í fyrra en fannst eitt­hvað svo mik­il tíma­sóun. Það hafði mögu­lega ein­hver áhrif á göngu­skíðahæfni mína. Ekki ósvipað og skort­ur á mæt­ingu á sundæf­ing­um.

Þegar kærast­inn er bet­ur dressaður en þú

Ég sá að það gengi ekki að Brynj­ar væri bet­ur til fara en ég á göngu­skíðanám­skeiðinu á Ísaf­irði. Ég meina, þetta eru fjór­ir dag­ar. Það verður tekið fullt af mynd­um og ein­hver staðar verður miðaldra kon­an að draga mörk­in. Hann er líka þrem­ur mánuðum yngri en ég og það er stöðug vinna fyr­ir kon­ur á sex­tugs­aldri að hafa sig til fyr­ir yngri menn. Ég renndi því í Fjalla­kof­ann og ræddi við Sæv­ar. Hann er úti­vist­ar­ráðgjaf­inn minn og slær ekki feilnótu, annað en ég. Ég sé stund­um á Sæv­ari að hann er ekki al­veg viss um hvert ég er að fara með fata­val.

Sæv­ar sýndi mér jakka. „Þetta er ná­kvæm­lega eins og jakk­inn sem Brynj­ar keypti,“ sagði ég. Við erum kannski miðaldra en þarna verð ég að draga mörk­in. Við get­um al­veg eins fengið okk­ur Don Kano-galla sko. Jakk­inn sem ég vildi var ekki til í minni stærð. Lúxusvanda­mál þegar kona grenn­ist. Eft­ir smá skoðun fund­um við frá­bær­an jakka sem smellpassaði. Hann var að vísu lík­ur Brynj­ars en þó ekki al­veg eins. Síðan fund­um við bux­ur, vett­linga, húfu og buff í stíl. Það er lyk­il­atriði þegar miðaldra kona er ekki orðin nógu góð á göngu­skíðum að líta að minnsta kosti vel út („fake it till you make it“). Ég var klár á Ísa­fjörð. Veðrið var ekki al­veg að leika við okk­ur á þess­um tíma, kom­umst ekk­ert á raf­magns­hjólið og bara einu sinni á göngu­skíðin. Það var samt allt í lagi, Ísa­fjörður var eft­ir nokkra daga og ég hlakkaði gíf­ur­lega til. Svo kom skell­ur­inn.

Ófært til Ísa­fjarðar

Við átt­um bókað flug til Ísa­fjarðar á fimmtu­dags­morgni þar sem nám­skeiðið byrjaði seinni part­inn. Fyrsta sms-ið frá Flug­fé­lag­inu um seink­un kom snemma morg­uns og svo var þetta eins og eld­heitt ástar­sam­band þar sem sms flugu á milli. Við end­ur­bókuðum okk­ur í flug á föstu­deg­in­um ein­göngu til að end­ur­taka fimmtu­dag­inn. Þá ákváðum við að hætta við nám­skeiðið og njóta þess að ganga í Bláfjöll­um í staðinn. Við náðum þrem­ur hringj­um á laug­ar­deg­in­um og tæp­um 20 km. Dag­inn eft­ir var ófært í Bláfjöll en líka ófært frá Ísaf­irði. Þannig að ég ákvað að breyta göngu­skíðadeg­in­um í hjólaæf­ingu á síðustu stundu. Ég lagði af stað á æf­ing­una með góðum fyr­ir­vara.

Þegar ég var lögð af stað áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt headsett­inu og sneri við að sækja það. Tek alltaf hlaupa­bretti á eft­ir hjólaæf­ing­unni og mér finnst mun þægi­legra að hlaupa með tónlist. Það þýddi að ég mætti of seint. Dreif mig í að fylla á vatns­brús­ana. Sunnu­dag­sæfing­ar eru tveggja tíma og ég tek alltaf með mér tvo brúsa. Þarna fattaði ég að ég hafði gleymt öðrum heima uppi á bekk. Hand­klæðið sem ég tók ekki með var lík­lega þar líka. Ég missti því af upp­hit­un þannig að þetta varð ansi erfiður tími. Kláraði samt tím­ann og skellti mér á hlaupa­bretti, fann hvergi headsettið. Leit í kring­um mig, það eru all­ir með tónlist í eyr­un­um þannig að ég spilaði beint úr sím­an­um. Hlaupið gekk ekki vel, ég fékk nudds­ár og íhugaði að fara að væla og hætta að hlaupa. Þá rifjaði ég upp viðtalið við Arn­ar Pét­urs­son sem hljóp heilt maraþon með stein­völu í skón­um. Ákvað að hætta að væla og klára hlaupið, þetta voru hvort sem er ekki nema 30 mín­út­ur. Gam­an að því að við Arn­ar vor­um einu sinni að hlaupa sömu helgi og við hlup­um næst­um því á ná­kvæm­lega sama tím­an­um. Að vísu hljóp hann 21 km á meðan ég hljóp 10 km en samt, sami tími hjá okk­ur. Það fyrsta sem ég sá svo þegar ég kom í bíl­inn eft­ir æf­ingu var blessað headsettið.

Hvað á að gera við ónotuð göngu­skíðaföt?

Þrátt fyr­ir að ég gæti ekki notað nýju göngu­skíðaföt­in mín nema tvisvar á göngu­skíðum þenn­an vet­ur­inn kom það ekki að sök því þau reynd­ust vera frá­bær vetr­ar­hlaupa­föt, göngu­föt og úti­hjóla­föt. Ég elska þegar það er hægt að nota sömu föt­in fyr­ir fleiri en eina íþrótta­grein. Eini gall­inn við að æfa svona mikið af íþrótt­um er að ég er ALLTAF að þvo.

Að tapa á sund­móti eina ferðina enn

Þegar ég var ekki á Ísaf­irði var Breiðablik með Garpa­mót í sundi. Ég hefði bet­ur skráð mig til leiks. Í sum­um grein­um eins og flugsundi var bara ein kona skráð í ákveðnum lengd­um. Ég hefði því neglt inn 2. sætið, nema ef það hefðu verið tíma­mörk eða gerð krafa um ákveðna tækni eða getu, eða kunn­áttu eða ... þá hefði ég lík­lega verið rek­in upp úr. Ann­ars er ég búin að finna íþrótt­ina sem ég á eft­ir að massa. Skot­göngu­keppni. Þetta virk­ar ansi ein­falt. Eina sem þarf að gera er að ganga á göngu­skíðum og skjóta úr byssu. Það virk­ar ekk­ert flókið. Ég þarf bara að læra að skjóta úr byssu, hef núna 12 mánuði til þess.

Hvernig gekk svo að massa und­ir­bún­ing­inn?

Ég fór ekki á Her­manns­mótið. Ég var illa æfð, hálflas­in og það var öm­ur­legt veður. Ég missti af æf­inga­búðunum á Ísaf­irði og ég og Hilda vor­um ekki peppaðar fyr­ir Stranda­mót­in. Við tók­um kalt stöðumat á ástandið. Veistu, ég er hálflas­in, já ég líka. Ég held að það væri betra að fara ekki, já sam­mála. Okk­ur gekk svona líka glimr­andi vel að tala okk­ur ofan af því að mæta. Yf­ir­leitt hef­ur önn­ur okk­ar verið í gírn­um og dregið hina með. Þarna var hvor­ug okk­ar í gírn­um og ég lá í flensu alla helg­ina þannig að ég var feg­in að hafa ekki farið.

Þegar gul­rót­in hverf­ur

Þegar Covid-19 byrjaði að herja af full­um krafti sá ég fljótt í hvað stefndi. Mér leist per­sónu­lega ekki á blik­una og langaði minna en ekk­ert að fara til út­landa og verða kannski inni­lokuð á hót­el­her­bergi í sótt­kví eða verða fár­veik ein­hvers staðar. Eft­ir að ég datt út úr Land­vætt­un­um í fyrra þegar ég lenti í gifsi viku fyr­ir Bláa lónið vissi ég hversu erfitt það er að fá ekki að keppa eft­ir að hafa æft gíf­ur­lega vel. Ég tók Pol­lýönnu á það dæmi en ég var ekki til­bú­in að gera það aft­ur. Ég var ein­fald­lega ekki til­bú­in að æfa og æfa fyr­ir keppn­ir sem ég vissi innst inni að ég væri ekki að fara í. Ég ákvað því að slá allt út af borðinu. Ég var búin að ákveða að sleppa Fossa­vatn­inu áður en þeir hættu við. Ég var líka búin að ákveða að sleppa ólymp­ísku þríþraut­inni í Þýskalandi í júní (það er líka búið að hætta við hana). Mig lang­ar minna en ekk­ert í hálf­an járn­karl til Norður-Ítal­íu í sept­em­ber. Það verður að ját­ast að það er pínu erfitt að halda dampi þegar all­ar gul­ræt­urn­ar eru farn­ar. Að æfa bara til að æfa. Ég verð að hrósa Bænda­ferðum hérna. Þeir sáu um ferðina til Heil­bron. Þegar ég ákvað að af­bóka mig ráðlögðu þau mér að bíða og sjá hvort það yrði farið í ferðina. Þegar ferðinni var af­lýst höfðu þau sam­band að fyrra bragði til að láta mig vita að ég fengi allt end­ur­greitt, líka staðfest­ing­ar­gjaldið. Ekk­ert vesen og frá­bær þjón­usta.

2020 breytt­ist því í árið sem ég ætla að bæta formið og fínstilla mig fyr­ir 2021. Í fyrsta skipti á æv­inni er ég ekki með nein plön nema halda mér í formi. Það verður samt að viður­kenn­ast að þegar gul­rót­in er far­in er erfiðara að halda sér að verki. Það er auðvelt að hugsa: það skipt­ir ekki öllu máli þó að ég sleppi þess­ari æf­ingu, ég er ekki að fara að keppa á næst­unni. Þess vegna þakka ég fyr­ir fólkið mitt í þríþraut­ar­deild Kópa­vogs sem er svo dug­legt að hreyfa sig og deila því á meðal hóps­ins. Í gær­morg­un var 90 mín­útna hlaup á plani. Ég var ekki al­veg að nenna, það var suddi og kalt. Svo sá ég á In­sta­gram að Birna Íris, Krist­ín Vala og Hrafn­hild­ur voru bún­ar að hlaupa. Það var því ekk­ert annað í stöðunni en að fara út. Náði svo einu mínu besta hlaupi frá upp­hafi og þriðja besta 10 km.

Mitt mark­mið 2020 er að bæta mig smátt og smátt. Það hent­ar mér bet­ur en að taka stökk­breyt­ing­ar. Ef ég næ að hlaupa 10 km á 60,28 mín­út­um núna þá er mark­miðið næst að þriðja besta 10 km hlaupið mitt verði 59,59 og svo fram­veg­is. Tek eina um­ferð af styrktaræf­ing­um eft­ir æf­ing­ar í þess­ari viku og tvisvar næst.

Vikt­or son­ur minn er með'etta. Ég sagði við hann um dag­inn: Vikt­or, lastu þetta með 50 manna æf­ing­una sem reynd­ist svo bara mis­skiln­ing­ur? Hann leit á mig og sagði: Mamma, mér er al­veg sama. Þetta er akkúrat málið. Hvers vegna erum við að velta okk­ur upp úr ein­hverju sem er ekki einu sinni rétt? Hvers vegna erum við að eyða orku í að spá í eitt­hvað sem við höf­um ekki stjórn á og get­um ekki breytt? Hann er einn af mín­um bestu leiðbein­end­um. Ég er á góðri leið með að til­einka mér hans lífs­speki.

Ekki velta þér upp úr hlut­um sem þú get­ur hvorki stjórnað né breytt.

Hægt er að fylgj­ast með veg­ferð Ásdís­ar á In­sta­gram:

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert