Svona skal ganga frá ferðavögnum fyrir veturinn

Það þarf að ganga vel frá ferðavögnum fyrir veturinn.
Það þarf að ganga vel frá ferðavögnum fyrir veturinn. mbl.is/Árni Sæberg

Ef ferðavagna- og hús­bíla­eig­end­ur eru ekki nú þegar bún­ir að gera allt klárt fyr­ir vet­ur­inn er um að gera að fara að huga að því. Það þarf ekki bara að koma ferðavögn­um og hús­bíl­um fyr­ir í geymslu held­ur þarf einnig að ganga vel frá. Sniðugt er að styðjast við Gátlista hjá ferðavagna­geymsl­unni S3 á Kví­ar­hóli í Ölfusi. 

Gott er að hafa eft­ir­far­andi í huga áður en gengið er frá ferðavagni eða hús­bíl í vetr­ar­geymslu:

  • Vatns­kran­ar skulu hafðir hálfopn­ir, sturtu­haus hafður í efstu stöðu og öll niður­föll opin. Gott að gera þenn­an hluta í lok síðustu úti­legu til að vera viss um að ekk­ert vatn sé eft­ir í vatns­kerfi vagns­ins eða bíls­ins. At­hugið að sum­ar gerðir Truma-hit­un­ar­kerfa má ekki tæma, vin­sam­leg­ast kannið hjá þjón­ustuaðila Truma eða lesið leiðbein­inga­hand­bók.

  • Sal­ern­istank­ur tæmd­ur og hreinsaður, einnig gott að gera í lok síðustu ferðar sum­ars­ins.

  • Setjið gúmmítappa í affall vasks­ins.

  • At­hugið að all­ar lok­hlíf­ar utan á vagni eða bíln­um séu vel lokaðar.

  • Takið all­ar mat­vör­ur, leif­ar úr skáp­um og skúff­um, jafn­vel þó að í loftþétt­um umbúðum séu.

  • Takið allt lín, þar með talið hand­klæði og viska­stykki, úr vagni eða bíl.

  • Þrífið all­ar skúff­ur með sápu­vatni.

  • Þrífið ís­skáp, kæliskáp,  kæli­box og skiljið dyr eft­ir opn­ar (festið hurð ef þarf).

  • Lokið öll­um glugg­um, vift­u­op­um, þak­glugg­um og öðrum önd­un­ar­op­um kirfi­lega.

  • Af­tengið gaskúta og takið úr vagn­in­um, lokið fyr­ir gasventla.

  • Af­tengið og fjar­lægið raf­geymi/​geyma. Mælt er með að fólk tengi þá við hleðslu­tæki tvisvar til þris­var sinn­um yfir vet­ur­inn til að viðhalda raf­geym­in­um og lengja líf­tíma hans eða þeirra.

  • Þrífið vagn eða bíl að utan.

  • Bónið vagn­inn eða bíl­inn. At­hugið ef það er plexí­gler í glugg­um vagns­ins eða bíls­ins þá skal ekki bóna glugg­ana eða nota rúðuúða sem inni­held­ur salmí­ak þar sem það get­ur rispað glugg­ann.

  • Ekki skilja vagn­inn eft­ir í hand­bremsu í lang­an tíma þar sem þær geta fest, setjið farg fyr­ir hjól fram­an og aft­an.

  • Ef vagn­inn eða bíll­inn er geymd­ur úti án yf­ir­breiðslu skal hafa flugna­net niðri og loka glugga­tjöld­um til að koma í veg fyr­ir að áklæði upp­lit­ist.

  • Ef vagn­inn eða bíll­inn er geymd­ur úti skal koma fyr­ir raka­boxi/​boxum með rakag­leypi­efni til að draga úr raka­mynd­un.

  • Ekki byrgja fyr­ir önd­un­ar­op á elda­vél né ofni.

  • Smyrjið lam­ir, læs­ing­ar og beisliskúpl­ing­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert