Tólf góðar gönguleiðir

Í Heiðmörk.
Í Heiðmörk. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Víða um land má finna góðar göngu­leiðir. Fjöl­mörg sveit­ar­fé­lög hafa unnið frá­bært starf í upp­bygg­ingu göngu- og úti­vist­ar­svæða og stikað og merkt göngu­leiðir í sinni byggð. Eins hafa ferðafé­lög og einkaaðilar lagt sitt af mörk­um og komið að upp­bygg­ingu úti­vist­ar­svæða. Rann­sókn­ir sýna að vel skipu­lögð og aðgengi­leg úti­vist­ar­svæði eru mik­il­væg­ur hluti af lífs­gæðum íbúa.

Ferðafé­lag Íslands og Val­titor hafa lengi átt sam­starf og staðið fyr­ir upp­setn­ingu á göngu­leiðaskilt­um á fjöl­förn­um göngu­leiðum bæði í byggð og óbyggðum. Það þarf þó ekki alltaf að leita langt yfir skammt og bestu göngu­ferðirn­ar eru oft heim­an frá og í nærum­hverf­inu. Þegar ferðast er um landið má finna góðar göngu­leiðir þar sem upp­hafsstaður er aðgengi­leg­ur í byggð eða við þétt­býli.

Álfta­nes og Bessastaðatjörn

Góður upp­hafs- og end­astaður er bíla­stæðið við Kast­húsa­tjörn. Gengið er meðfram sjáv­ar­síðunni og um­hverf­is Bessastaðatjörn. Hress­andi ganga um ósnortn­ar fjör­ur, með seltuilm í lofti, sjáv­ar­nið í eyr­um og ekki spill­ir víðsýnið. Leiðin er rúm­lega 6 km og gengið á stíg­um alla leið.

Þrasta­skóg­ur

Í Þrasta­skógi er fjöldi merktra aðgengi­legra göngu­stíga og vega­lengd­ir við allra hæfi. Lengsti stíg­ur­inn er 2,6 km en aðrar merkt­ar leiðir eru frá um 50 til tæp­lega 800 m lang­ar og víða eru leik­tæki fyr­ir börn. Þrasta­skóg­ur er í ein­stak­lega fal­legu um­hverfi við Sogið í um klukku­stund­ar akst­urs­fjar­lægð frá höfuðborg­ar­svæðinu, í eigu Ung­menna­fé­lags Íslands.

Seltjarn­ar­nes

Lagt á bíla­stæðinu við Gróttu og gengið þar í fjör­unni og síðan um­hverf­is golf­völl Seltjarn­ar­ness, út á Búðagranda og Bakka­granda, að Ne­stjörn og aft­ur að bíla­stæði. Göngu­leiðin ligg­ur um friðsælt og fal­legt svæði við sjó­inn. Gengið er um mal­biks­stíga, fjöru og túngöt­ur. Leiðin er um 3,5 km.

Dimmu­borg­ir við Mý­vatn

Dimmu­borg­ir aust­an Mý­vatns draga nafn sitt af ein­stök­um hraun­mynd­un­um og þær eru friðlýst nátt­úru­vætti. Í Dimmu­borg­um eru vel merkt­ar göngu­leiðir við allra hæfi og þar má stunda nátt­úru­skoðun á öll­um tím­um árs­ins. Lengsti stíg­ur­inn í Dimmu­borg­um, Kirkju­hring­ur, er u.þ.b. 2,3 km lang­ur. Frá bíla­stæði í Dimmu­borg­um er einnig hægt að ganga á Hver­fell/​Hver­fjall og njóta þaðan út­sýn­is yfir Mý­vatns­sveit.

Búr­fell og Búr­fells­gjá

Gang­an hefst frá bíla­stæði við Heiðmerk­ur­veg, suðaust­an við Víf­ilsstaðahlíð í Garðabæ. Þar er skilti sem skýr­ir leiðina, hversu löng hún er og helstu kenni­leiti. Göngu­leiðin er um 3,6 km og mjög þægi­leg yf­ir­ferðar. Þegar komið er á Búr­fell er leiðin greið ofan í gíg­inn. Síðan er geng­in sama leið til baka að bíla­stæði.

Búrfellsgjá.
Búr­fells­gjá. Ljós­mynd/​Ferðafé­lag Íslands

Hauka­fell aust­an við Horna­fjörð

Hauka­fell er mjög fjöl­skyldu­vænt úti­vist­ar­svæði á Mýr­um, aust­an við Horna­fjörð. Af­leggj­ari frá þjóðvegi 1 er skammt sunn­an við bæ­inn Viðborðssel. Göngu­leiðin er um 2,5 km hring­leið og best er að byrja ofan tjaldsvæðis og ganga upp hlíðina vest­an­verða, aust­ur yfir heiðina við Háls­dalsá og niður með henni. Fal­leg­ir foss­ar og út­sýni yfir Fláa­jök­ul, Kolgraf­ar­dal og Mýr­ar.

Glanni og Para­dís­ar­laut í Borg­ar­f­irði

Göngu­ferð að Gl­anna og í Para­dís­ar­laut er ekki löng en afar skemmti­leg og nátt­úru­feg­urðin ein­stök. Skammt sunn­an við Bif­röst er beygt niður af þjóðvegi 1 í átt að Norðurá. Gang­an er um 2 km og hefst á bíla­stæðinu við golf­skál­ann. Göngu­stíg­ur­inn er greini­leg­ur og vel við haldið og leiðin hent­ar öllu göngu­færu fólki. Foss­inn Glanni í Norðurá er ein­stök nátt­úru­smíð og sagður vera dval­arstaður álfa og dverga. Glanni merk­ir birta eða skin.

Sanda­fell við Þing­eyri

Sanda­fell er lítið fell fyr­ir ofan Þing­eyri (367 m) við Dýra­fjörð. Hægt er að ganga upp fellið frá Þing­eyri eða frá þjóðveg­in­um. Á toppn­um er út­sýn­is­skífa með öll­um helstu kenni­leit­um sem ber fyr­ir augu og þaðan er ein­stakt út­sýni. Hækk­un er um 170 m og göngu­leiðin frá gamla þjóðveg­in­um er um það bil 3 km báðar leiðir.

Varðan á Ásfjalli.
Varðan á Ásfjalli. Ljós­mynd/​Ferðafé­lag Íslands

Ástjörn og Ásfjall, Hafnar­f­irði

Gang­an hefst við Hauka­húsið á Ásvöll­um og er gengið vest­an íþrótta­svæðis niður af tengi­brú stígs­ins sem ligg­ur um­hverf­is Ástjörn og að Ásfjalli. Á fjall­inu er fal­leg, vel hlaðin varða sem gam­an er að príla á. Útsýni af Ásfjalli er stór­brotið þó fjallið sé ekki hátt.

Frá Hauka­húsi um Ásfjall og Ástjörn eru um 3,9 km.

Æsustaðafjall og Reykja­fell – Mos­fells­bær

Ofan við Mos­fells­bæ leyn­ist stutt og skemmti­leg göngu­leið sem hent­ar frá­bær­lega sem fjöl­skyldu­ganga eða góðviðris­rölt eft­ir vinnu. Ekið er upp Mos­fells­dal og sveigt til hægri eft­ir af­leggj­ara merkt­um Hlaðgerðarkoti. Fljót­lega er síðan aft­ur beygt til hægri inn að smá­hýsa­byggðinni í Skamma­dal og ekið þar til komið er að litlu bíla­stæði. Upp­haf leiðar­inn­ar er stikuð og best er að byrja á að ganga á Æsustaðafjall og þaðan yfir á Reykja­fellið, um 4,8 km hring­leið.

Hafra­fell og Reykja­borg við Hafra­vatn

Fellið ofan Hafra­vatns er ým­ist nefnt Hafra­hlíð (245 m) eða Hafra­fell. Þegar gengið er á Hafra­fell er einnig til­valið að halda áfram og ganga á Reykja­borg (286 m) við hlið Hafra­fells. Fell­in tvö eru ekki há eða brött og því til­val­in fjöl­skyldu­ganga. Gang­an hefst á bíla­stæðinu við Hafra­fells­rétt eft­ir slóða í gegn­um skóg­rækt­ina. Slóðinn skipt­ist fljót­lega í tvo og vinstri slóðinn val­inn. Þegar komið er á veg­inn er farið þvert yfir hann og slóðanum fylgt á tind Hafra­fells og þaðan yfir á Reykja­borg. Hring­ur­inn um Hafra­hlíð og Reykja­borg er um 7,8 km.

Heiðmörk

Heiðmörk er stærsta úti­vist­ar­svæðið á höfuðborg­ar­svæðinu og eitt það vin­sæl­asta. Þar finna all­ir góða göngu­leið við hæfi. Í gegn­um tíðina hafa ótal göngu- og reiðstíg­ar verið lagðir um svæðið og glæsi­leg aðstaða byggð upp fyr­ir fjöl­skyldu­fólk og aðra sem vilja gera sér glaðan dag í skóg­in­um. Í Heiðmörk eru áhuga­verðar jarðmynd­an­ir, viðkvæmt vot­lendi og lyng­mói. Dýra­líf er afar fjöl­breytt á þess­um slóðum og gild­ir þá einu hvort áhug­inn bein­ist að spen­dýr­um, vatna­líf­ver­um eða fugl­um him­ins­ins.

Í Heiðmörk.
Í Heiðmörk. Ljós­mynd/​Ferðafé­lag Íslands
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert