Það brutust út fagnaðarlæti um borð í vél flugfélagsins Jet 2 á dögunum þegar konu, sem hafði gengið berserksgang í háloftunum, var vísað út úr vélinni.
Flugvélin var á leið frá Manchester á Englandi til Antalya í Tyrklandi hinn 21. mars þegar atvikið átti sér stað. Vegna ógnandi hegðunar konunnar þurfti vélin að lenda á óvæntum viðkomustað í Vínarborg til þess að losa áhöfn og samfarþega konunnar við lætin í henni. Fréttamiðillinn The Sun greindi frá.
Ástæður hegðunarinnar eru óljósar en samkvæmt frásögnum farþega er konan sökuð um að hafa ráðist líkamlega á samfarþega sína að tilefnislausu og látið ýmis blótsyrði falla á farþega og áhafnarmeðlimi. Myndskeið náðist af hegðun konunnar sem vægt til orða tekið var ekki til fyrirmyndar í þúsund feta hæð.
Flugfélagið Jet 2 sendi skilaboð á alla farþega í vélinni þar sem beðist var velvirðingar á truflandi hegðun konunnar og þeir upplýstir um viðkomuna í Vín.
Þegar vélin hafði lent á flugvellinum í Vín tók lögreglan á móti flugdólgnum og út brutust mikil fagnaðarlæti á meðal samfarþega konunnar. Líkt og meðflygjandi myndskeið getur til um voru farþegarnir sigri hrósandi yfir því að konunni hafi verið vísað úr vélinni og að ferðalagið gæti haldið snurðulaust fyrir sig áfram.