Var pínu stressuð að fljúga með Play

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„Í októ­ber fór ég til Portúgal á fyrstu ráðstefn­una mína síðan fyr­ir Covid. Þetta er fast­eignaráðstefna á veg­um „Lea­ding Real Esta­te Comp­anies of the World“ sem er stærsta keðja sjálf­stætt starf­andi fast­eigna­sala um all­an heim með meðlimi í tæp­lega 80 lönd­um. Húsa­skjól er eina ís­lenska fast­eigna­sal­an í keðjunni þar sem við erum á svo litl­um markaði. Ég fór út sem fyr­ir­les­ari til að ræða mik­il­vægi jafn­væg­is í vinnu og einka­lífi og einnig til að taka upp hluta af seríu fyr­ir þjálf­un­ar­hluta Lea­ding Re sem verður nýtt­ur fyr­ir aðra meðlimi keðjunn­ar. Að lok­um keppti upp­lýs­inga­kerfið mitt, sem ég er hannaði og fjár­magnaði,  um bestu tækni­lausn­ina í fast­eigna­geir­an­um. Það er gíf­ur­lega mik­il­vægt að vera í alþjóðlegu sam­starfi og að geta aðstoðað mína viðskipta­vini við að kaupa og selja fast­eign­ir í tæp­lega 80 lönd­um, sér­stak­lega þar sem ég þekki per­sónu­lega mjög marga af þess­um fast­eigna­söl­um,“ seg­ir Ásdís Ósk Vals­dótt­ir, fast­eigna­sali og miðaldra kona, í sín­um nýj­asta pistli: 

Play flýg­ur beint til Lissa­bon á mánu­dög­um og föstu­dög­um og ráðstefn­an var frá fimmtu­degi til laug­ar­dags. Þarna voru góð ráð dýr. Ef ég ætlaði að taka eitt­hvert annað flug þá færi hvort sem heill dag­ur í hvorn legg þannig að ég gat al­veg eins farið aðeins fyrr og notið Lissa­bon með sjálfri mér.

Ég var pínu stressuð yfir þessu flugi þar sem ég hafði aldrei flogið með Play og hafði heyrt mis­jafn­ar sög­ur um flug­fé­lagið. Ég var ný­kom­in frá Ítal­íu þar sem ég æfði mig í að pakka létt og fór með eina hand­far­ang­ur­stösku. Það gekk svona glimr­andi vel og ég notaði ekki nema helm­ing­inn af því sem ég fór með. Því ákvað ég að ferðast líka létt til Portúgal og tók með litla hand­far­ang­ur­stösku, svo­kallaða fluffu, og einn lít­inn bak­poka.

Það geta ekki all­ir meikað það

Þegar ég var í Veróna á Ítal­íu fann ég gömlu listagyðjuna vakna. Ég ákvað að virkja innri lista­spíruna mína og verða dug­legri að fara á tón­leika, mynd­lista­sýn­ing­ar og leik­hús. Nokkuð sem ég setti á ís í Covid. Það var löng röð í tékk­in þannig að ég ákvað að spjalla aðeins við menn­ina fyr­ir aft­an mig. Þeir voru líka á leiðinni til Lissa­bon eins og ég (eðli­lega þar sem vél­in var að fljúga þangað). Ég sagðist ætla að stoppa stutt þar sem ég væri á leiðinni á ráðstefnu. Hvað ætlið þið að gera í Lissa­bon? Við erum að að fara að spila á tón­leik­um, sagði ann­ar þeirra. Áhuga­vert sagði ég, í hvaða hljóm­sveit eruð þið? Sig­ur Rós, Já ein­mitt, ég kann­ast við hana. Tví­tug­ur son­ur minn er ennþá með haus­poka yfir menn­ing­ar­leysi móður sinn­ar. En þetta horf­ir nú allt til betri veg­ar. Ég ætla að taka menn­ing­una á sama máta og lestr­ar­átakið mitt, fara reglu­lega á viðburði sem ég veit ekk­ert um og það er aldrei að vita nema ég nái líka frama sem menn­ing­ar- og lista­gagn­rýn­andi, rétt eins og bók­mennta­gagn­rýn­andi.

Er ég utan marka hjá Play og taka þeir tösk­una af mér?

Ég var pínu stressuð yfir þessu tösku­máli. Hvað ef hún er pínu­ogguponsu­lítið of stór? Þetta er nefni­lega ekk­ert „one size fits all“ hjá flug­fé­lög­um. All­ar áhyggj­ur mín­ar reynd­ust vera óþarfi. Það var nóg pláss fyr­ir tösk­una. Ég setti litlu fluff­una mína fyr­ir ofan sætið. Bak­pok­inn rann vel und­ir sætið fyr­ir fram­an og það var nóg pláss fyr­ir fæt­urna á mér. Ég er að vísu ekki nema 165 sm en oft er ansi þröngt í þess­um flug­vél­um og ég þakka alltaf fyr­ir að vera ekki at­vinnu­kona í NBA. Flugið var mjög þægi­legt og ég skildi hvert ein­asta orð af því sem flug­stjór­inn sagði. Það er sko ekki sjálf­gefið. Stund­um held ég að flug­stjór­ar séu sett­ir á tal­nám­skeið hjá sama aðila og kenn­ir lækn­um að skrifa. Flugliðarn­ir voru dá­sam­leg­ir og ég er mjög hrif­in af þess­um bún­ing­um. Þeir virka mjög þægi­leg­ir. Eft­ir þetta flug hlakka ég til að fara aft­ur með Play og get ekki annað en glaðst yfir því að við eig­um tvö frá­bær flug­fé­lög á þessu litla landi okk­ar.

Óvissu­ferð á hót­elið

Ég nota Book­ing mjög mikið og ég fékk til­kynn­ingu um að ég væri kom­in á Genius 2 level og fengi af­slátt af leigu­bíl. Ég gæti bókað hann fyr­ir fram og bíl­stjór­inn myndi bíða eft­ir mér með skilti með nafn­inu mínu í mót­töku­saln­um. Ég hef oft séð svona bíl­stjóra bíða eft­ir fólki en alltaf staðið í þeirri mein­ingu að þetta væri fyr­ir rokk­stjörn­ur og of­ur­fyr­ir­sæt­ur, ekki okk­ur venju­lega fólkið. Ég var fljót í gegn­um flug­völl­inn, enda þurfti ég ekki að bíða eft­ir tösku úr vél­inni, og dreif mig að hitta bíl­stjór­ann minn. Fyrsti maður­inn sem ég sá var með spjald sem á stóð Sig­ur Rós. Það var hins veg­ar eng­inn með spjald fyr­ir Ásdísi Ósk. Ég fór á mót­tökustaðinn. Pönt­un­in hafði eitt­hvað klikkað, þannig að ég neydd­ist til að fara í leigu­bílaröðina sem var álíka löng og biðröðin fyr­ir utan Apple þegar nýr iP­ho­ne kem­ur í sölu en sem bet­ur fer gekk hún ansi greitt. Ég fékk eldri leigu­bíl­stjóra. Hann spurði hvort ég talaði portú­gölsku, nei reynd­ar ekki en ég tala spænsku. Já sagði kapp­inn þetta er nú meira og minna sama tungu­málið. Eft­ir þessa bíl­ferð get ég vottað að svo er ekki. Hann hafði mjög gam­an af því að spjalla og spurði hvaðan ég væri. Frá Íslandi. Ja há sagði hann, er ekki landið að fyllt­ast af Rúss­um sagði hann, Rúss­um, nei, ég kann­ast ekki við það, sagði ég. Nú eruð þið ekki við landa­mær­in við Rúss­land svo hugsaði hann aðeins og sagði, já nei það er víst Finn­land, þið eruð þarna rétt hjá Ástr­al­íu. Já nei, sagði ég, ertu ekki að meina Nýja-Sjá­land. Já, kannski, sagði hann og brosti. Hvað ertu svo að gera hérna í Lissa­bon? Ég er á leiðinni á fast­eignaráðstefnu og vonaði að ég hefði munað rétt orð fyr­ir fast­eignaráðstefnu. Ha, for­dóm­aráðstefnu kom til baka frá kapp­an­um. Á þess­um tíma­punkti stressaðist ég pínu upp og hafði áhyggj­ur af því að hann myndi fara með mig þráðbeint í leyni­leg­ar höfuðstöðvar Ku klux klan. Ég brosti mínu blíðasta þrátt fyr­ir stressuð og sagði: Já, nei, ég er að selja hús. Ég komst á áfangastað og kvaddi karl­inn með virkt­um, að því marki sem ég gat.

Hvar á að gista?

Þegar ég ákvað að fara til Lissa­bon setti ég inn á Face­book hvernig væri best að fljúga og hvar ætti að gista. Þá kom í ljós að ansi marg­ir höfðu farið til Lissa­bon og flest­ir mæltu með Play. Ein mælti svo með hót­el­inu Palácio das Especiari­as. Ég kíkti á um­sagn­irn­ar á Book­ings og þau áttu eitt sam­merkt. Morg­un­mat­ur­inn væri einn sá besti sem þau hefðu smakkað. Það er lyk­il­atriði fyr­ir mig að fá góðan morg­un­mat. Ég ákvað því að bóka 2 næt­ur. Hót­elið stóð svo sann­ar­lega und­ir vænt­ing­um. Ég kom seint um kvöld og sú sem tékkaði mig inn fylgdi mér inn á her­bergið til að sýna mér hvernig þetta virkaði. Her­bergið var al­gjör­lega frá­bært. Mjög mik­il loft­hæð, fal­leg­ar ró­sett­ur í loft­inu og ljósakróna. Ég hafði pantaði her­bergi með svöl­um og út­sýni og varð svo sann­ar­lega ekki fyr­ir von­brigðum með það. Ég hlakkaði mikið til að fara í morg­un­mat­inn dag­inn eft­ir og vá hvað hann stóðst all­ar vænt­ing­ar. Þetta var eins og að fara í kon­ung­legt mat­ar­boð. Það eru nokk­ur her­bergi og mat­ur­inn er á nokkr­um svæðum, allt svo gott og þjón­ust­an dá­sam­leg. Sá næst­um því eft­ir að hafa bara bókað 2 næt­ur.

Hvað á að gera?

Einu sinni var ég rosa­lega upp­tek­in af því að gera allt þegar ég fór í styttri ferðir. Núna er ég meira í því að lalla um borg­ina og skoða mann­lífið. Ég bað strák­inn í mót­tök­unni að benda mér á eitt­hvað sniðugt. Mig langaði að rölta niður að á, kíkja á skemmti­leg­ar göt­ur og lif­andi mann­líf. Ég bað hann að skrifa bara niður á blað nokkr­ar ábend­ing­ar og ég myndi svo nota Google maps til að koma mér á milli staða. Ég er með það mark­mið að ganga ekki und­ir 10 km á dag í svona borg­ar­ferðum með reglu­bundn­um drykkj­ar og pissupás­um. Ég sá því enga ástæðu að taka með mér kort eða upp­lýs­ing­ar um hót­elið. Það var ekki eins og ég ætlaði að fara upp á fjall, bara rölta um og svo heim aft­ur.

Hvað dund­ar miðaldra kona sér við?

Þetta gekk nú bara ansi vel til að byrja með. Ég beygði til hægri og sá strax mjög flott kaffi­hús sem ég mæli ein­dregið með.  Fá­brica eru með mjög gott te og pottþétt líka kaffi (hef bara ekki náð tök­um á því ennþá frek­ar en áfengi) og virki­lega gott bakk­elsi. Ég sá að áin var þarna beint framund­an og rölti þangað niður eft­ir. Dá­sam­legt veður og all­ir kát­ir og hress­ir. Ég sá fullt af skemmti­leg­um stöðum og fann svo apó­tek og mundi að mig vantaði tann­krem þar sem ég gleymi að kaupa ferðat­ann­krem. Fann eitt lítið sem myndi smellpassa í hand­far­ang­ur en ákvað að skoða það bet­ur til ör­ygg­is. Það stóð end­ist í 12 tíma, sniðugt hugsaði ég, kon­an verður nú oft and­fúl á svona ferðalög­um. Ætli þetta sé ný teg­und þar sem ég kannaðist ekk­ert við þetta. Á bak­hliðinni sá ég mynd af tann­góm og lími, ah þetta er tann­lím sem end­ist í 12 tíma og ákvað að það væri best að fá aðstoð.

Baca­lau og dauður sími

Ég ákvað að fá mér salt­fisk í há­deg­is­mat. Ég mæli ekki með því að borða salt­fisk úti, það laðar að sér óheyri­leg­an fjölda af flug­um sem vilja bara vera í par­tíi með þér. Eft­ir frá­bær­an dag tók ég stefn­una heim, setti hót­elið í Google Maps og var ekki í nein­um vand­ræðum með að rata - al­veg þangað til sím­inn dó. Ég hafði verið svo for­sjál að taka með mér hleðslu­banka en eina vanda­málið var að hann var á hót­el­inu. Mæli ein­dregið með því að taka svo­leiðis með í dags­ferðir. Hann ger­ir meira gagn þar. Ég íhugaði að taka skjá­skot af Google Maps en áttaði mig á að það myndi lík­lega ekki gagn­ast ef sím­inn dæi. Sem ég var orðin mjög stressuð áttaði ég mig á því að ég stóð beint fyr­ir fast­eigna­sölu. Ég vatt mér inn og kannaði hvort að þau gætu hlaðið fyr­ir mig sím­ann sem dó akkúrat á þessu augna­bliki. Það reynd­ist meira en sjálfsagt.

Besti steik­arstaður­inn í Lis­bon?

Um kvöldið ákvað ég að forðast frek­ari æv­in­týri. Kíkti á Google Maps eft­ir stöðum sem væru í 5 mín­útna göngu­færi frá hót­el­inu. Ég datt inn á O Boteco, bras­il­ískt steik­hús sem var með það besta filet Mignon sem ég hef á æv­inni smakkað. Næst þegar ég fer til Lissa­bon þá mun ég fara þangað aft­ur.

Óvissu­ferð til Casca­is

Ég bað hót­elið að bóka fyr­ir mig leigu­bíl þrátt fyr­ir síðustu reynslu. Kona get­ur nú ekki verið óhepp­in tvisvar eða hvað? Bíl­stjór­inn spurði hvert ég væri að fara, ég gaf hon­um upp nafnið á hót­el­inu. Ég veit ekk­ert hvar þetta er, hvert er heim­il­is­fangið sagði kapp­inn. Ég gaf hon­um það. Ég veit ekk­ert hvar þetta er. Get­ur þú ekki lánað mér sím­ann þinn, kom næst. Nei, ekki al­veg til í það. Get­ur þú ekki bara googlað þetta. Nei, ég er ekki með svo­leiðis. Ein­mitt já. Ég ákvað því að það væri best að fá hót­elið til að bóka ann­an bíl­stjóra sem kom mér áfalla­laust á áfangastað.  Eft­ir spjall við heima­menn kom í ljós að flest­ir mæla með Uber frek­ar en leigu­bíl í Portúgal.

Ráð til að ferðast létt 

  1. Kaupið hand­far­ang­ur­stösku og passið að stærð henn­ar sé í sam­ræmi við regl­ur þar um hjá stærstu flug­fé­lög­un­um.
  2. Kaupið litla dalla, t.d. í Tiger, til að setja snyrti­vör­ur í, s.s. sjampó, hár­nær­ingu og dag­krem.
  3. Íhugið hvort það þurfi ör­ugg­lega förðun­ar­vör­ur og hversu mikið af þeim.
  4. Hafið létt­an bak­poka sem pass­ar und­ir eitt skóp­ar og aðrar nauðsynj­ar.
  5. Setjið upp lista yfir það sem á að fara með í ferðina.
  6. Hendið út 20% af list­an­um blákalt. Það er hægt að skola úr nær­föt­um og þess hátt­ar.
  7. Kaupið „dryfit“ fatnað sem lít­ur samt ekki út eins og þú sért að fara í rækt­ina. Ég mæli með að kíkja í Spor­tís, þar fékk ég bæði pils og bux­ur.
  8. Ef för­inni er heitið á ráðstefnu eða þörf er á spari­föt­um, takið þá með eitt skóp­ar sem pass­ar við öll ráðstefnu­föt­in. Þetta spar­ar gíf­ur­lega mikið töskupláss.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert