Svona tekur þú flottari ferðamyndir á símann

Ljósmynd/Unsplash/Dominik Dancs

Samkvæmt ljósmyndaranum Tiffany Nguyen þarf ekki endilega að eiga flottustu ljósmyndagræjurnar til að ná flottum ferðamyndum. Hún segir gæði myndavélanna á nýjustu iPhone símunum, iPhone 14, vera orðin það góð að hægt sé að ná fantaflottum ferðamyndum. 

Nguyen deildi fjórum ljósmyndatrixum með lesendum Travel + Leisure sem vilja ná tökum á iPhone myndavélinni fyrir næsta ferðalag. 

Taktu myndir á RAW-sniði

„Margir gera sér ekki grein fyrir því að nú getur þú tekið myndir á símann á svokölluðu RAW-sniði,“ segir Nguyen. RAW-snið gerir myndavél símans kleift að fanga eins mikið af gögnum og mögulegt er sem gagnast sérstaklega við myndvinnslu. 

„Með 48 megapixla til að vinna með hefurðu svo mikinn sveigjanleika og getur virkilega lífgað upp á myndirnar með myndvinnslunni,“ segir Nguyen og bætir við eini gallinn sé þó að myndir á RAW-sniði taki meira pláss í símanum. 

Lærðu grunninn í myndasamsetningu

Myndasamsetning vísar til þess hvernig ljósmyndarinn raðar sjónrænum þáttum innan ramma síns. „Að taka flottar myndir snýst ekki bara um að vera með flottan búnað. Það snýst líka um að skilja nokkur grunnatriði í myndasamsetningu,“ útskýrir Nguyen. 

„Ég myndi mæla með því að taka myndir í kringum sólarupprás eða sólsetur til að taka myndirnar þínar við sem besta birtu,“ bætir hún við og bendir á að tíminn sem almennt er þekktur sem „gullna klukkustundin“ eða „golden hour“ á ensku sé fullkominn til að ná fram draumkenndum hlýjum tónum. 

Ljósmynd/Nigel Tadyanehondo

Lærðu á myndvinnsluforrit

Að mati Nguyen er góð myndvinnsla lykilatriði þegar taka á flottar myndir. „Myndvinnsla er hinn helmingurinn af skemmtuninni við að taka myndir, og þar fær maður virkilega að lífga upp á myndirnar. Ég breyti öllum myndum sem ég tek á iPhone-símann minn í forritum í símanum,“ segir hún. 

Að nota myndvinnsluforrit í símanum er fljótlegasta og auðveldasta leiðin til að breyta myndum á ferðalagi. „Ég er alltaf undrandi á því hvað ég get búið til 100% bara með iPhone-símanum mínum,“ segir hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert