Í sumar mun ferðaskrifstofan Heimsferðir bjóða upp á tvær ferðir til Tenerife á Spáni frá Akureyri. Það er ekki útilokað að ferðirnar verði fleiri ef vel gengur. Það var akureyri.net sem greindi fyrst frá.
Í byrjun apríl var greint frá því á mbl.is að akureyrska flugfélagið Niceair hefði aflýst öllum flugferðum sínum og gert hlé á allri starfsemi sinni. Spurður hvort það hafi haft eitthvað með þessa ákvörðun að gera svarar Trausti Hafsteinsson sölustjóri Heimsferða því neitandi að því er fram kemur á vef Akureyrar.
Heimsferðir hafa áður boðið upp á beint flug til Tenerife frá Akureyri, en það er þó nýtt af nálinni að slíkar ferðir séu í boði yfir sumartímann. Trausti segir því að ekki sé hægt að líta svo á að fyrirtækið sé að taka við af Niceair.
Fyrri flugferðin til Tenerife frá Akureyri verður farin 20. júní næstkomandi, en heimkoma verður 29. júní. Þá verður seinni ferðin farin 10. júlí og heimkoma 20. júlí. Trausti segist þegar hafa fundið fyrir góðum viðbrögðum við ferðunum í sumar, en alls eru 189 sæti í boði í hvorri ferð.