Konunglegir töfrar víðsvegar um Lundúnir

Það er mikil spenna í loftinu vegna komandi krýningar Karl …
Það er mikil spenna í loftinu vegna komandi krýningar Karl III Bretakonungs. Samsett mynd

Undirbúningur er í hámarki vegna væntanlegrar krýningar Karls III Bretakonungs, áður þekktur sem prinsinn af Wales. Mikil spenna er víðs vegar um heim en þó eflaust hvergi meiri en í Bretlandi og því ýmislegt í boði fyrir friðlausa „royalista“ og ferðamenn.

Konunglegt skutl

Skutlþjónustan Uber í Lundúnum ætlar að bjóða þegnum sínum upp á konunglegar ferðir í hestvagni til að fagna komandi krýningu Karls III. Krýningin fer fram í Westminster Abbey hinn 6. maí næstkomandi.

Fulltrúar Uber segja að fararskjótinn „líkist vagninum sem konungurinn sjálfur mun fara með“ og að hann sé tiltækur fyrir bókanir dagana fyrir krýninguna, 3. til 5. maí. Vagninn er dreginn af fjórum hvítum hestum sem verða íklæddir sérstökum krýningarbúningum. 

„Við erum ávallt að leita nýrra leiða til að bæta smá Uber-töfrum við ferðir fólks. Við erum í skýjunum með krýningarvagninn,“ sagði Andrew Brem, framkvæmdastjóri Uber í Bretlandi í samtali við Travel + Leisure.  

Fleiri ferða- og þjónustufyrirtæki í Lundúnum rúlla út rauða dreglinum til þess að veita íbúum og ferðamönnum þá upplifun og þjónustu er hæfir konungsfjölskyldunni. 

Trylltur krýningarpakki

Hótelið Carlton Tower Jumeirah býður gestum sínum upp á einstakan krýningarpakka sem inniheldur Aston Martin bílaleigubíl, en Karl fékk einmitt slíkt eintak í 21 árs afmælisgjöf frá foreldrum sínum, Elísabetu II drottningu og Filippusi prins.

Síðdegiste er einnig innifalið ásamt „konunglegri“ lautarferð fyrir tvo í Cadogan Gardens ásamt sellóleikara. Konungurinn hefur dáð hljóðfærið frá því að hann dvaldi í heimavistarskóla. 

Konungleg svíta og uppáhaldsviskí Karls

Hótelið Mandarin Oriental Hyde Park býður gestum sem dvelja á hótelinu í maímánuði sérstaka konunglega meðferð með rúmgóðri svítu, "konungs–kavíar“ morgunverði og flösku af Laphraoaig–viskíi sem er í sérstöku uppáhaldi hjá Karli. 

Drottningartertan sem konungurinn elskar

Brown's hótelið í Mayfair, sem sagt er að hafi tekið á móti meðlimum bresku konungsfjölskyldunnar hér á árum áður, mun bjóða upp á sérstaka viðburði og veitingavalkosti. Þau ætla til að mynda að bjóða upp á uppáhaldsköku konungsins, drottningartertu með plómusultu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert