„Enn hérna og með gömlu kenni­töl­una“

Vil­hjálm­ur Vern­h­arðsson, ferðaþjón­ustu­bóndi í Möðru­dal á Fjöll­um, hef­ur í mörg horn að líta í byrj­un júní, sauðburður að klár­ast og sum­ar­vertíðin í ferðaþjón­ust­unni að fara af stað. Vil­hjálm­ur seg­ir lang­flesta gesti sína er­lenda ferðamenn en von­ast til þess að sem flest­ir Íslend­ing­ar kynn­ist feg­urðinni á há­lend­inu.

„Ég er fædd­ur og upp­al­inn hérna. Ég var far­inn og flutt­ur til Reykja­vík­ur eins og nán­ast all­ir aðrir. Þegar þjóðveg­in­um var breytt árið 2001 þá ætluðu for­eldr­ar mín­ir að hætta að búa og fólkið sem var með greiðasölu við þjóðveg­inn ætlaði að loka og bær­inn var að fara í eyði, þá ákvað ég prófa þetta skref og kaupa. Ég ætlaði svo sem aldrei að verða bóndi nema í hjá­verk­um en var með þessa hug­mynd að byggja upp ferðaþjón­ustu,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

Ferðaþjón­usta á Íslandi hef­ur breyst mjög mikið á und­an­förn­um tveim­ur ára­tug­um og hef­ur Vil­hjálm­ur ekki farið var­hluta af því. Ævin­týrið hans fór ró­lega af stað en hann hef­ur staðið af sér kreppu og kór­ónu­veiru. „Ég er alla­vega enn hérna og með gömlu kenni­töl­una,“ seg­ir hann glett­inn.

Fjalla­drottn­ing­in Herðubreið

Útsýnið er aðals­merki staðar­ins að sögn Vil­hjálms. „Við höf­um fjalla­drottn­ing­una Herðubreið hérna í fang­inu, Kverk­fjöll­in og sjá­um ótrú­lega vítt, við sjá­um héðan inn á jök­ul, það eru 100 kíló­metr­ar. Við erum með óhemju vítt og flott út­sýni. Svo er það nátt­úru- og dýra­líf sem er hér allt í kring. Svo er þetta eld­fjalla­lands­lag allt í kring­um okk­ur.“

Vil­hjálm­ur seg­ir að all­ir bíl­ar og ferðavagn­ar kom­ist á tjald­stæðið. Hins veg­ar ef fólk ætl­ar lengra inn á hálandið þarf það að vera á betri bíl­um. Hann er með gist­i­rými fyr­ir 110 manns í mis­mun­andi gist­i­rým­um og auk þess er veit­ingastaður. „Við fram­leiðum okk­ar kjöt sjálf sem við bjóðum gest­um okk­ar upp á. Við veiðum bleikj­una sem er á mat­seðlin­um í vötn­un­um og ánum. Gæs­in og hrein­dýrið kem­ur frá okk­ar veiðimönn­um sem við þjón­ust­um, mat­seðill­inn er eins staðbund­inn og hann get­ur verið. Ástæðan fyr­ir að því að við erum bænd­ur er að við vilj­um að all­ir okk­ar aðal­rétt­ir séu af bæn­um, hvort sem það er villi­bráð eða það sem við rækt­um,“ seg­ir Vil­hjálm­ur og seg­ir þau vera að vinna í því að koma upp gróður­húsi til að rækta sal­at.

Herðubreið.
Herðubreið. Morg­un­blaðið/​Sig­urður Bogi

Vil­hjálm­ur seg­ir vin­sælt að gista í eina til tvær næt­ur og fara í ferðir í Kverk­fjöll eða í Öskju. Ferðaþjón­ust­an hans býður upp á slík­ar ferðir auk þess sem þyrluflug er að byrja aft­ur eft­ir hlé í kjöl­far heims­far­ald­urs. Að fljúga yfir Öskju er ein vin­sæl­asta þyrlu­ferðin en það geta verið ýms­ar ástæður fyr­ir því að fólk fer í út­sýn­is­flug með þyrlu. Draum­ur eldra fólks um að fara á topp Herðubreiðar varð til að mynda að veru­leika þegar þau fengu þyrlu til að lenda þar. „Það er hægt að láta ým­is­legt ræt­ast ef maður er rétt þenkj­andi,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

Aðallega er­lend­ir ferðamenn

Á haust­in eru það Íslend­ing­ar að megn­inu til sem koma til þeirra Vil­hjálms og eig­in­konu hans, Elísa­bet­ar Svövu Kristjáns­dótt­ur, á Möðru­dal á Fjöll­um. Til­gang­ur­inn er veiðar. „Yfir sum­ar­tím­ann á venju­leg­um degi erum við að tala um 95 pró­sent út­lend­inga eða meira. En svo í kór­ónu­veirufar­aldr­in­um var allt fullt af Íslend­ing­um og gott veður,“ seg­ir Vil­hjálm­ur. Hann seg­ir Íslend­inga einnig hafa fjöl­mennt fyr­ir nokkr­um árum. „Þeir voru hálf­veðurteppt­ir af því þeir vildu ekki yf­ir­gefa góða veðrið. Að Íslend­ing­ar komi í gist­ingu á hót­el­inu eða gisti­hús­inu yfir sum­ar­tím­ann það er und­an­tekn­ing.“

Vil­hjálm­ur von­ast til að ferðalög Íslend­inga um eigið land hafi opnað augu þeirra fyr­ir ágæti lands­ins og breytt ferðavenj­um lands­manna til fram­búðar, að ein­hverju leyti að minnsta kosti. „Árið 2020 feng­um við hingað fólk á miðjum aldri hálfnað með hring­inn um­hverf­is Ísland sem hafði aldrei komið á Aust­ur­land áður. Þau voru svo heilluð, þau voru bara: „Hér eru flott­ir veit­ingastaðir og flott hót­el.“ Fólk upp­lifði Ísland allt öðru­vísi en áður og ég vonaði að þetta myndi breyta ein­hverju og fólk myndi ferðast meira um landið en ég veit ekki hvernig það verður af því Ísland er nátt­úr­lega bara full­setið af út­lend­ing­um yfir sum­arið.“

Gistirýmin eru af ýmsum toga og minna á gamla tíma.
Gist­i­rým­in eru af ýms­um toga og minna á gamla tíma.

Bestu ástarpung­ar á land­inu

Ekki er hægt að koma við á Möðru­dal á Fjöll­um nema fá sér annaðhvort klein­ur eða ástarpunga í Fjallakaffi en bakk­elsið er að sjálf­sögðu heima­steikt. Aðspurður hvort þetta séu bestu klein­ur á Íslandi vill Vil­hjálm­ur lítið full­yrða um það en seg­ir leiðsögu­menn­ina sem koma við mjög ánægða. „Við höf­um al­veg heyrt það að við séum með bestu ástarpung­ana á Íslandi,“ seg­ir hann.

Hvort er betra klein­urn­ar eða ástarpung­arn­ir?

„Fjallakaffi var þekkt fyr­ir klein­urn­ar lengst af en þetta hef­ur snú­ist við. Fjallakaffi er orðið þekkt­ara fyr­ir ástarpung­ana.“

Hvernig er lífið á vet­urna?

„Þetta er allt öðru­vísi. Þetta eru al­veg tveir mis­mun­andi tím­ar. Á sumr­in höf­um við minni tíma fyr­ir ferðamenn­ina. Við vilj­um að ferðamenn­irn­ir upp­lifi að þetta sé fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki og við erum hérna alla daga, allt sum­arið, sjálf. Við reyn­um að spjalla við fólkið og gefa því upp­lýs­ing­ar sjálf. Það eru hins veg­ar óhemj­umarg­ir að koma. Á vet­urna get­ur maður gefið hverj­um ferðamanni meiri tíma af því að það eru miklu færri. En sum­arið er árstíðin sem allt snýst um til þess að lifa af árið en við erum með opið allt árið,“ seg­ir Vil­hjálm­ur sem mæl­ir með að skoða norður­ljós­in í Möðru­dal á Fjöll­um.

Elísabet og Vilhjálmur eru bændur í hjáverkum. Ferðaþjónustan er þeirra …
Elísa­bet og Vil­hjálm­ur eru bænd­ur í hjá­verk­um. Ferðaþjón­ust­an er þeirra aðalstarf.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert