Keyra til Tenerife til að gera upp hús

Hjónin Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson ásamt dætrunum þremur, Ragnheiði …
Hjónin Snæfríður Ingadóttir og Matthías Kristjánsson ásamt dætrunum þremur, Ragnheiði (15 ára), Margréti (14 ára) og Bryndísi (10 ára). Myndin var tekin þegar fjölskyldan hóf ferðalagið og var í biðröð fyrir utan Norrænu á Seyðisfirði. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Ævin­týra­kon­an og rit­höf­und­ur­inn, Snæfríður Inga­dótt­ir, og fjöl­skylda henn­ar lögðu ný­lega keyr­andi af stað frá Ak­ur­eyri til Teneri­fe á göml­um Land Rover. Á leiðinni hafa þau skipu­lagt nokk­ur íbúðaskipti en mark­miðið er að enda á Teneri­fe til að gera þar upp gam­alt hús. Ferðavef­ur mbl.is heyrði í Snæfríði þegar þau voru að leggja af stað. 

„Við erum bara feg­in að vera kom­in af stað því þetta var tví­sýnt. Bæði kom upp óvænt vesen með bíl­inn rétt fyr­ir brott­för, sem var kannski ekk­ert óvænt því það er alltaf eitt­hvað þegar gaml­ir Land Rover­ar eru ann­ars veg­ar, en svo þegar við loks­ins vor­um búin að setja allt dótið í bíl­inn reynd­ist hann held­ur rasssíður svo það var farið í að að létta hann á síðustu stundu,“ seg­ir Snæfríður og bæt­ir við að óveður í Dan­mörku hafi einnig sett strik í reikn­ing­inn og seinkað áætl­un Nor­rænu.

Fjöl­skyld­an hef­ur skipu­lagt Evr­ópu­ferðalagið í nokk­urn tíma en það sem ýtti ferðaplön­un­um end­an­lega úr vör voru tíma­mót í fjöl­skyld­unni.

„Elsta dótt­ir okk­ar, sem var að ljúka grunn­skóla­námi, er að fara í alþjóðleg­an ef­terskole í Dan­mörku. Það verður mikið æv­in­týri fyr­ir hana og minnti okk­ur hjón­in á að við átt­um okk­ur ýmis áform um æv­in­týri sem fjöl­skylda, en þau áform voru orðin að fjar­læg­um draumi í hinu dag­lega amstri. Ann­ars veg­ar hafði okk­ur lengi langað að ferðast um Evr­ópu með stelp­urn­ar og hins veg­ar að gera upp gam­alt hús á Teneri­fe. Við áttuðum okk­ur á því að tím­inn væri að renna frá okk­ur þegar elsta dótt­ir okk­ar komst inn í þenn­an skóla og að þá vær­um við bara fjög­ur eft­ir. Við ákváðum því að spyrna við og keypt­um gam­alt hús á Teneri­fe og skipu­lögðum þetta ferðalag sem hefst á því að keyra hana í skól­ann þegar við kom­um til Dan­merk­ur, og svo höld­um við fjög­ur áfram niður eft­ir. Við vild­um miklu frek­ar lenda í ein­hverju skemmti­legu frek­ar en að horfa upp á tómt ung­linga­her­bergi heima á Ak­ur­eyri", seg­ir Snæfríður.

Húsið á Tenerife er í slæmu ástandi en býður upp …
Húsið á Teneri­fe er í slæmu ástandi en býður upp á ýmsa mögu­leika. Matth­ías er húsa­smíðameist­ari og spennt­ur fyr­ir að tak­ast á við áskor­an­ir í öðru lofts­lagi. Í lok síðasta árs tók fjöl­skyld­an til í hús­inu, en reikn­ar með að hefja fram­kvæmd­ir af full­um krafti í vet­ur.

Hann sá um bíl­inn - hún reddaði húsa­skipt­um 

Eig­inmaður henn­ar, Matth­ías Kristjáns­son, tók það al­farið að sér að und­ir­búa bíl­inn fyr­ir ferðina en með í för er full­ur kassi af vara­hlut­um ef eitt­hvað skildi klikka. Þá pakkaði hann einnig eitt­hvað af verk­fær­um sem nýt­ast munu við húsa­verk­efnið á Teneri­fe. Sjálf sá hún um að finna íbúðaskipti á nokkr­um stöðum á leiðinni. Snæfríður er þekkt húsa­skipta­drottn­ing og hef­ur haldið vin­sæl nám­skeið hjá End­ur­mennt­un Há­skóla Íslands til að kenna fólki að skipta á hús­næði og láta drauma sína ræt­ast. 

„Ferðalagið til Teneri­fe mun taka tæp­ar þrjár vik­ur en auðvitað er hægt að keyra þetta á mun styttri tíma ef maður vill. Við þurf­um að kom­ast til Hu­elva á Spáni, þaðan fer ferj­an til Teneri­fe. Eig­inmaður­inn hef­ur auðvitað trölla­trú á þess­um Land Rover Disco­very I sem er 1991 mód­el en bíll­inn hef­ur fylgt okk­ur lengi. Ég er með smá í mag­an­um yfir þessu, en svo er ekk­ert víst að þetta klikki,“ seg­ir hún og hlær. 

Hvað varðar húsið á Teneri­fe þá seg­ir Snæfríður að þau hafi fengið húsið ódýrt enda er það í al­gjörri niður­níslu.

„Húsið er staðsett ná­lægt höfuðborg­inni Santa Cruz og það hef­ur eng­inn búið þar í 12 ár eða meira. Það er því að mörgu að huga. Við byrjuðum á að hreinsa til á lóðinni í des­em­ber síðastliðnum og síðan þá hef­ur verið unnið í leyf­is­veit­ing­um og breyt­ing­ar­til­lög­um. Við vit­um ekk­ert hvernig þetta verk­efni mun ganga eða hversu lang­an tíma það mun taka en við erum spennt fyr­ir þessu og gíruð í að láta á þetta reyna, Við verðum ann­ars á tölu­verðu flakki í vet­ur og höf­um gert nokk­ur spenn­andi íbúðaskipti á næstu eyj­um og erum með plön um nokkr­ar skemmti­leg­ar göngu­ferðir, ætl­um til dæm­is að ganga þvert yfir Gran Can­aria,“ seg­ir Snæfríður. 

Áhuga­sam­ir geta fylgst með ferðalag­inu á In­sta­grammi Snæfríðar en þau hafa verið dug­leg að segja frá ferðalag­inu og und­ir­bún­ingi þess á fé­lags­miðil­inn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert