Ferðaljósmyndarinn Gunnar Freyr Gunnarsson, betur þekktur sem Icelandic Explorer, heldur áfram að heilla netheima með mögnuðum náttúrumyndum sínum og ljósmyndum af eldgosinu á Reykjanesi, sem lýsir upp næturhimininn á Suðurnesjum.
Í gærmorgun birti hann ótrúlega ljósmynd á Instagram úr miðborg Reykjavíkur, þar sem Hallgrímskirkjuturn stendur upp úr fyrir miðri mynd. Í bakgrunni sést í háan skýstrók sem dansar við gíg eldgossins.
„Jæja, þá byrjar þetta aftur,“ skrifaði Gunnar Freyr í upphafi færslunnar. „Hér má sjá fyrstu myndirnar mínar af nýja eldgosinu. Það sást mjög vel í morgun, alls staðar á höfuðborgarsvæðinu, og langaði mig því að nýta tækifærið og fanga stemninguna. Þetta er þriðja eldgosið á aðeins tveimur mánuðum. Það hófst kl 06 í morgun,“ skrifaði Gunnar Freyr einnig við færsluna sem hann birti í gærmorgun.
Gunnar Freyr er með marga erlenda fylgjendur á Instagram-síðu sinni Icelandic Explorer, en yfir 613.000 manns fylgja honum. Hann fær reglulega mikið hrós fyrir ljósmyndir sínar enda stórbrotnar og ævintýralegar.
Gunnar Freyr birti aðra færslu í gærkvöldi sem sýndi fleiri myndir frá eldgosinu, en hann fór í þyrluflug yfir eldgosasvæðið.