Hvert er skemmtilegast að fara í páskabíltúr?

Ætlar þú að ferðast innanlands um páskana?
Ætlar þú að ferðast innanlands um páskana? Samsett mynd

Yfir páskana er vinsælt að skella sér í ferðalag út á land, upp í sumarbústað eða jafnvel út fyrir landsteinana. Það er hins vegar vel hægt að nýta páskafríið til að ferðast og fræðast um landið okkar án þess að þurfa að standa í því að pakka fjölskyldunni saman fyrir næturgistingu enda nóg af spennandi stöðum í þægilegri fjarlægð frá Höfuðborgarsvæðinu fyrir dagsferðir.

Ferðavefur mbl.is tók saman fimm hugmyndir að skemmtilegum dagsferðum sem tilvalið er að skella sér í yfir páskana.

Þingvellir

Þingvellir eru einn sögufrægasti staður landsins og náttúruundur á heimsvísu. Eins og mörgum er kunnugt var Alþingi stofnað á Þingvöllum árið 930 og kom þar saman árlega til ársins 1798. Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1928 og nær yfir Þingvelli og nánasta umhverfi þeirra. Þá lýstu Íslendingar einnig yfir sjálfstæði á Þingvöllum þann 17. júní 1944. 

Jarðsaga og vistkerfi svæðisins er einnig einstakt, en það er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins og þar má meðal annars sjá öfl jarðskorpunnar í gjám og sprungum. Það ættu því flestir að hafa gaman af því að heimsækja Þingvelli sem eru í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. 

Það er alltaf gaman að upplifa náttúrufegurðina á Þingvöllum.
Það er alltaf gaman að upplifa náttúrufegurðina á Þingvöllum. Ljósmynd/Unsplash/Einar Jónsson

Háifoss

Ísland er sannkölluð fossaparadís, en hér má finna fjölda fossa í hinum ýmsu stærðum og gerðum sem gaman er að skoða. Háifoss er einn þeirra, en hann er staðsettur innst í Þjórsárdal og býður ferðalöngum upp á magnað sjónarspil. Fossinn er 122 metrar á hæð, en við hlið hans er fossinn Granni sem er litlu lægri. 

Það er magnað sjónarspil að sjá Fossána steypast fram af hálendisbrúninni þar sem nærri 2 milljón ára gömul jarðlög úr þykkum hraunum og móbergi blasa við. Auðveldasta leiðin að fossinum samkvæmt Íslenska ferðavefnum er um línuveg sem liggur milli Tungufells og Sandafells, en þá er keyrt framhjá Hólaskógi og upp að fossinum ofan frá. Það tekur um tvær klukkustundir að keyra að Háafoss frá Reykjavík, en athugið að vegurinn frá Hólaskógi getur verið grýttur og fer aksturstíminn því eftir aðstæðum. 

Einnig liggja jeppaleiðir frá Rauðuskriðum og Stöng í Þjórsárdal langleiðina inn að fossinum neðan frá, en þá þarf að ganga nokkurn spöl upp í móti til að komast að fossunum.

Ótrúlegt sjónarspil blasir við ferðalögnum þegar gengið er að Háafossi …
Ótrúlegt sjónarspil blasir við ferðalögnum þegar gengið er að Háafossi í Þjórsárdal. Ljósmynd/Unsplash/Theodor Vasile

Kirkjufell

Hið sérkennilega og undurfagra Kirkjufell kannast eflaust margir við, en það er staðsett við Grundarfjörð á Snæfellsnesi. Fjallið teygir sig 463 metra yfir sjávarmál og er líklega í hópi þeirra fjalla sem mest hefur verið myndað á Íslandi í gegnum tíðina, enda hefur lag fjallsins vakið mikla athygli. 

Sjónarhornið frá Kirkjufellsfoss að Kirkjufellinu þykir sérlega fallegt og því gaman að ganga að fossinum sem er staðsettur stutt frá fjallinu. Frá Reykjavík tekur um tvær klukkustundir og 40 mínútur að keyra að Kirkjufelli. 

Kirkjufell er frægt fyrir einstaka lögun og mikla fegurð.
Kirkjufell er frægt fyrir einstaka lögun og mikla fegurð. Ljósmynd/Unsplash/Robert Bye

Reykjadalur

Bíltúr að Reykjadal við Hveragerði er fullkominn fyrir þá sem langar í páskabíltúr en geta ómögulega hugsað sér að sitja lengi inni í bíl og þykir spennandi að skoða landið fótgangandi. 

Reykjadalur er sannkölluð útivistarperla, en keyrt er að bílastæði fyrir ofan Hveragerði og þaðan liggur göngustígur upp dalinn að heitum læk sem hægt er að baða sig í. 

Það tekur ekki nema um 40 mínútur að keyra í Hveragerði, en nokkrar gönguleiðir eru svo um dalina og er sú stysta að heita læknum um þriggja kílómetra löng. 

Gangan að læknum er skemmtileg og býður upp á fallegt …
Gangan að læknum er skemmtileg og býður upp á fallegt landslag og mikla litadýrð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seljavallalaug

Í undurfögrum fjallasal fremst í Laugarárgili undir Eyjafjöllum er að finna hina frægu Seljavallalaug. Sundlaugin er 25 metra löng og 10 metra breidd og er ein sú elsta á Íslandi, en hún var byggð við klettavegg og rennur heitt vatn í hana úr berginu. Árið 1927 var hafin sundkennsla í lauginni sem hluti af skyldunámi, en Seljavallalaug var stærsta sundlaug landsins til ársins 1936.

Það tekur rúmlega tvo tíma að keyra að lauginni, en til þess að komast þangað er ekið austur um Suðurlandsveg þar til komið er að vegamótum Raufafellsvegar (vegur 242). Beygt er inn þann veg og ekið inn dalinn sem liggur að Seljavöllum. Bílastæði eru við sumarhús sem liggur í hlíðinni, en þaðan er gengið að lauginni sem tekur um 30 mínútur. 

Hitastig laugarinnar er kaldara á veturna og vorin, en almennt …
Hitastig laugarinnar er kaldara á veturna og vorin, en almennt er meðalhitinn sagður vera frá 25-30°C. Ljósmynd/Unsplash/Michael James
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka