Fjallabak, Sprengisandur og niður í Eyjafjörð

Útsýnið þegar farið er um Pokahryggjaleið er stórbrotið.
Útsýnið þegar farið er um Pokahryggjaleið er stórbrotið. mbl.is/Þorsteinn

Það jafnast fátt á við að halda upp á hálendi með hjólið og stimpla sig þar með nær algjörlega út úr hinu daglega amstri. Að ná þessari eftirsóknaverðu náttúrutengingu, innbyrða umhverfið og þögnina og finna hið svala íslenska sumar leika um andlitið.

Síðustu ár hefur planið alltaf verið að fara eina góða sumarhjólaferð upp á hálendi og í fyrra var stefnan sett á hálfgerða þverun yfir Sprengisand sem tæki 5-8 daga. Upphaflega planið var að fara einnig Gæsavatnaleið, Krepputungur og Jökuldalsheiði niður á hringveg, en ekkert varð þó úr því og er svæðið norðan Vatnajökuls enn á „to-do“-listanum.

Veðurspáin gerði ráð fyrir litlum sem engum vindi stærstan hluta ferðarinnar. Hins vegar gat brugðið til beggja vona með úrkomu. Fjölskyldan hafði þá ákveðið að vera að Fjallabaki fyrstu daga ferðarinnar og þeir dagar hittu fullkomlega inn á að geta fylgst á miðri leið með keppendum í The Rift-hjólakeppninni, sem er orðin að alþjóðlegum uppskerudegi malarhjólreiða hér á landi ár hvert.

Upphaf leiðarinnar var við Búrfell og endað á Akureyri. Farið …
Upphaf leiðarinnar var við Búrfell og endað á Akureyri. Farið var um Fjallabak, Sprengisand og svo niður í Eyjafjarðardal. Kort/mbl.is

Pokahryggir komu skemmtilega á óvart

Ferðin byrjaði á smá krúsídúllu um Fjallabak og fyrsta daginn hjólaði eiginkonan með mér. Hjólað var frá Búrfelli inn á Landmannaleið, en svo beygt upp að Heklu. Falleg og skemmtileg leið þangað til komið er að fyrstu helvítisbrekku ferðarinnar þar sem farið er upp fyrir Rauðuskál. Þurftum bæði að játa okkur sigruð á leiðinni þar upp og reiða hjólin að hluta.

Stefnan er tekin suður fyrir Krakatind þar sem önnur helvítisbrekka tekur við manni áður en komið er inn á Krakatindaleið, sem er einmitt sú leið sem keppendur í Rift fara um. Haldið er aðeins áfram þangað til komið er að Dalakofa. Himneskur staður sem allt of fáir þekkja og heimsækja. Stuttur fyrsti dagur í kílómetrum talið, um 30 km, en um 600-700 m klifur.

Ófáar helvítisbrekkur voru á leiðinni. Þessi er á leiðinni frá …
Ófáar helvítisbrekkur voru á leiðinni. Þessi er á leiðinni frá Heklu að Dalakofa. mbl.is/Þorsteinn

Byrjuðum næsta dag á að fylgjast með keppendum í Rift bruna framhjá og hvöttum við þá áfram með þokulúðri, hrópum og köllum. Örugglega skrítin sjón fyrir einhverja erlenda keppendur að mæta svona stuðningsliði í miðjum óbyggðum, en þakklátastur var Breti á miðjum aldri sem þáði einn kaldan og svalandi bjór þarna á hæsta punkti keppninnar.

Ég fór þennan dag loksins leið sem ég hafði lengi haft í sigtinu en aldrei farið, Pokahryggir. Nokkrir brattir klifurkaflar en alveg einstaklega falleg hjólaleið. Byrjað á því að þvera Markarfljótið ofan við Ónefnda fossinn, svo farið um jarðhitasvæði við Reykjadali og auðnina í kringum Pokahryggi. Á leiðinni var fjöldi staða með glæsilegu útsýni til allra átta og er slíkt aldrei leiðinlegt á jafn fallegum stað og að Fjallabaki. Að lokum tók við skemmtileg brekka niður að Landmannahelli þar sem gist var. Annar tæplega 30 km dagur, en hækkunin minni, eða um 400 metrar.

Keppendur í Rift á líklega hæsta punkti keppninnar, rétt við …
Keppendur í Rift á líklega hæsta punkti keppninnar, rétt við Dalakofa. Þakklátastur var Breti á miðjum aldri sem þáði einn kaldan og svalandi bjór eftir mikið klifur kílómetrana á undan. mbl.is/Þorsteinn

Haldið inn á Sprengisandsleið

Á þriðja degi var svo komið að því að segja skilið við fjölskylduna og halda einn áfram. Hjólað út Dómadalinn og inn á Sigölduleið, en þar var sandurinn á köflum nokkuð laus í sér og þurfti ég að lækka aðeins þrýstinginn í dekkjunum. Áfram var þó erfitt að hjóla og að stýra í mestu gryfjunum. Þegar upp var staðið var þetta næsterfiðasti sandkaflinn í allri ferðinni.

Þegar komið var inn á Sprengisandsleið var áætluð dagleið hálfnuð og við tók mikilfengilegt hálendislandslagið með Þórisvatn á hægri hönd. Gríðarleg þvottabretti og aðrar ójöfnur á köflum og fann ég þarna fyrir því að vera í fyrsta skiptið að prófa almennilega flatt stýri í stað hrútastýris. Átti hristingurinn og öðruvísi álag eftir að koma aðeins í bakið á mér þegar leið á.

Fararskjótinn var Mongoose framdempað fjallahjól. Á því voru tvær afturtöskur, …
Fararskjótinn var Mongoose framdempað fjallahjól. Á því voru tvær afturtöskur, millistærð af stelltösku og svo lítil taska ofan. mbl.is/Þorsteinn

Ég hitti á þessum degi tvo hópa hjólara sem voru einnig að þvera landið og voru báðir að fara svokallaða Iceland divide-leið, sem nánar er fjallað um á öðrum stað í blaðinu. Eftir 80 km dag og um 810 m hækkun tjaldaði ég við Versali (Stóraver). Þrír aðrir hjólreiðamenn höfðu fengið svipaða hugmynd og tjöldu þar einnig, en þeir voru líka að elta Iceland divide-leiðina. Ekki er skálavarsla í Versölum og lítið um ferskt vatn alveg í næsta nágrenni og því best að koma vel birgur af neysluvatni.

Um nóttina rigndi og útlit var fyrir blautan fjórða dag. Eftir staðgóðan morgunverð kvaddi ég suðurfarana og hélt örlítið til baka að næstu vegamótum og fór Kvíslaveituleið norður frekar en Sprengisandsleið (svokallaða Ölduleið) yfir Þveröldu, Hnöttóttuöldu og Skrokköldu með tilheyrandi hækkun. Heppnin var með í för því eftir stutta stund var ég kominn úr rigningunni.

Tjaldað í næsta nágrenni við Versali.
Tjaldað í næsta nágrenni við Versali. mbl.is/Þorsteinn
Jökulvatnslituðu lónin í Kvíslaveitunni endurspegluðu á þessum degi einstaklega flottar …
Jökulvatnslituðu lónin í Kvíslaveitunni endurspegluðu á þessum degi einstaklega flottar skýjamyndir. mbl.is/Þorsteinn

Hrjóstrugt verður hrjóstrugra

Kvíslaveituleiðin er mjög falleg leið þar sem maður upplifir miklar andstæður eftir því í hvaða átt er horft. Á hægri hönd hefur maður ummerki kvíslaveitunnar, þar sem hluta af vatni Þjórsár er veitt í Þórisvatn og þar með í nokkrar af efstu virkjunum Þjórsársvæðisins. Fer vatnið í gegnum veituskurði í Hreysislón, Kvíslavatn og að lokum Drattahalavatn. Á þessari leið fær maður næg tækifæri til að virða þessa skurði og mannvirki fyrir sér og sjá jökulvatnslituðu lónin, sem endurspegluðu á þessum degi einstaklega flottar skýjamyndir.

Á vinstri hönd má sjá hrjóstruga sanda og nokkra læki eða þverár sem renna í Þjórsá. Handan Þjórsár er svo að finna Tjarnarver og Þjórsárver sem liggja undir Hofsjökli sem leynist þarna aðeins lengra í burtu auk Arnarfellanna tveggja. Við Þúfuverskvísl reyndist svo fyrirtaksstaður til að taka nestispásu og var þar meðal annars að finna litla manngerða vatnsuppsprettu þar sem þægilegt var að fylla á vatnsbrúsa.

Horft í vesturátt frá Kvíslaveituvegi í átt að Arnarfellunum og …
Horft í vesturátt frá Kvíslaveituvegi í átt að Arnarfellunum og Hofsjökli.

Þegar komið er norður fyrir Kvíslavatn er hægt að halda áfram Kvíslaveituleið upp að Hreysislóni eða taka tengileið austur inn á Sprengisandsleið. Lengra í norður eru tveir aðrir möguleikar til að komast inn á Sprengisandsleið. Planið var að fara þessa fyrstu leið, enda átti hún að vera þægilegasta leiðin. Í öllu umhverfismókinu áttaði ég mig of seint að ég var kominn nokkra km fram yfir vegamótin og rétt ókominn að efstu stíflu Kvíslaveitu.

Í stað þess að snúa við ákvað ég að taka næstu tengileið, en hún reyndist ekki greinilegri en svo að ég hjólaði einnig fram hjá henni, en fann þó stuttu síðar. Var hún enda lítið greinileg og ekki mikið meira en veik för eftir 3-4 bíla og gamlar stikur á um 100-200 m fresti, ef þær stóðu enn uppi.

Þverunin frá Kvíslaveituleið yfir á Sprengisandsleið reyndist nokkuð óljós. Það …
Þverunin frá Kvíslaveituleið yfir á Sprengisandsleið reyndist nokkuð óljós. Það skal tekið fram að þetta er samt sem áður einn greinilegasti kafli leiðarinnar. mbl.is/Þorsteinn

Við tók 10-12 km leið í einskismannslandi með einstaklega fallegu og hrjóstrugu landslagi (jafnvel hrjóstrugra en annað landslag á Sprengisandi). Lækka þurfti þrýsting í dekkjum vel niður, enda var þetta erfiðasti sandkafli ferðarinnar. Ég náði að hjóla langstærstan hluta leiðarinnar, en á köflum tók þetta vel á og maður fékk vel að vinna fyrir kvöldmatnum. Frábær tilfinning að vera svona einn og yfirgefinn, allavega meðan veðrið er bærilegt. Leiðin endar svo rétt suður af Nýjadal og var þægilegt að komast á þjappaðan veg, þrátt fyrir þvottabretti, síðasta spölinn. Þessi fjórði dagur reyndist passlegur, 58 km og 690 m hækkun.

Í Nýjadal er fínasta aðstaða Ferðafélagsins og þægilegt að komast inn að borða og ræða við aðra ferðalanga. Voru þar tveir stakir hjólreiðamenn og svo annað hjólapar og voru allir á fyrrnefndri Iceland divide-leið. Þarna kom í ljós að veðurspáin hafði versnað og því tók ég þá ákvörðun að stytta lokakaflann og fara frekar Í Laugafell og svo niður í Eyjafjörð á tveimur dögum í staðinn fyrir um fjóra daga norðan Vatnajökuls.

Stefnan á fimmta degi var því tekin yfir Fjórðungskvísl og Hagakvísl og vestur Skagafjarðarleið í staðinn fyrir að fara inn á Austurleið eða áfram Sprengisand niður Bárðardal. Þegar leið á daginn fór að hellirigna og átti eftir að rigna að mestu þangað til rétt fyrir Laugafell.

Í Nýjadal og svo aftur í Laugafelli hitti ég á …
Í Nýjadal og svo aftur í Laugafelli hitti ég á þessa hressu Finna sem einnig voru að þvera landið og ætluðu að ljúka för sinni á Akureyri. Þeir voru þó gangandi en ekki á hjóli og með allan búnað og vistir á bakinu. Báðir með gríðarlega reynslu af utanvegahlaupum og gríðarlega ferskir þrátt fyrir margra daga göngu frá Skógum. mbl.is/Þorsteinn

Óraunveruleg upplifun

Aftur er farið um hrjóstrugt landslag þar sem sandöldur eru einkennandi fyrir landslagið, en inn á milli er þó Bergvatnskvísl Þjórsár, sem er mikil vin í þessari eyðimörk, og nokkrir aðrir lækir og Jökulkvíslin. Eftir um 50 km og 280 m hækkun var komið í Laugafell og í þetta skiptið ákvað ég að nýta mér gistiaðstöðuna og skella mér í laugina.

Úr Laugafelli var svo planið að klára niður á Akureyri í einum rykk á síðasta degi, tæplega 90 km leið, en að miklu leyti lækkun. Hæst er farið í rétt rúmlega 900 metra hæð um hrjóstruga sanda áður en greina má Eyjafjarðardal framundan. Í þessu tilfelli mætti mér þokuveggur þar sem lækkunin niður í dalinn hófst. Á örskotsstundu lækkaði hitastigið úr um 10-12°C næstum niður í frostmark og útsýnið varð mjög lítið.

Eftir að hafa farið inn í þokubakka á brúninni byrjaði …
Eftir að hafa farið inn í þokubakka á brúninni byrjaði lækkunin og allt í einu fóru grænu litirnir að birtast og lækjaniðurinn að hljóma. Tilfinning sem erfitt er að lýsa fyrir einhverjum sem ekki hefur upplifað þetta sjálfur. mbl.is/Þorsteinn

Það sem fylgdi er svo ein af óraunverulegri stundum sem ég hef upplifað. Að hjóla þarna niður torfæran og sundurskorinn slóðann og allt í einu heyrir maður innan úr þokunni lítinn lækarnið, rétt áður en maður hjólar yfir fyrstu sprænuna sem þverar veginn. Stuttu síðar heyrir maður í öðrum læk skammt frá og fyrsta fossahljóðið. Allt í einu, eftir marga daga nánast eingöngu á svörtum söndum, heyrist lækjarhljóð allt í kringum mann. Það er erfitt að lýsa þessu fyrir einhverjum sem ekki hefur upplifað þessar miklu andstæður svona sterkt. Svartur sandur og svo iðjagrænar hlíðar og endalaust af rennandi vatni.

Lækirnir eru á hverju strái innst í Eyjafjarðardal og flæða …
Lækirnir eru á hverju strái innst í Eyjafjarðardal og flæða yfir veginn nokkuð víða. mbl.is/Þorsteinn

Til viðbótar við þessa náttúruupplifun var ótrúlega skemmtilegt að hjóla niður þennan kafla og gæti ég trúað að alvöru fjallahjólarar gætu þarna fundið fjölina sína, en samtals er þessi kafli um 15-20 km langur og 700-800 m lækkun. Að lokum tók svo við síðasti kaflinn, 40 km af svo gott sem flatri leið út Eyjafjörðinn og á Akureyri, ekta tímatökuleið enda vinsæl sem slík hjá Eyfirðingum. Samtals var þessi síðasti dagur 86 km og 600 m lækkun og þar með heildarvegalengdin um 350 km og heildarhækkun 3.500 m. Eftir eina nótt á Akureyri og góðan heitan pott var ekki annað eftir en að taka strætó í bæinn aftur, enda um að gera að nýta þá þjónustu að geta sett hjól aftan á rúturnar.

Á sumum stöðum er vegurinn líkari því að vera lækur …
Á sumum stöðum er vegurinn líkari því að vera lækur en vegur. mbl.is/Þorsteinn

Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem lesa má í heild hér:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka