Stórstjörnur gáfu út lag um Akureyri

Sebastián Yatra og Aitana urðu heilluð af Akureyri og sömdu …
Sebastián Yatra og Aitana urðu heilluð af Akureyri og sömdu lag um bæinn. Samsett mynd

Á dög­un­um gáfu kól­umb­íski söngv­ar­inn Sebasti­án Yatra og spænska söng­kon­an Ait­ana út lag sem ber titil­inn Ak­ur­eyri. Þetta sam­starf þeirra hef­ur vakið þó nokkra at­hygli þar sem þau  áttu í róm­an­tísku sam­bandi um nokk­urra mánaða skeið á síðasta ári en til­kynntu sam­bands­slit í lok árs.

Lagið varð til á ferðalagi sem Yatra og Ait­ana fóru í til Ak­ur­eyr­ar síðasta sum­ar til að fagna af­mæli Aitönu þann 27. júní. „Sebasti­án byrjaði að semja texta og ég byrjaði að búa til lag­lín­una. Og við kláruðum lagið svo í bíln­um,“ sagði Ait­ana um lagið í sam­tali við Bill­bo­ard

Þau tóku einnig upp tón­list­ar­mynd­band á Íslandi sem þau hafa deilt á Youtu­be, en Ait­ana er með 2,39 millj­ón­ir fylgj­enda þar og tæp­lega fjór­ar millj­ón­ir fylgj­enda á In­sta­gram á meðan Yatra er með 18,3 millj­ón­ir fylgj­enda á Youtu­be og rúm­lega 29,3 millj­ón­ir fylgj­enda á In­sta­gram. 

Kveikti Ak­ur­eyri neist­ann á ný?

Eft­ir út­gáf­una hafa sögu­sagn­ir farið á kreik um að ást­in sé kviknuð á ný hjá þeim Yatra og Ait­ana. „Bæði hafa þau ákveðið að sam­ein­ast í þessu nýja lagi sem þau gáfu út 26. apríl og virðist jafn­framt vera end­an­leg staðfest­ing á að parið hafi náð sátt­um,“ er skrifað í um­fjöll­un spænska miðils­ins Hola! um lagið. 

„Ísland er svo sann­ar­lega góður staður til að ná sátt­um vegna hita­stigs þess – með meðal­hita frá 1°-2°C á vet­urna og 12°C á sumr­in –  sem býður upp á faðmlög,“ er einnig skrifað í grein­inni. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert