Hvert er best að ferðast í júlí?

Átt þú eftir að bóka ferð erlendis í júlí?
Átt þú eftir að bóka ferð erlendis í júlí? Samsett mynd

Júlímánuður er mikill ferðamánuður meðal Íslendinga og margir komnir með einhver skemmtileg plön fyrir sumarfríið. Ef þú átt hins vegar eftir að skipuleggja ferðalag erlendis í júlí þá þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur!

Á dögunum tóku ferðasérfræðingar Condé Nast Traveller saman lista yfir bestu áfangastaðina í júlí. Á listanum má finna ótal spennandi áfangastaða víðs vegar um heiminn og því ættu allir að geta fundið eitthvað við hæfi. 

Seychelles

Hvítar strendur, kristaltær sjórinn og fjölbreytt dýralíf á Seychelles-eyjum í Indlandshafi hafa heillað ófáa ferðamenn í gegnum tíðina, enda einn af eftirsóttustu áfangastöðum í heimi. Eyjarnar eru fullkominn áfangastaður fyrir þá sem vilja upplifa suðræna og seiðandi stemningu í góðu hitastigi, en meðalhitinn í júlí er 26°C.

Seychelles-eyjar búa yfir suðrænum og seiðandi töfrum.
Seychelles-eyjar búa yfir suðrænum og seiðandi töfrum. Ljósmynd/Unsplash/Datingscout

Provence

Þeir sem vilja upplifa franskt ævintýri ættu að heimsækja Provence í Frakklandi. Þar finnur þú töfrandi vínekrur og heillandi sjávarbæi, en í júlí eru hinir frægu lavender-akrar í fullum blóma og því ómissandi að heimsækja þá. Í júlímánuði er milt og gott veður í Provence og meðalhitinn um 24°C, en hitinn getur þó farið upp í 30°C á heitustu dögunum.

Það er ómissandi að heimsækja lavender-akrana í júlí.
Það er ómissandi að heimsækja lavender-akrana í júlí. Ljósmynd/Unsplash/Getty Images

Naxos

Ef þú vilt upplifa afslappaða stemningu og alvöru gríska fegurð í júlímánuði skaltu íhuga eyjuna Naxos. Eyjan hefur upp á margt að bjóða fyrir fólk á öllum aldri, en hvað sem þú ákveður að gera þá mun sjónarspilið gleðja augað. Í júlí er meðalhitinn á eyjunni um 26°C.

Naxos býr yfir mikilli fegurð.
Naxos býr yfir mikilli fegurð. Ljósmynd/Unsplash/Stefanos Nt

Sardinía

Sardinía er næststærsta eyja Miðjarðarhafs og tilheyrir Ítalíu, en það er töfrum líkast að heimsækja hana í júlí þar sem sólin skín í ellefu klukkustundir á dag. Þeim sem vilja forðast mannfjöldann er bent á að fara til La Maddalena, sem býður upp á rólegra andrúmsloft og guðdómlegar strendur. Í júlí er meðalhiti á Sardiníu í kringum 24°C.

Hvítar strendur og tær sjórinn einkenna eyjuna sem tilheyrir Ítalíu.
Hvítar strendur og tær sjórinn einkenna eyjuna sem tilheyrir Ítalíu. Ljósmynd/Unsplash/Ivan Ragozin

Stokkhólmur

Ef þú vilt upplifa sumartöfra Skandinavíu í blóma þá er Stokkhólmur í Svíþjóð hinn fullkomni áfangastaður, en þar er milt hitastig í júlímánuði og hægt að synda í sjónum, ganga um borgina og njóta matarsenunnar til hins ýtrasta. Í Svíþjóð er meðalhitinn í júlí í kringum 18°C.

Það er alltaf gaman að heimsækja Stokkhólm!
Það er alltaf gaman að heimsækja Stokkhólm! Ljósmynd/Unsplash/Nikola Johnny Mirkovic
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert