Stóð nakinn undir Seljalandsfossi

Guðmundur Emil Jóhannsson birti myndskeið af sér nöktum undir Seljalandsfossi.
Guðmundur Emil Jóhannsson birti myndskeið af sér nöktum undir Seljalandsfossi. Samsett mynd

Einkaþjálfarinn Guðmundur Emil Jóhannsson, betur þekktur sem Gummi Emil, vakti þó nokkra athygli í vetur þegar hann sást iðulega ber að ofan og í stuttbuxum sama hvernig viðraði. 

Gummi Emil sagði í vor frá því í viðtali á Smartlandi að hann hafi verið að stunda það sem hann kallar kuldaþjálfun síðan í desember á síðasta ári og hefur náð að byggja upp mikið þol á nokkrum mánuðum. 

„Ég hef verið að gera þetta á hverj­um degi síðan í des­em­ber. Núna get ég farið upp á Esj­una í mín­us átta gráðum ber að ofan í stutt­bux­un­um. Ég byrjaði bara á tíu mín­út­um, fór bara í stutta göngu­túra,“ sagði hann í viðtalinu. 

Mælt gegn því að fólk syndi við Seljalandsfoss

Gummi Emil heldur áfram að koma fylgjendum sínum á óvart, en á dögunum birti hann myndskeið á Instagram-reikningi sínum þar sem hann stendur nakinn undir Seljalandsfossi og tekur svo nokkrar armbeygjur í vatninu. 

Seljalandsfoss hefur notið mikilla vinsælda á undanförnum árum en það þykir mikil upplifun að ganga á bak við fossinn og sjá hann frá ólíkum sjónarhornum. Það er hins vegar ekki algengt að fólk taki sundsprett við fossinn, enda alfarið mælt gegn því þar sem það getur verið hættulegt – vatnið er ískalt og fossinn steypist á gríðarhraða fram af brúninni og getur krafturinn því auðveldlega valdið alvarlegum meiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert