5 ævintýralegustu hlaupin um landið í sumar

Hlátur og hreyfing lengir lífið.
Hlátur og hreyfing lengir lífið. Skjáskot/Instagram

Fjölmargar hlaupakeppnir hafa sprottið upp um allt land á síðustu árum en áhugi á hlaupum hefur líklega aldrei verið meiri. Þar sem íslenska ferðasumarið er hafið er tilvalið fyrir þá sem elska að hlaupa að skrá sig í ógleymanlegt hlaup með fjölskyldunni eða vinahópnum. Keppnirnar eru fjölbreyttar og ættu því allir að geta fundið sér eitthvað við hæfi, óháð getustigi og aldri, og hvort sem áhuginn liggur í götuhlaupi eða utanvegahlaupi. 

Að undanförnu hafa utanvegahlaup notið sérstaklega mikilla vinsælda hér á landi sem og erlendis. Dæmi eru um að hlaupara frá öllum heimshornum flykkist til Íslands til að upplifa íslenska náttúru og spreyta sig á ævintýralegum hlaupaleiðum. Til dæmis er barist um miða á hverju ári í Laugavegshlaupið sem er 55 kílómetra hlaup og fer fram um miðjan júlí. 

Enn eru lausir miðar í mörg hlaup sem eru án efa mögnuð upplifun fyrir hlaupaunnendur. Ferðavefur mbl.is tók saman fimm skemmtilegar og ævintýralegar hlaupakeppnir sem haldnar verða í sumar.

Hengill Ultra Trail, Hveragerði – 7. og 8. júní

Í Hengill Ultra er meðal annars hlaupið að Reykjadal, sem …
Í Hengill Ultra er meðal annars hlaupið að Reykjadal, sem er þekktastur fyrir heita baðlækinn. Skjáskot/Instagram

Hengill Ultra Trail verður haldið í 13. sinn dagana 7. og 8. júní næstkomandi. Eins og fyrri ár verður boðið upp á fjölbreyttar hlaupaleiðir 5 km, 10 km. 26 km, 53 km og 106 km.

Í 26 km hlaupinu er meðal annars hlaupið upp Reykjadalinn upp að Ölkelduhnjúk og í kringum hann. Búast má við mikilli stemningu í Hveragerði en á síðasta ári kepptu 836 manns í hlaupinu og bærinn breyttist bærinn í hlaupakarnival með sölusýningu í íþróttahúsinu.

Gullspretturinn, Laugarvatni – 15. júní

Hlaupaleiðin er að hluta til í vatni.
Hlaupaleiðin er að hluta til í vatni. Skjáskot/Instagram

Gullspretturinn er fullkomið fyrir þau sem elska að prófa eitthvað nýtt og sleppa út sínu innra barni í drullusvaði. Hlaupið er í kringum Laugarvatn og er leiðin 8,5 km löng þar sem hlaupið er yfir ár, mýrar og móa með frjálsri aðferð.

Keppnin er líka tilvalin fyrir hressa hlaupakrakka en á síðasta ári var yngsti keppandinn af þeim 200 sem tóku þátt 10 ára gamall. Að hlaupi loknu er keppendum boðið upp á hverabrauð með reyktum silungi, kókómjólk og einn ískaldann. 

Miðnæturhlaup Suzuki, Reykjavík – 20. júní 

Hlaupadrottningar í stuði.
Hlaupadrottningar í stuði. Skjáskot/Instagram

Miðnæturhlaup Suzuki er ein mesta hlaupaveisla sumarsins en keppt er í 5 km, 10 km og hálfmaraþoni, sem 21,1 km. Keppnin fagnaði 30 ára afmæli sínu á síðasta ári þar sem rúmlega 2.300 hlauparar komu í mark í Laugardalnum. Hlauparar frá 58 mismunandi löndum spreyttu sig í keppninni en flestir voru frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Keppnin hefur lengi verið vinsæl enda einstök stemning að hlaupa í fallegu umhverfi Laugardalsins og nágrenni í miðnætursólinni.

Dyrfjallahlaupið, Borgarfirði eystri – 6. júlí 

Hlaupadrottningin Mari Järsk sigraði í Dyrfjallahlaupinu síðasta sumar.
Hlaupadrottningin Mari Järsk sigraði í Dyrfjallahlaupinu síðasta sumar. Skjáskot/Instagram

Dyrfjallahlaupið er sannkölluð hlaupahátíð á Borgarfirði eystri. Hún er tilvalin fyrir hlaupara sem eru að stíga sín fyrstu skref í utanvegahlaupi en boðið er upp á fjölbreyttar hlaupaleiðir – 12 km, 24 km og 50 km

Hlaupið eru m Víknaslóðir í nágrenni við Borgarfjörð eystri þar sem tignarleg ljós líparítfjöll og skriður, í bland við dökka og tignarlega basalttinda, eru hluti af fallegu náttúru svæðisins. Síðasta sumar kláruðu í heildina 255 keppendur hlaupið, þar á meðal hlaupadrottningin Mari Järsk sem sigraði í 50km hlaupinu.

Súlur Vertical, Akureyri – 2. til 4. ágúst

Hlaupahópur tilbúinn að leggja í hann frá Goðafossi.
Hlaupahópur tilbúinn að leggja í hann frá Goðafossi. Skjáskot/Instagram

Fjallahlaupið Súlur Vertical býður upp á stórbrotna upplifun fyrir ævintýraþyrsta hlaupara. Keppt í fjórum vegalengdum, 18 km, 28 km, 43 km og 100 km, á stígum sem leiða hlaupara um fallega náttúru í kringum Akureyri. 

Þetta er í annað sinn sem keppt verður í 100 km, en sú leið er með allt að 3.500 m hækkun þar sem hlaupið er frá Goðafossi og meðal annars upp bæjarfjöllin Súlur og Vaðlaheiði. Styttri vegalengdirnar fara af stað í Kjarnaskógi en öll hlaupin enda í miðbæ Akureyrar þar sem dúndrandi stemning tekur á móti fjallageitunum. Á síðasta ári kepptu 456 hlaupara í öllum vegalengdum samanlagt.

Hlaup.is

Timataka.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert