Öll fjölskyldan í sömu áhöfninni

Ísól Alda Ottesen, Friðrik Ottesen, Eva Gunnarsdóttir og Svala Sóllilja …
Ísól Alda Ottesen, Friðrik Ottesen, Eva Gunnarsdóttir og Svala Sóllilja Ottesen starfa saman hjá Play og eru í sömu fjölskyldu. Ljósmynd/Aðsend

Á fimmtudaginn fór Eva Gunnarsdóttir flugfreyja hjá Play í flug til Baltimore. Flugið var ekki eins og hver annar vinnudagur þar sem eiginmaður hennar, Friðrik Ottesen flugstjóri, flaug vélinni og dætur þeirra tvær, þær Ísól Alda Ottesen og Svala Sóllilja Ottesen, voru flugfreyjur í fluginu.

„Við eigum þessar tvær dásemdar stelpur og við erum öll hjá Play. Við mæðgurnar byrjuðum allar í fyrra,“ segir Eva um fjölskylduna sína.

Það má segja að Eva hafi alltaf verið með annan fótinn í fluginu í tengslum við starf eiginmannsins en það var í fyrra sem hún lét gamlan draum rætast. „Ég ákvað bara að slá til í fyrra og fara út fyrir þægindarammann. Ég hef verið að gera eitthvað allt annað í lífinu en að vera flugfreyja. Ég er lærður hársnyrtir og hef verið að klippa í gegnum árin og eitt og annað,“ segir Eva.

Hvernig er flugfreyjustarfið?

„Það er dásamlegt. Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert í lífinu.“

Stolt í háloftunum á mæðradaginn

Flugið til Baltimore í vikunni var ekki fyrsta flug fjölskyldunnar saman. „Við fórum í jólastopp. Við flugum öll saman um jólin,“ segir Eva en þá flug fjölskyldan til New York og varði stoppinu sínu saman í stóra eplinu. 

Eva er orðin yfirflugfreyja þannig að hún stjórnar dætrum sínum þegar hún flýgur með þeim en segir fjölskylduna auðvitað fyrst og fremst faglega í samskiptum í vinnunni. Einn besti dagurinn í vinnunni var á mæðradaginn. „Ég get eiginlega ekki lýst því, þetta var eiginlega besti dagurinn hingað til. Ég var ofboðslega stolt og þakklát fyrir að verja deginum með stelpunum í háloftunum. Þær voru svo flottar.“

Eva segir þau fá jákvæð viðbrögð þegar kemur í ljós að þau eru öll að vinna á sama vinnustaðnum. „Fólki finnst þetta rosalega skemmtilegt. Vinnufélagar okkar eru rosalega jákvæðir. Oft segist fólk vera búið að fljúga með báðum dætrum mínum og nú fái það loks að fljúga með mér eða það sé búið að fljúga með Friðriki.“

Evu finnst alltaf jafn skemmtileg í vinnunni og getur ekki gert á milli þeirra staða sem hún stoppar á. „Allir staðirnir sem við förum til hafa sinn sjarma,“ segir Eva að lokum.

Fjölskyldan var hress áður en flugvélin fór af stað til …
Fjölskyldan var hress áður en flugvélin fór af stað til Boltemore á fimmtudaginn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert