Skiptu um stefnu og lækkuðu verð

Það er mikið lagt í útlit staðarins. Árni B. Hafdal …
Það er mikið lagt í útlit staðarins. Árni B. Hafdal Bjarnason og Guðný Sif Jóhannsdóttir eigendur Fröken Selfoss og Groovís. Ljósmynd/Skjáskot

Árni B. Hafdal Bjarnason er búsettur á Selfossi og rekur veitingastaðinn Fröken Selfoss og heimsins skemmtilegustu ísbúð að hans sögn, Groovís. Hann segir nýja miðbæinn hafa gjörbreytt bænum.

„Áður en þetta kom þá var ekki neitt. Þá var einn skemmtistaður með viðburði öðru hvoru, það var enginn þar. Eitt miðbæjartún sem var og er vannýtt. Það var ekkert að frétta. Eina sem hægt var að borða voru skyndibitar en það var ekkert þessu líkt. Þetta umbylti öllu menningarlífi hérna og nú er komið gallerí, fínt kaffihús og tveir barir. Ég held að það séu tólf matsölustaðir í miðbænum,“ segir Árni sem sjálfur býr í hálfrar mínútu fjarlægð frá vinnustaðnum og líkar vel. 

Mikið lagt í Fröken Selfoss

Fröken Selfoss er íslenskur veitingastaður í hjarta miðbæjarins. Stemningin er kósí, lágstemmd og hlýleg.

„Þetta er heimilislegur staður. Hann er mjög fínn, glæsilegur en það var mikið lagt í allt útlit. Hann er mjög hlýlegur en um helgar og kvöld þá keyrum við upp stemninguna í meira fjör,“ segir Árni. Virku dagarnir eru heimilislegir að sögn Árna en staðurinn breytist aðeins um helgar.

„Þá er meiri stemning. Við erum með botnlausan bröns og botnlausar búbblur. Það er til dæmis fyrir vinkonuhópa eða fyrirtæki sem vilja gera sér glaðan dag.“ 

Íslenskur matur fyrir Íslendinga

Í upphafi var staðurinn tapas-staður en nýverið skiptu eigendur hans algjörlega um stefnu. „Það gekk ekki nógu vel en þá var þetta meiri skemmtimatsölustaður heldur en eitthvað annað. En við skiptum um stefnu fyrir tæpum þremur vikum og staðurinn virðist falla vel í kramið hjá fólki,“ segir Árni.

„Við lækkuðum verðskrána líka í leiðinni svo fólk er ekki bara að koma á þriggja mánaða fresti heldur er hægt að koma í hádeginu og fá sér góðan mat á sómasamlegu verði.“

Hann segir matinn á Fröken Selfoss vera íslenskan mat gerðan fyrir Íslendinga.

„Við verslum eins mikið og við getum við íslenska nágranna okkar hér í þessari frábæru matarkistu sem er hér. En auðvitað fylgir ferðamaðurinn með og nú erum við rétt að skríða upp úr byrjunarfasanum og túristar farnir að ganga inn, guði sé lof.“

Fara óhefðbundnar leiðir

Ísbúðin Groovís var opnuð í maí í fyrra og er heimsins skemmtilegasta ísbúð. „Þú finnur litadýrð, grúvístónlist og blöndu af ís úr vél, kandíflossi og nýsteiktum litlum kleinuhringjum,“ útskýrir Árni. 

„Þarna förum við svolítið óhefðbundnar leiðir þegar kemur að því að taka pantanir. Maður fer ekki í röð og talar við starfsmann heldur pantar maður með QR-kóða í símanum eða í tölvu á staðnum. Við sem starfsfólk erum á bak við og fáum pantanir til okkar og þurfum ekki að eyða miklum tíma í að tala við sjö manna fjölskyldu sem er að velja allt að fimm bragðarefi og tvo ísa. Svo við erum fljót að vinna úr röðinni,“ segir hann, stoltur af þessari auknu hagræðingu og tímasparnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert