„Skálanes mun alltaf hafa vinninginn þar í mínum huga“

Katla Rut Pétursdóttir nýtur lífsins fyrir austan með dætrum sínum.
Katla Rut Pétursdóttir nýtur lífsins fyrir austan með dætrum sínum. Samsett mynd

Katla Rut Pét­urs­dótt­ir, verk­efna­stjóri, listamaður og móðir, býr á Seyðis­firði ásamt dætr­um sín­um. Hún seg­ir bæ­inn vera eins og tvo bæi því að á vet­urna eru ró­leg­heit í fyr­ir­rúmi en æv­in­týr­in alls­ráðandi á sumr­in.

„Ég bý á Seyðis­firði og var alin þar upp til 16 ára ald­urs. Flutti síðan aft­ur aust­ur frá Reykja­vík fyr­ir nokkr­um árum. Hér á ég fjöl­skyldu og frænd­g­arð, vini og sam­fé­lag sem ég vil til­heyra og ala dæt­ur mín­ar upp í. Mér finnst Seyðis­fjörður vera með nett mik­il­mennsku­brjálæði á góðan hátt. Ef maður vill láta gott af sér leiða, rækta hug­mynd­ir sín­ar, styrkja tengslanet sitt yfir allt Aust­ur­land og fram­kvæma drauma sína. Þá er þetta staður­inn,“ seg­ir Katla um heima­bæ­inn sinn.

Mæðgurnar Módís Klara Kolbeinsdóttir, Sólborg Sara Kolbeinsdóttir og Katla Rut …
Mæðgurn­ar Mó­d­ís Klara Kol­beins­dótt­ir, Sól­borg Sara Kol­beins­dótt­ir og Katla Rut Pét­urs­dótt­ir njóta lífs­ins fyr­ir aust­an. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvernig er lífið dags­dag­lega?

„Takt­ur­inn í sam­fé­lag­inu er sí­breyti­leg­ur og sveifl­ast á milli árstíða. Ég er bund­in í skóla­barna­takti og þeirri rútínu sem því fylg­ir meðan aðrir sveifl­ast með ferðamanna­straumn­um og hækk­andi sól. Syst­ir mín seg­ir að það að búa á Seyðis­firði sé eins og að búa á tveim­ur stöðum og ég er henni sam­mála um það. Vet­ur­inn fær­ir okk­ur rútínu, ró og nánd í sam­fé­lag­inu, líka ein­angr­un, mallandi kvíða og æðru­leysi gagn­vart Fjarðar­heiði. Á sumr­in fyll­ist bær­inn af ferðamönn­um, skemmti­ferðaskip­um, heitri sunn­an­golu og sól, galsa og æv­in­týr­um. Ég kann að meta takt­inn sem báðir þess­ir „bæir“ hafa upp á að bjóða.

Þeir kost­ir sem ég sé í því að búa á Seyðis­firði fram yfir Reykja­vík eru að maður er stærri fisk­ur í minni tjörn, það er hægt að hafa áhrif á marga vegu í þessu sam­fé­lagi og lang­flest­ir hafa marga hatta á höfði sér inn­an þess. Boðleiðirn­ar eru styttri og auðveld­ara að fram­kvæma það sem manni dett­ur í hug og brenn­ur fyr­ir. Ann­ars er ég mikið nátt­úru­barn og ég þrífst á því að hafa nátt­úr­una allt í kring­um mig og ég sakna ekki um­ferðar­inn­ar frá Reykja­vík.“

Seyðisfjörður skartar sínu fegursta í blíðunni.
Seyðis­fjörður skart­ar sínu feg­ursta í blíðunni. Ljós­mynd/​Aðsend

Skála­nes er ótrú­lega fal­leg­ur staður

Hvernig er full­kom­inn dag­ur fyr­ir aust­an?

„Á sumr­in er það morgunkaffi­boll­inn úti á palli í sól­skini, krakk­arn­ir í sund­föt­um leik­andi sér með vatn og drullu, kött­ur­inn malandi við hliðina á mér og fugla­söng­ur allt í kring. Skóg­ar­ferð upp í Hall­ormsstaðaskóg með nesti, buslað í Lag­ar­fljót­inu, stoppað í ís á Eg­ils­stöðum, keyrt aft­ur yfir Fjarðar­heiðina, vin­irn­ir hitt­ir fyr­ir fram­an Hót­el Öldu í spjall og spil. Grillað um kvöldið út með firði annaðhvort á róm­an­tísku stefnu­móti eða í góðra vina hópi. Kveikt­ur varðeld­ur, spilað á gít­ar og sungið. Já, eða kvöld­inu eytt á góðum tón­leik­um eða menn­ing­ar­viðburði. Horft síðan á sól­ar­lagið sitj­andi á ár­bakk­an­um hjá Lón­inu, vaf­in í teppi og al­sæl með dag­inn.“

Kandíflosspartí úti á palli. Mæðgurnar eiga eigin vél.
Kandíf­losspartí úti á palli. Mæðgurn­ar eiga eig­in vél. Ljós­mynd/​Aðsend

Áttu upp­á­halds­nátt­úruperlu og af hverju?

„Skála­nes mun alltaf hafa vinn­ing­inn þar í mín­um huga, ótrú­lega fal­leg­ur staður, sem og að labba upp með foss­un­um í Vest­daln­um á Seyðis­firði. Mæli heils hug­ar með því.“

Skálanes er í miklu uppáhaldi hjá Kötlu.
Skála­nes er í miklu upp­á­haldi hjá Kötlu. Ljós­mynd/​Aðsend

Elsk­ar að borða á Aust­ur­landi

Hvar finnst þér gott að fara út að borða?

„Að borða er upp­á­haldsiðjan mín þannig að ég get auðveld­lega mælt með því að borða sig í gegn­um Aust­ur­land, skipu­leggja svo­lítið ferðalagið út frá því. Mæli með Hót­el Öld­unni, Lár­unni, Skaft­felli, Norð Aust­ur Sus­hi, Tehús­inu, Niel­sen, Sænauta­seli, Beitu­skúrn­um og Hót­el Framtíð.“

Sushi á veitingastaðnum Norð Austur.
Sus­hi á veit­ingastaðnum Norð Aust­ur. Ljós­mynd/​Aðsend
Kaffið er borið fram í mávastelli í Sænautaseli.
Kaffið er borið fram í mávastelli í Sænauta­seli. Ljós­mynd/​Aðsend

Áttu upp­á­halds­sund­laug?

„Sund­laug­in á Eskif­irði er skemmti­leg ef maður er með börn en að fara í Vök Baths er al­gjör lúx­us og mjög næs.“

Hvert ferð þú þegar þú vilt fara í úti­legu í lands­hlut­an­um?

„Ég get ekki gert upp á milli Borg­ar­fjarðar eystri og Djúpa­vogs, bæj­ar­stæðin og nátt­úr­an allt í kring á þess­um stöðum er af­skap­lega fal­leg. Bæ­irn­ir smá­ir en bjóða upp á margþætta og fjöl­breytta afþrey­ingu. Það er aug­ljóst stolt, vænt­umþykja og alúð lögð í bæj­ar­brag­inn hjá þeim sem búa þarna.“ 

En anda að þér menn­ingu?

„Ef það er eitt­hvað sem okk­ur hérna fyr­ir aust­an skort­ir ekki þá er það dríf­andi, skap­andi fólk hvaðanæva úr heim­in­um. Hér eru viðburðir, hátíðir, tón­leik­ar og list­sýn­ing­ar á hverju strái. Menn­ing­ar­stofn­an­ir eru víðs veg­ar, t.d. Tækni­m­inja­safn Aust­ur­lands, Slát­ur­húsið, Minja­safn Aust­ur­lands, Skaft­fell og Gunn­ars­stofn­un á Skriðuk­laustri. Ég mæli með því að kíkja á LungA í sum­ar, Bræðsluna, Jóns­messu­hátíð Skaft­fells, Orm­steiti eða Franska daga á Fá­skrúðsfirði.“

Austur land er þekkt fyrir blómlegt menningarlíf. Hér er Katla …
Aust­ur land er þekkt fyr­ir blóm­legt menn­ing­ar­líf. Hér er Katla við verkið sitt Dlind­lá – sólarfang­ar­ann á lista­hátíðinni List í ljósi á Seyðis­firði. Ljós­mynd/​Aðsend

Hverju hef­ur þú verið að vinna að hjá Tækni­m­inja­safn­inu og hvað er vert að skoða þar á ferðalag­inu í sum­ar?

„Eft­ir skriðuföll­in 2020 hef­ur Tækni­m­inja­safn Aust­ur­lands gengið í gegn­um mikl­ar breyt­ing­ar og hægt er að fylgj­ast með öll­um frétt­um af upp­bygg­ing­unni á tek­mus.is. Ýmis­legt hef­ur áunn­ist, m.a. nýtt varðveislu­hús­næði, ný safna­stefna, opn­un á nýrri sýn­ingu í Vélsmiðjunni, útigalle­rí og björg­un safn­kosts. Ráðstefna á sviði kvenna- og kynja­sögu var hald­in á Seyðis­firði og Eg­ils­stöðum í júní og náðu fyr­ir­lestr­arn­ir yfir ýmis viðfangs­efni og margs kon­ar rann­sókna­sjón­ar­horn. Búðar­eyr­ar­sýn­ing­in í gömlu Vélsmiðjunni er opin mánu­daga til laug­ar­daga kl. 13-17 og sýn­ing um störf kvenna í kring­um alda­mót­in verður opnuð á Lóns­leiru í útigalle­rí­inu í sum­ar. Vert er að skoða þetta allt sam­an á ferðalag­inu í sum­ar.“

Katla og dóttir hennar Módís við Sænautasel.
Katla og dótt­ir henn­ar Mó­d­ís við Sænauta­sel. Ljós­mynd/​Aðsend

Ætlar ekki að missa af sein­asta Lung­Anu

Ertu búin að skipu­leggja sum­arið þitt?

„Sum­arið mitt er hálfpl­anað og hálfópl­anað, þannig finnst mér best að lifa. Ferð til Reykja­vík­ur að hitta vini og vanda­menn, mat­ar­boð og leik­hús, norður á Mel­rakka­sléttu að tína æðard­ún og labba um í brim­inu er á döf­inni í júní. Snæ­fells­nes og kannski að sigla yfir til Aðal­vík­ur í æv­in­týra­leit, taka þátt í sein­asta Lung­Anu á Seyðis­firði í júlí og skreppa síðan til Ítal­íu áður en haustið hell­ist yfir í ág­úst.“

Katla mæl­ir með: Kon­ur

Í sum­ar opna Minja­safn Aust­ur­lands, Héraðsskjala­safn Aust­f­irðinga og Tækni­m­inja­safn Aust­ur­lands þrjár sýn­ing­ar sem sam­an bera yf­ir­skrift­ina Kon­ur. Sýn­ing­arn­ar draga hver á sinn hátt fram hlut­deild og mik­il­vægi kvenna í sögu Aust­ur­lands.

Minja­safnið nýt­ir forn­leifa­rann­sókn­ir til að draga upp mynd af hlut­skipti kvenna á fyrstu öld­um byggðar í Seyðis­firði. Héraðsskjala­safnið seg­ir sögu Mar­grét­ar Sig­fús­dótt­ur, 20. ald­ar verka­konu, kenn­ara og skálds í Fljóts­dal. Tækni­m­inja­safnið dreg­ur upp mynd af störf­um kvenna á Seyðis­firði um alda­mót­in 1900 með áherslu á reynslu­heim þeirra og fram­lag til at­vinnu­lífs­ins.

Sýn­ing­un­um er ætlað að sýna arf­leifð aust­firskra kvenna verðskuldaða virðingu og varpa ljósi á sögu þeirra frá ólík­um sjón­ar­horn­um.

Katla mælir með sýningum um sögu kvenna á Austurlandi í …
Katla mæl­ir með sýn­ing­um um sögu kvenna á Aust­ur­landi í sum­ar. Ljós­mynd/​Aðsend

 

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert