Bjuggu níu ár í tjaldi með fjölskylduna

Þóra Sólveig og Erwin reka Iceland Yurt í Eyjafirði þar …
Þóra Sólveig og Erwin reka Iceland Yurt í Eyjafirði þar sem þau búa ásamt tveimur börnum sínum. Samsett mynd

Þóra Sól­veig Berg­steins­dótt­ir og eig­inmaður henn­ar, Erw­in van der Wer­ve, bjóða ferðamönn­um að gista í svo­kölluðu Yurt eða hirðinga­tjaldi frá Mong­ól­íu á Leifs­stöðum í Eyja­fjarðarsveit en ferðaþjón­ust­una reka þau und­ir nafn­inu Ice­land Yurt. Þóra Sól­veig og Erw­in bjuggu sjálf í slíku tjaldi í sveit­inni um ára­bil en þau smíðuðu eitt tjald í Hollandi.

Þóra Sól­veig ólst upp á Leifs­stöðum en jörðin sem er á móti Kjarna­skógi aust­an meg­in í firðinum er í eigu föður henn­ar. Erw­in er hins veg­ar hol­lensk­ur en hon­um kynnt­ist Þóra Sól­veig í Lista­há­skóla Íslands þar sem þau námu mynd­list.

„Við erum bæði lista­menn, við lærðum mynd­list en efnið mitt dró mig út í gjörn­ingalist. Erw­in er aðallega að gera mál­verk en er líka að taka upp víd­eó­verk,“ seg­ir Þóra Sól­veig.

Þóra Sólveig fyrir framan hirðingatjaldið Yurt í Eyjafirðinum.
Þóra Sól­veig fyr­ir fram­an hirðinga­tjaldið Yurt í Eyjaf­irðinum. Ljós­mynd/​Aðsend

Smíðuðu eigið tjald

„Við flutt­um til Hol­lands 2004 og vor­um þar sam­an í fimm ár. Þar hitt­um við fólk sem bjó í tjaldi á hafn­ar­svæði í Amster­dam. Það vakti mikla hrifn­ingu hjá okk­ur báðum, kon­an hafði ný­lega fætt barn,“ seg­ir Þóra Sól­veig um fyrstu kynni þeirra af Mong­ól­íu­tjöld­um.

Hug­mynd­in hélt áfram að malla innra með þeim þegar þau fóru til Kína árið 2006 í sýn­ing­ar­ferð. „Við ferðuðumst um landa­mæri Tíbet í rút­um – við sáum eng­in tjöld þar en hrif­umst af menn­ing­unni,“ seg­ir Þóra Sól­veig sem lýs­ir lit­ríkri menn­ing­unni og svæðinu eins og blóm­um í eyðimörk.

Það var árið 2008 sem þau smíðuðu eigið tjald.

„Við bjugg­um í Hollandi og ég segi við mann­inn minn: Eig­um við ekki að smíða okk­ur tjald og hann seg­ir bara jú jú. Þetta kom bara allt í einu til mín. Við fund­um nám­skeið í Suður-Hollandi. Kenn­ar­inn sagðist vilja hitta okk­ur fyrst því þetta tæki lang­an tíma. Við bjugg­um á staðnum þrjá daga í viku og smíðuðum tjaldið al­veg fram á næt­ur. Það tók fjóra og hálf­an mánuð í smíði. Við feng­um sneiðar af trjám og gerðum allt frá grunni. Þetta eru vegg­ir sem er hægt að leggja sam­an eins og harmónikku og allt hand­hnýtt báðum meg­in á sam­skeyt­un­um. Þetta eru fimm vegg­ir og enda­laus­ir hnút­ar. Það eru eng­ar skrúf­ur nema í hjör­un­um á hurðunum.“

Þóra mælir með því að fólk fari út í náttúruna …
Þóra mæl­ir með því að fólk fari út í nátt­úr­una og finni friðinn sem býr innra með því. Ljós­mynd/​Aðsend

Heima

Tjöld­in eru kölluð Ger í Mong­ól­íu sem þýðir heima og eiga tjöld­in að end­ast heila mann­sævi. Ann­ars eru þau oft kölluð Yurt eða ein­fald­lega Mong­ól­íu­tjöld. „Þetta eru hirðingj­ar sem ferðast á milli staða sem ferðast með bú­fénað, þetta er mjög heill­andi menn­ing,“ seg­ir Þóra Sól­veig en sjálf hafa þau hjón­in ferðast með tjaldið í list­ræn­um til­gangi og til þess að flytj­ast bú­ferl­um.

Þóra Sól­veig seg­ir það taka tvo til fjóra klukku­tíma að setja tjaldið upp en einn klukku­tíma að taka það niður. Þau hafa sett það upp í Nor­egi þar sem þau bjuggu um skeið en líka sett það upp á stöðum eins og Land­manna­laug­um og Þórs­mörk í list­ræn­um til­gangi.

„Við flutt­um til Íslands frá Nor­egi árið 2014 og þá er ég orðin ör­yrki og búin að eign­ast tvö börn. Við vor­um þá með heim­ilið með okk­ur,“ seg­ir Þóra Sól­veig og á þá við tjaldið sem þau byggðu í Hollandi. Hún lenti í gati í kerf­inu, þar sem hún var sjúkra­skráð og óvinnu­fær að flytja milli landa, og fékk ekki bæt­ur eða tekj­ur í þrjú ár eft­ir að þau fluttu. „Við vor­um ekki búin að sjá fyr­ir okk­ur að búa með börn í tjaldi en það gekk mjög vel. Við vor­um sam­tals í níu ár í tjaldi – sjö ár í tjald­inu sem við smíðuðum og tvö ár í tjaldi sem við pöntuðum frá Hollandi,“ seg­ir Þóra Sól­veig en fyrsta tjaldið þeirra var 30 fer­metr­ar. 

Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir og eiginmaður hennar, Erwin van der Werve, …
Þóra Sól­veig Berg­steins­dótt­ir og eig­inmaður henn­ar, Erw­in van der Wer­ve, ásamt börn­un­um tveim­ur. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvað fannst fólki í kring­um ykk­ur um að þið ætluðuð að búa í tjaldi?

„Það var mis­jafnt hvað fólki fannst um það. Alla­vega leið okk­ur rosa­lega vel í tjald­inu. Mörg­um fannst það rosa­lega flott og skemmti­legt. Svo voru aðrir sem héldu að þetta væri eitt­hvert neyðarúr­ræði en það er bara mis­skiln­ing­ur. Við þurf­um ekki að búa í villu.“

Hvernig er þetta á vet­urna?

„Það er bara mjög fínt. Við erum með hita í gólf­inu og geng­ur rosa­lega vel,“ seg­ir Þóra Sól­veig en tjaldið er ein­angrað með ull.

Þóra Sól­veig og Erw­in fluttu ný­verið í bjálka­hús til þess að gefa börn­un­um sín­um sem eru að kom­ast á ung­lings­ald­ur meira rými. „Ég lifði eft­ir því að eins lengi og krakk­arn­ir yrðu ánægð í tjald­inu þá myndi ég búa í tjaldi. Þau voru al­veg enn þá ánægð en maður finn­ur að það er gott fyr­ir þau að fá sitt rými,“ seg­ir Þóra Sól­veig.

Útsýnið er frábært.
Útsýnið er frá­bært. Ljós­mynd/​Aðsend

Slök­un í nátt­úrug­ist­ingu

Í dag eru tjöld­in tvö sem Þóra Sól­veig og Erw­in út­bjuggu í gistitjöld fyr­ir ferðamenn og hafa þau hjón bætt tveim­ur til viðbót­ar við. „Við sett­um upp fjórða tjaldið í fyrra, það er nátt­úru­leg þensla, lífið gerðist. Þetta var ekki ein­hver viðskipta­hug­mynd. Okk­ur langaði að leyfa fólki að upp­lifa hvernig er að vera í tjaldi.“

Hvernig er upp­lif­un fólks?

„Hún er æðis­leg, það er í ná­inni teng­ingu við nátt­úr­una. Það er friður og ró, en það er alltaf ein­hver sem fatt­ar ekki að hann er að fara í nátt­úrug­ist­ingu.“

Þóra Sólveig býður einnig upp á slökun og tónheilun í …
Þóra Sól­veig býður einnig upp á slök­un og tón­heil­un í hand­útskornu Yurt-tjaldi í Gaia God/​dess Temple Gaia-hof­inu sínu Ljós­mynd/​Aðsend

Hvernig fólk kem­ur?

„Það er mikið af Am­er­íkön­um og Þjóðverj­um og bara af öll­um þjóðern­um, líka Íslend­ing­um. Sum­ir sækja í þetta, við vilj­um fá fólk sem vill gista hjá okk­ur en ekki af því að það er ódýrt að vera mörg sam­an í tjaldi. Okk­ar hug­sjón er að fólk njóti þess að vera í nátt­úr­unni og nái að slaka djúpt á. Það eru marg­ir sem ná góðri slök­un og finnst þetta ynd­is­legt og finnst þetta vera upp­lif­un lífs­ins að gista í tjöld­un­um.“

Þóra Sól­veig seg­ir margt eiga þátt í því að fólk nái góðri slök­un hjá þeim, Mong­ól­íu­tjöld­in eru til dæm­is hring­laga sem hún seg­ir um­vefj­andi. Það skemm­ir svo ekki fyr­ir að heyra í vind­in­um, fugla­söngn­um eða snarkið í eld­in­um. Hún mæl­ir sömu­leiðis með að leggja frá sér sím­ann og njóta fé­lags­skap­ar­ins. Þóra Sól­veig býður einnig upp á slök­un og tón­heil­un í hand­útskornu Yurt-tjaldi í Gaia God/​dess Temple Gaia-hof­inu sínu.

Þóra segir að tjöldin séu umvefjandi og fólk nái betri …
Þóra seg­ir að tjöld­in séu um­vefj­andi og fólk nái betri tengsl­um við nátt­úr­una. Ljós­mynd/​Aðsend

Hver staður ynd­is­leg­ur

Áttu upp­á­haldsstaði fyr­ir norðan?

„Hvar sem er í nátt­úr­unni. Að draga djúpt and­ann, setj­ast niður, staldra við, njóta og taka eft­ir því sem er að ger­ast í um­hverf­inu. Hvernig formin eru og hvernig þau hreyf­ast í vind­in­um og hlusta á dýr­in. Taka eft­ir smá­atriðunum. Ég elska líka að ferðast um landið og kynn­ast því á dýpri hátt. Ég er sjálf með serimon­í­ur úti í nátt­úr­unni og heiðra nátt­úr­una og fer á þá staði sem kalla á mig.

Mér finnst ynd­is­legt að vera á Hjalteyri hjá Lene Zachariessen. Ég var með gjörn­ing og sýn­ingu þar árið 2016. Mér þykir mjög vænt um Hjalteyri og fer í sjó­inn og heita pott­inn sem er þar og skoða skinn­in og hand­verkið. Svo er Verk­smiðjan með áhuga­verðar nú­tíma­sýn­ing­ar. Ég mæli með Dyngj­unni-list­húsi með eig­in lit­un og fram­leiðslu á vefnaði, hun­angi og öðru.

Fyr­ir ferðamenn myndi ég mæla með að fara á Goðafoss en það er nátt­úru­lega troðið á sumr­in þegar það eru rút­ur og skemmti­ferðaskip. Goðafoss er líka mjög magnaður foss. Hann eru orku­mik­ill og fal­leg­ur og það eru orku­ver­ur í lands­lag­inu,“ seg­ir Þóra Sól­veig.

Þóra Sólveig með helgiathöfn á hálendinu.
Þóra Sól­veig með helgi­at­höfn á há­lend­inu. Thora Sol­veig Berg­steins­dott­ir
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert