„Mér þykir ofsalega vænt um Húsavík og Norðurlandið“

Birgitta Haukdal ólst upp á Húsavík.
Birgitta Haukdal ólst upp á Húsavík. mbl.is/Arnþór

Birgitta Haukdal tónlistarkona og rithöfundur er alin upp á Húsavík. Hún fer reglulega norður en í sumar ætlar hún ekki að missa af bæjarhátíðinni Mærudögum.

Hvernig var að alast upp á Húsavík?

„Ég á mikið af fallegum minningum frá Húsavík og nágrenni. Húsavík er yndislegur staður til að alast upp á. Mikið frelsi fyrir börn, gott íþrótta- og tónlistarstarf og stutt í náttúruna sem mér þótti dásamlegt sem barni.“

Ertu dugleg að kíkja norður og hvað gerir þú þá?

„Við kíkjum mikið norður fjölskyldan. Maðurinn minn er mikið í veiði og fer norður á rjúpu, gæs og í laxveiði. Þá fylgjum við fjölskyldan oft með og tökum helgarferðir í snjóinn. Við förum líka oft á skíði á Akureyri og þá gistum við á Húsavík þar sem það er orðið svo þægilegt að keyra á milli eftir að göngin komu. Annars finnst okkur geggjað að fara til Húsavíkur á sumrin og er bæjarhátíðin Mærudagar í sérstöku uppáhaldi.“

Birgitta ætlar ekki að missa af Mærudögum en þá er …
Birgitta ætlar ekki að missa af Mærudögum en þá er bærinn vel skreyttur. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Hvar er nauðsynlegt að stoppa á leiðinni norður og hvað hlustar þú á í bílnum?

„Það er mjög misjafnt á hvað er hlustað í bílnum á leiðinni. Stundum skiptumst við á að velja lög eða plötur til að hlusta á og stundum erum við ekkert að hlusta á heldur bara að njóta þess að keyra saman og spjalla um umhverfið, lífið og tilveruna. Við stoppum oft í Geirabakaríi í Borgarnesi og náum okkur í góðan kaffibolla og nýbakaða ástarpunga og svo er vinsælt að taka pissustopp og kannski kjötsúpu í Staðarskála.“

Hvernig horfir þú á heimahagana sem fullorðin manneskja?

„Mér þykir ofsalega vænt um Húsavík og Norðurlandið og finnst ég alltaf komin heim þegar ég renni fram hjá sláturhúsinu og inn í bæinn.“

Áttu uppáhaldsnáttúruperlu á Norðurlandi?

„Ég hef tengst sérstökum böndum við Hljóðakletta frá því ég var barn. Þangað fórum við fjölskyldan mikið í útilegur um helgar og gengum mikið þar um. Það er einhver sérstök orka í Hljóðaklettum. Orkan í þessari stóru og hættulegu á sem dansar í kringum klettana er mögnuð og gangan í birkinu meðfram klettunum stórkostleg. Svo er mikilvægt að setjast með nesti í laut og anda að sér ferska loftinu. Ég fer þangað reglulega í dag.“

Birgitta heldur mikið upp á Hljóðakletta.
Birgitta heldur mikið upp á Hljóðakletta. mbl.is/Sigurður Bogi

Hvernig er fullkominn dagur á Húsavík?

„Að vakna á undan öllum og fá sér góðan kaffibolla og horfa út á Kinnarfjöllin. Kíkja svo niður í bakarí og grípa með sér nýbakað brauð og jafnvel kleinuhring eða karamelluköku og vekja svo fjölskylduna með ilmi af góðum morgunmat. Þar næst klæðum við okkur eftir veðri og göngum göngustíginn sem er meðfram Húsavíkurfjalli með útsýni yfir bæinn á milli fallegra grenitrjáa sem þekja fjallshlíðina. Eftir gönguna græjum við sunddót og förum annaðhvort í sundlaugina, sem er ofsalega vel heppnuð og skemmtileg fyrir börn, eða tökum slökun í sjóböðunum, sem er alveg dásamlegt, hvort sem farið er að degi til eða að kvöldi rétt fyrir svefn. Eftir sundferð er farið upp í hús og vöfflur og heitt kakó græjað og jafnvel góðum vinum boðið í kaffi. Um kvöldmatarleytið er gaman að labba niður í bæ og grípa sér bita við höfnina á Gamla bauk, Sölku eða fá sér góðan fisk á Naustinu. Ef veður er sérstaklega gott þá er vinsælt að kveikja eld bak við hús og grilla sykurpúða fyrir háttinn.“

Hvað ætlar þú að gera skemmtilegt í sumar?

„Í sumar er stefnan tekin á hjólaferð til Króatíu og svo ætlum við fjölskyldan að ferðast um landið, veiða og vonandi fara í útilegu eða tvær. Kíkjum auðvitað til Húsavíkur um Mærudagana og hittum vini og fjölskyldu.“

Bærinn skartar sínu fegursta í sumarblíðunni.
Bærinn skartar sínu fegursta í sumarblíðunni. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert