Hvernig gerir maður hitabylgjurnar bærilegri?

Það eru ekki allir sem þola mikinn hita og þurfa …
Það eru ekki allir sem þola mikinn hita og þurfa að gera ráðstafanir. AFP

Búist er við hitabylgjum víðs vegar um Evrópu í sumar. Mikill hiti getur verið varhugaverður og haft áhrif á vellíðan fólks í fríinu. Ferðavefur The Times tók saman nokkur góð ráð um hvernig sleppa megi lifandi frá óbærilegum sumarhita.

„Maður á að klæðast léttum fötum, vera með sólarvörn og hatt og halda sér innandyra ef manni fer að svima,“ segir í umfjöllun The Times.

Draga fyrir og ekki opna glugga

„Það er gott ráð að draga fyrir öll gluggatjöld og gardínur yfir daginn. Mörgum hættir til að hugsa að maður hleypi köldu lofti inn ef maður opnar gluggana. Það á hins vegar ekki við ef mikill hiti er úti. Þá gæti maður verið að hleypa hitanum inn. Maður ætti því að forðast það að opna gluggana.“ 

„Passið upp á að það sé loftkæling á hótelherberginu og leitið uppi staði sem eru með loftkælingu. Verið einnig sem mest í skugga.“

Ekki líkamsrækt þegar sólin er hæst á lofti

„Þá er gott ráð að reyna sem minnst á sig í hitanum. Ekki fara í krefjandi göngur eða stunda líkamsrækt á meðan sólin er hæst á lofti. Eins er gott að halda áfengisneyslu í lágmarki því annars er hætt við ofþornun líkamans.“

„Í mörgum löndum tíðkast að nýta morgnana og kvöldin vel því þá er hitinn bærilegastur. Um miðbik dags er hitinn afar mikill og sólin sterk og þá er tilvalið að leita skjóls og hvíla sig. Ekki vera mikið á flakki þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert