Á dögunum birtist stórbrotið drónaskot frá grunnbúðum upp á tind Everest á Youtube-rás drónaframleiðandans DJI. Myndbandið hefur vakið mikla lukku og þegar fengið yfir 1,6 milljón áhorf.
Í myndskeiðinu ferðast áhorfendur með drónanum upp fjallið og fá að upplifa klifurleiðina upp á tind frá ótrúlegu sjónarhorni.
Everest er hæsta fjall í heimi og dreymir marga fjallagarpa um að klífa fjallið sem liggur á landamærum Nepals og Tíbets. Það er þó mikil áskorun að klífa fjallið og hafa yfir 340 manns látist á fjallinu frá því fyrstu ferðalögin hófust í kringum 1920.
Fyrstu mennirnir sem toppuðu Everest voru þeir Tenzing Norgay og Edmund Hillary, en þeir komust upp á topp fjallsins þann 29. maí 1953. Síðan þá hafa fjölmargir reynt við fjallið, en í desember 2023 höfðu 6.664 fjallagarpar toppað Everest, og sumir þeirra oftar en einu sinni.
Myndbandið er aðeins rúmlega fjórar mínútur að lengd, en það tók drónann um 43 mínútur að fljúga 29.000 fet, eða rúma 8,3 kílómetra, upp á tind Everest. Sjónarspilið er hreint út sagt magnað og veitir einstaka innsýn í leiðina sem liggur upp fjallið.
„Æðislegt, þetta sparaði mér þúsundir dollara og margra mánaða þjálfun til að klífa Everest! Núna get ég formlega merkt við það á laupalistanum (e. bucket list) mínum,“ skrifaði einn notandi við myndbandið.
„Loksins ... í fyrsta skiptið er eiginlega klifurleiðin frá Grunnbúðunum í heild sinni sýnd. Ég hef séð svo margar heimildarmyndir, myndbönd og myndir en ekkert þessu líkt,“ skrifaði annar.
Af ummælum að dæma virtust notendur yfir sig hrifnir af framtakinu og hrósuðu fyrirtækinu í hástert fyrir að gera fleirum kleift að sjá leiðina upp Everest.