Það eru margir á faraldsfæti um þessar mundir og þá er gott að kunna að pakka almennilega í töskur. Sérstaklega þegar ferðinni er heitið erlendis. Condé Nast Traveller tók saman fern mistök sem er gott að forðast.
Það skiptir máli að skipuleggja sig vel þegar pakkað er niður í ferðatöskur. Það er til dæmis hægt að kaupa sérstök hólf til þess að setja í töskur og aðgreina þar með nærföt, óhrein föt og skó. Með því að pakka skipulega má koma fleiri hlutum ofan í litla tösku.
Það kemur fyrir að ferðatöskur týnast og þá er gott að vera með lás eða jafnvel staðsetningartæki á töskunni.
Ekki bara kasta einhverju ofan í töskuna kvöldið áður en þú ferð í flug. Það vill enginn þurfa að borga aukagjald af því að taskan er of þung. Eins og áður sagði er gott að skipuleggja sig vel auk þess er hægt að vigta töskuna heima.
Það er gott að vera tilbúin með tæki og vökva í sérstöku hólfi utan á töskunni. Þetta kemur í veg fyrir að þú þurfir að opna töskuna og róta í henni í öryggisröðinni.