Halldór Óli Kjartansson, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands, segir óþrjótandi möguleika í boði þegar kemur að góðri ferð um Norðurland. Að blanda saman sögu og náttúru er oft lykillinn að góðu ferðalagi
Halldór hefur búið á Akureyri í tæp 20 ár. Hann flutti norður í skóla og hefur ekki flutt aftur enda kann hann einstaklega vel við sig fyrir norðan. „Fljótlega eftir að minni formlegu skólagöngu lauk fór ég að starfa í skemmtanabransanum og leiddist svo út í ferðaþjónustu sem er líka skemmtileg. Ég er búinn að starfa hér hjá markaðsstofu Norðurlands síðan 2012. Að hitta fólk og ferðast um landið er lykillinn að minni hamingju,“ segir Halldór.
Saknar þú ekkert Reykjavíkur?
„Reykjavík er fín en ég á heima hérna og finnst það æðislegt. Það er líka alltaf svo gott veður hérna. Svo er líka veðrið yfir vetrartímann frábært. Það sem gerir okkur einstök er að það er snjór á veturna sem dæmi. Það sem líka heldur í mann er öll sú afþreying sem er hægt að stunda yfir veturinn en hún er ómetanleg, hvort sem það er að fara á skíði í öllu sínum formum eða annað,“ segir Halldór. Hann telur upp hinar ýmsu skíðategundir og minnist einnig á sleðaferðir, snjóþrúgugöngur eða sleðahundaferðir sem hann segir einstaka upplifun.
Halldór mælir með ferð fyrir meðalfjölskyldu þar sem hann blandar saman bæði útiveru og menningu.
„Mér finnst mikilvægt að velja ekki bara einn áfangastað. Það eru frábær gistiheimili út um allt og mér finnst frábært að finna sveitagistingu þar sem ég kemst með börnin mín út í náttúruna og get upplifað einhverskonar menningu. Ef ég væri að fara norður myndi ég byrja á að stoppa á Hvammstanga, ég myndi byrja á að leita að selum – mér finnst það alltaf skemmtilegt. Fara fyrir Vatnsnes, það er frábært og þú þarft ekki að keyra lengi ef þú býrð í Reykjavík. Ég myndi taka fyrsta daginn þar og ef þú vilt aðeins meiri lúxus þá er gaman að gista á Laugarbakka. Það er eitt sverð sem stendur upp úr jörðinni á Laugarbakka og er gaman að sýna börnunum en það tengist víkingum og Grettissögu,“ segir Halldór.
„Það sem er í uppáhaldi hjá mér núna er að kíkja á Þrístapa í Vatnsdal en inni í Vatnsdal eru svo margir hólar að þú getur ekki talið þá. Það er búið að setja stiga upp á einn hól. Þar sérðu yfir alla hólana. Það er einföld skemmtileg afþreying sem gefur þér nýja sýn á umhverfið. Hinum megin við veginn getur þú stoppað á skemmtilegum áningarstað þar sem fjallað er um síðustu aftökuna á Íslandi og líka farið yfir aftökur í heiminum,“ segir Halldór en Hannah Kent skrifaði bókina Náðarstund við miklar vinsældir út frá sögunni um síðustu aftökuna.
„Svo er líka rosalega gaman að kíkja inn í Skagafjörð og til dæmis fara í Kaupfélagið og kaupa sér það sem mann vantar. Það er allt til þar, það er alltaf mjög skemmtilegt. Ef fólk vill fara í smá ævintýri er gaman að skella sér út í Drangey.“
Baðlónum hefur fjölgað mikið og eru þau í miklu uppáhaldi hjá Halldóri og fjölskyldu.
„Böðin eru alltaf að verða sterkari og sterkari. Ég fór alltaf í sund sem krakki en eftir að börnin mín urðu aðeins eldri höfum við reynt að prófa öll böð á landinu saman, hvort sem það heitir Bláa lónið eða Skógarböð. Ég mæli með því að leyfa börnunum að prófa þau. Þetta kostar vissulega eitthvað aðeins en þetta er ekki dýr afþreying miðað við margt sem er hægt að kaupa. Þetta er alltaf eitthvað sem passar svo vel inn í ferðalagið og er alltaf opið lengi. Að enda daginn í góðu baði. Börnin mín merkja það að þegar við förum til Húsavíkur þá er svo gaman að finna saltbragðið af vatninu. Svo fara þau í Jarðböðin á Mývatni og þá er gaman að stinga höfðinu ofan í og láta sig hverfa. Svo búum við á Akureyri þannig að það er ofsalega gaman að fara í Skógarböðin og sérstaklega í júní þegar við erum með miðnætursólina. Fólk fær kannski nýja sýn á Akureyri.“
Halldór segir ágætt að gefa sér um tvo daga til að koma sér norður á Akureyri sé miðað við að höfuðborgarsvæðið sé byrjunarreiturinn. Það er síðan fjölmargt hægt að gera þegar á Akureyri er komið og gera út frá höfuðstað norðursins. Hann mælir með Jólahúsinu og Hælinu sem er setur um sögu berklanna. Hann mælir með sundi í Hrafnagili og fyrir hjólareiðafólk mælir hann með því að hjóla Eyjafjarðarhringinn. Fyrir fjallahjólafólk er hægt að hjóla í Hlíðarfjalli og Kjarnaskógi og nýta lyfturnar í fjallinu.
„Það hafa ekki öll farið á sjó og við erum þekkt fyrir það á okkar svæði bæði í Eyjafirði og á Skjálfanda. Það eru fjölmörg fyrirtæki sem bjóða upp á ferðir bæði í hvalaskoðun og sjóstöng og fyrir þá sem vilja heimsækja eyju þá eru samgöngur til Hríseyjar frábærar. Þar er gott að borða og gott að fara í sund og sjósund.
Eitt sem Halldór gerir þegar hann fer í ferðalag er að skoða hvaða hátíðir eru í gangi. Hann segir flestar bæjarhátíðir fjölskyldumiðaðar og því getur verið sniðugt að nýta slík tækifæri til að upplifa eitthvað meira.
Að fara beina leið er ekki alltaf rétta leiðin. „Til dæmis ef þú ert að keyra hringinn þá mæli ég með því að keyra eftir strandlengjunni, það er líka gaman að gera það fyrir vestan, í staðinn fyrir að taka þjóðveg 1. Þá er maður með útsýnið og með aðra sýn á landið. Þegar þú ferð austur fyrir sléttu og heimskautsgerðið á Raufarhöfn. Það er stopp sem mörg tengja við. Þetta minnir eitthvað á Star Wars.“
Það er mikið um stórfenglega staði á Norðurlandi eins og Dettifoss en Halldór segir vinum sínum að það sé ógleymanlegt að berja Dettifoss augum.
„Þetta er upplifun sem þú gleymir ekki, þetta er aflmesti foss í Evrópu. Þú ert smástund að ganga að honum. Margir fossar eru aðgengilegir, sem er gott, en þú sérð Dettifoss ekki strax. Það er búið að byggja nokkra palla á mismunandi hæðum svo þú kemst nálægt fossinum og krökkum finnst gaman að heyra drunurnar og fara nálægt í öruggu umhverfi og verða blaut og finna fyrir náttúruöflunum.
Þá getur þú farið í Ásbyrgi og þá er gaman að labba inn í botn og heyra bergmálið. Svo er Mývatnssveitin frábær eins og kannski flest þekkja. Ef maður vill gera vel við sig eins og til dæmis að fara í fjórhjólaferð þá eru til rosalega skemmtilega ferðir. Þetta eru ekki þessar ævintýraferðir, þetta eru ferðir til þess að komast á staði sem þú vissir ekki af. Þær eru með leiðsögn heimafólks. Þetta er ekki jaðarsport heldur ferðir sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í,“ segir Halldór.