Dagný Pétursdóttir fjallahjólari segir hjólreiðar ekki bara vera heilsueflandi fyrir líkamann þar sem útiveran gefur henni líka mikið. Hún hefur hjólað víða um Vesturland og er um þessar mundir, ásamt Einkunnanefnd og HjólaVest, að byggja upp útivistarsvæðið Einkunnir í Borgarfirðinum.
„Ég hjólaði rosalega mikið sem krakki og fannst það alltaf skemmtilegt. Ég hef alla tíð verið mikið tengd útiveru og náttúrunni og mér leið alltaf vel utandyra og helst ef ég komst út í náttúruna. Á unglingsaldri hætti ég alveg að hjóla eða þangað til ég var búin að eiga börnin mín,“ segir Dagný og bætir við:
„Svo má bara segja að hjólreiðarnar hafi fundið mig aftur því eftir mikið heilsuleysi, sem tengdist langvarandi svefnleysi og allskyns „sjúkdómsgreiningum“, þá gerðist tvennt. Árið 2017 byrjaði ég að taka steinefni að staðaldri og ég eignaðist fulldempað fjallahjól. Þá varð bara ekki aftur snúið.“
Kostirnir við hjólreiðarnar eru fjölmargir.
„Það sem ég elska við hjólreiðar sem heilsueflingu er það hversu mjúkum höndum þær fara um líkamann. Ég var orðin það léleg að ég gat ekki lyft lóðum né farið í fjallgöngur, sem mér fannst miður. En ég var með sterk læri og neðri hluta þannig að hjólreiðar henta mér mjög vel og styrkja þar að auki þessa viðkvæmu liði okkar, hné og mjaðmir.
Síðast en ekki síst fékk ég að vera úti í náttúrunni ein með sjálfri mér sem var algjörlega mín besta leið til þess að næra taugakerfið mitt og þannig byrjaði heilsan smám saman að koma til baka,“ segir Dagný.
Hvar finnst mér skemmtilegast að hjóla?
„Á heiðum, múlum og fellum einhvers staðar þar sem ég þarf að klifra vel upp, bruna jafnsléttuna og svo bruna niður. Staður skiptir ekki máli og mér finnst alltaf gaman.“
Blaðamaður spyr hvort Dagný hafi byrjað nýtt hjólaæði í Borgarfirðinum en hún vill ekki kannast við það. „Það væri gaman að fá fleiri í hópnum og þá sérstaklega í fjallahjólreiðunum því Borgarfjörðurinn hefur mikið upp á að bjóða þar. En það fylgjast margir með manni sem er ótrúlega skemmtilegt,“ segir Dagný.
Getur þú mælt með skemmtilegum stöðum til þess að hjóla um á Vesturlandi?
„Það eru svo óteljandi fallegir staðir á Vesturlandi og hver hefur sinn sjarma. Stundum er það auðnin og endalaus flatneskja, stundum er það skógur og stundum fjara, en ég fer oftast Skarðsheiðina – sem er reyndar línuvegur við enda hennar. Svo finnst mér Jafnaskarðið, Svartagil og Grjótháls skemmtileg. Lundarreykjadalur, Skorradalur, Draghálsinn og svo er Jökulhálsinn á Snæfellsnesi skemmtilegur. Svo hef ég farið flestar heiðar sem tilheyra Vestfjörðum og leiðin upp Unaðsdalinn á Snæfjallaströnd og að Jökulfjörðum var ólýsanleg.
Fegurðin við það að vera á fjöllum er ekki endilega einhver vá-upplifun heldur bara nálægðin við móður Jörð, drekka úr líparítám og leggjast á milli þúfna. Ég held að margir geti tengt við það.“
Hver er erfiðasta hjólaferð sem þú hefur farið í?
Erfiðasta ferðin er held held ég alltaf sú ferð sem þú ert í hverju sinni því eins og ég segi oft: „Hversu oft sem þú hefur farið verður leiðin aldrei auðveldari, þú ferð bara hraðar.“ Stundum er stutta jafnsléttuleiðin sú erfiðasta. Svo er dagsformið okkar svo svakalega misjafnt og þá sérstaklega hjá okkur konum, stundum er ég bara óstöðvandi og get farið endalaust og stundum bara ekki eins mikið með þetta og þá bara er það þannig. Aðalmálið er að hafa gaman.“
Hvernig finnst þér best að láta líða úr þér eftir góða hjólatúr?
„Ég elska ef ég get lagt við náttúrulaug og hjólað þaðan og farið langt, endað svo í lauginni áður en ég keyri í sólsetrinu heim. Það jafnast einhvern veginn ekkert á við það. Oftast verður Krosslaug í Lundarreykjadal fyrir valinu þar.“
Dagný sinnir uppbyggingu á fólkvangi og útivistarsvæði sem heitir Einkunnir rétt norðan við Borgarnes.
„Ég hef mikið verið að hjóla þar upp frá og svo vorum við í Hjólreiðafélagi Vesturlands með ungmennanámskeið og kynningar þar upp frá og erum að opna á hjólaleiðir inni í skóginum. Svo sit ég í Einkunnanefnd og hef verið með gæluverkefni í gangi sem fellur að slökunar- og kyrrðarupplifunum. Ég er með verk í vinnslu þar sem kominn er kyrrðarlundur þar sem eru hengirúm og belgur og fleiri hengirúm koma fljótlega. Einnig verða settir upp hengistólar sem vísa til vesturs svo hægt sé að horfa á sólina setjast í algjörri núvitund. Stigar og rólur munu verða sett upp ásamt náttúruhljóðfæri. Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni og sé ég þetta sem frábæra leið til þess að fá fólk til þess að staldra við, njóta og anda inn í daginn og það er ekkert betra en að gera það úti í náttúrunni.“
Dagný hjólar árlega á milli Skessuhorns og Hafnarfjalls og Tungukolls og dalsins þar á milli.
„Þessi leið er mín uppáhalds og ég fer hana oft, í byrjun ertu á línuvegi að klifra upp í um 500 metra hæð, svo fer gleðin að taka við og haldið er áfram þar til farið er niður að líparítá. Svo liggur leiðin áfram upp og þá breytist undirlendið í meiri drullu og stórgrýti og farið er af línuveginum og yfir á mjóa reiðgötu. Þaðan liggur leiðin svo í niðurbunu sem er ótrúlega skemmtileg. Við fylgjum svo jaðri Hafnarfjalls að sumarbúðunum í Ölveri og ef ég hef tíma tek ég hringinn.
Ég hef farið árlega þarna yfir með opna ferð í byrjun júní og hefur fullt af fólki alls staðar að komið með sem er ótrúlega skemmtilegt og þessi leið kemur fólki oft á óvart. En í ár fórum við 22. júní og settum inn pöntun á gleðiveður. Þetta verkefni þykir mér mjög vænt um og verður þetta ef ég tel rétt sjöunda skiptið okkar. Fyrir mig að fara þessa leið sem og aðrar er algjör lífæð og verð ég alveg friðlaus ef ég kemst ekki í langan tíma.“
Dagný segir fjallahjólreiðarnar vera svo miklu meira en hreyfingu. „Þær eru algjör grunnur að minni vellíðan. Mér finnst ótrúlega gaman að deila þessu sporti með 10 ára syni mínum og ég elska að hjóla með ungmennum. Svo nærandi samvera.“