Valdi Patreksfjörð fram yfir Kanarí

Gunnþórunn á þrjú börn, sinnir krefjandi starfi auk þess sem …
Gunnþórunn á þrjú börn, sinnir krefjandi starfi auk þess sem hún tekur að sér hin ýmsu verkefni. Ljósmynd/Aðsend

Gunnþór­unn Bend­er, fram­kvæmda­stjóri West­fjords Advent­ur­es, hef­ur í nógu að snú­ast á Pat­reks­firði. Eft­ir nokk­ur ár á flakki sett­ist hún að á Pat­reks­firði og hef­ur með góðum hópi fólks rifið ferðaþjón­ust­una upp á svæðinu.

„Ég kom fyrst til Pat­reks­fjarðar haustið 2008 en þá var ég alls ekki á þeim bux­un­um að setj­ast hér að. Ég hafði varið síðasta ára­tugn­um í að ferðast um heim­inn, fyrst á Spáni og Englandi og síðar sem far­ar­stjóri sem flakkaði á milli staða. Í nokk­ur ár varði ég sumr­inu á Spáni, haust­inu í Mið- og Aust­ur-Evr­ópu og vetr­in­um í Karíbahaf­inu. Ég kom fyrst til Pat­reks­fjarðar um það leyti sem Geir H. Haar­de bað Guð að blessa Ísland og bank­arn­ir hrundu. Á þeim tíma var ég búin að ráða mig til eyj­ar­inn­ar Barbados fyr­ir vet­ur­inn. Vegna hruns­ins þurfti ferðaskrif­stof­an að breyta vetr­aráformun­um og valdi ég Pat­reks­fjörð fram yfir Gran Can­ari­as enda hafði maður­inn minn náð ein­hverju tang­ar­haldi á mér.“

Gunnþór­unn hef­ur í nógu að snú­ast fyr­ir vest­an og er lífið allt annað en ró­legt hjá henni.

„Marg­ur tel­ur að það ríki mik­il ró­leg­heit hjá fólki sem býr úti á landi en svo er ekki alltaf. Í litl­um bæj­um úti á landi ber fólk iðulega marga hatta. Það þarf að manna hinar ýmsu stjórn­ir, nefnd­ir og ráð og færra fólk er um hverja stöðu. Eins og er sinni ég starfi mínu hjá West­fjords Advent­ur­es, rek gisti­heim­ilið Páls­hús, sit í bæj­ar­stjórn í sam­einuðu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarðar­hrepps og Vest­ur­byggðar, sit í stjórn sókn­ar­nefnd­ar Pat­reks­fjarðar­kirkju og er einnig í stjórn Héraðssam­bands Hrafna-Flóka svo eitt­hvað sé nefnt. Einnig á ég þrjú börn sem eru á aldr­in­um tveggja til 13 ára svo það er nóg að gera í dag­legu lífi fyr­ir vest­an. Maður­inn minn rek­ur svo Bíla­verk­stæðið Smur og dekk á Pat­reks­firði og svo tök­um við þátt í strand­veiðigleðinni á sumr­in með April BA25.“

Gunnþórunn Bender vinnur við að bjóða upp á ævintýraferðir á …
Gunnþór­unn Bend­er vinn­ur við að bjóða upp á æv­in­týra­ferðir á Vest­fjörðum. Ljós­mynd/​Aðsend

Eru vak­in og sof­in yfir rekstr­in­um

Gunnþór­unn seg­ir að þegar hún kom fyrst til Pat­reks­fjarðar hafi verið lít­il afþrey­ing fyr­ir ferðamenn á svæðinu.

„Harðdug­leg hjón og frum­kvöðlar héldu úti safni um frönsku sjó­menn­ina við Íslands­strend­ur og fóru með ferðamenn á sjó­stöng við og við. Lítið annað var í boði. Ég og tveir aðrir tók­um okk­ur til og stofnuðum ferðaskrif­stof­una West­fjords Advent­ur­es. Að reka ferðaskrif­stofu þar sem há­anna­tím­inn er fjór­ir mánuðir á ári er ekki alltaf auðvelt. Það er ekki gert nema með því að tína all­ar brauðmylsn­ur sem fyr­ir­finn­ast og vera vak­inn og sof­inn yfir rekstr­in­um. Í dag bjóðum við upp á fjöl­breytta afþrey­ingu og þjón­ustu. Við bjóðum upp á jeppa­ferðir, rútu­ferðir, göngu­ferðir, hjóla­ferðir og kaj­ak­ferðir. Á sumr­in höld­um við úti áætl­unar­akstri á milli Pat­reks­fjarðar, Brjáns­lækj­ar og Ísa­fjarðar í tengsl­um við ferj­una Bald­ur. Við erum með upp­lýs­inga­miðstöð á Pat­reks­firði ásamt lít­illi minja­gripa­versl­un, einnig sjá­um við um tjaldsvæðið á Pat­reks­firði fyr­ir sveit­ar­fé­lagið ásamt því að vera umboðsaðili fyr­ir Bíla­leigu Ak­ur­eyr­ar/​Europcar. Yfir vetr­ar­tím­ann „dund­um“ við okk­ur við að setja sam­an pakka­ferðir um all­an heim fyr­ir hópa af svæðinu svo sem fyr­ir­tæki, íþrótta­fé­lög, sauma­klúbba og fleiri. Við höf­um boðið upp á ferðir til Kúbu, Spán­ar, Ítal­íu, Portúgal, Svíþjóðar, Pól­lands, Mar­okkó, Eng­lands og fleiri staða.

Árið 2013 var tek­in sú ákvörðun að markaðssetja höfn­ina á Pat­reks­firði sem viðkomu­stað skemmti­ferðaskipa. Í ár eig­um við von á 30 skemmti­ferðaskip­um en West­fjords Advent­ur­es hef­ur sinnt þess­um kom­um og boðið skipaf­arþegum upp á fjöl­breytt­ar ferðir um svæðið.

Í dag stend­ur til að marka stefnu um kom­ur skemmti­ferðaskipa til Pat­reks­fjarðar, meðal ann­ars til þess að tryggja sátt og sam­lyndi heima­manna og þeirra ferðamanna sem heim­sækja okk­ur með skemmti­ferðaskip­um. Þeir sem koma að mál­inu virðast vera sam­mála um mik­il­vægi þess að tak­marka fjölda farþega í landi hvern dag fyr­ir sig og fögn­um við því heils­hug­ar. Við meg­um ekki fara yfir þol­mörk ferðamannastaða en eins og all­ir vita get­ur það haft gríðarlega slæm­ar af­leiðing­ar. Það skipt­ir mestu máli að íbú­ar séu sátt­ir við kom­ur ferðamanna og það skipt­ir líka máli að þeim gest­um sem koma sé vel sinnt. Fólk þarf að geta valið á milli nokk­urra áhuga­verðra skoðun­ar­ferða eða ef það kýs, að geta rölt um bæ­inn og sest niður á kaffi­húsi. Við vilj­um geta þjónað skipaf­arþeg­un­um vel, boðið upp á úr­val spenn­andi ferða og gert það að verk­um að þeirra upp­lif­un af svæðinu sé góð. Það skipt­ir líka máli að upp­lif­un þeirra ferðamanna sem koma ak­andi inn á svæðið breyt­ist ekki vegna þess að það sé skip í landi. Ferðaskrif­stof­an sinn­ir mik­il­vægu hlut­verki í að dreifa þeim farþegum sem koma í land svo að ekki mynd­ist ör­tröð á áfanga­stöðum og perl­um svæðis­ins. Það er hægt að gera með því að senda rút­urn­ar ekki all­ar af stað á sama tíma eða á sama stað. Þetta er mik­ill ábyrgðar­hlut­ur og sér í lagi til þess að sporna við því að þol­mörk­um sé náð á okk­ar dýr­mætu áfanga­stöðum.“

Fegurðin á Vestfjörðum er mikil og er gaman að ferðast …
Feg­urðin á Vest­fjörðum er mik­il og er gam­an að ferðast um svæðið.

Hvernig er að starfa í ferðaþjón­ustu?

„Það er ótrú­lega spenn­andi að starfa í ferðaþjón­ustu, starfið er fjöl­breytt, krefj­andi og skemmti­legt. Við erum að þjón­usta fólk sem kem­ur alls staðar að og frá ólík­um menn­ing­ar­heim­um. Það koma upp alls kon­ar áskor­an­ir en við leggj­um okk­ur fram við að gera vel og reyna að auka fjöl­breytn­ina ár frá ári. Þegar kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn skall á tók­um við okk­ur til og hóf­um að bjóða upp róðrar­bretta- og kaj­a­k­leigu en í ár erum við að þróa raf­magns­hjóla­ferðir og verður ein þeirra um Kjarans­braut­ina, eða fyr­ir Slétta­nesið sem er ótrú­lega spenn­andi og fal­leg leið. Það er kannski ókost­ur­inn við starfið að maður fær ekk­ert sum­ar­frí en í staðinn reyn­ir maður að skipu­leggja sum­ar­fríið sitt yfir vetr­ar­tím­ann.“

Gunnþórunn og félagar bjóða meðal annars upp á að leigja …
Gunnþór­unn og fé­lag­ar bjóða meðal ann­ars upp á að leigja róðrar­bretti. Ljós­mynd/​Aðsend

Ófáar nátt­úruperl­ur á sunn­an­verðum Vest­fjörðum

Hvert ferð þú helst þegar þú vilt skella þér í stutt ferðalag?

„Þar sem það er mikið ann­ríki á sumr­in þá get­um við ekki ferðast mikið út fyr­ir svæðið að und­an­skildu einu og einu fót­bolta­móti eða ætt­ar­móti. Hins veg­ar eig­um við sum­ar­bú­stað í ein­göngu 20 mín­útna akst­urs­fjar­lægð frá Pat­reks­firði og það er al­deil­is hægt að njóta út frá þeim stað. Barðaströnd­in og Vatns­fjörður­inn er al­gjör nátt­úruperla og er þetta draumastaður­inn fyr­ir göngugarpa. Það ligg­ur dá­sam­leg göngu­leið frá Barðaströnd og yfir á Rauðasand og er þessi leið óviðjafn­an­leg á góðum dög­um. Einnig eru frá­bær­ar nátt­úru­laug­ar á svæðinu og má þar nefna Hellu­laug og Laug­ar­nes­laug við Birki­mel. Við erum með fal­leg­ar hvít­ar sand­strend­ur allt í kring þar sem verja má góðum tíma með börn­un­um.“

Átt þú upp­á­halds­nátt­úruperlu á svæðinu?

„Það er mjög erfitt að velja úr, því nátt­úruperlurn­ar eru ófá­ar á sunn­an­verðum Vest­fjörðum. Þar ber að nefna foss­inn Dynj­anda en þegar upp stíg­inn er komið að foss­in­um er ork­an og feg­urðin slík að það er erfitt að toppa. Látra­bjarg er líka ein­stök perla enda er bjargið vin­sæl­asti áfangastaður Vest­fjarða. Bjargið er stærsta sjáv­ar­bjarg Íslands og stærsta álku­byggð í heimi. Lund­inn er lík­lega vin­sæl­asta fugla­teg­und bjargs­ins en þar verp­ir einnig stutt­nefja, lang­vía, rita, fýll og fleiri. Svuntu­foss­inn í botni Pat­reks­fjarðar er svo ein fal­in nátt­úruperla sem gam­an er að heim­sækja.“

Hægt er að koma auga á seli.
Hægt er að koma auga á seli.

Mæl­ir með sund­laug­inni á Pat­reks­firði og Vega­mót­um á Bíldu­dal

En hvar færðu þér sund­sprett?

„Yf­ir­leitt í okk­ar fal­legu sund­laug á Pat­reks­firði en úr laug­inni er dá­sam­legt út­sýni yfir fjörðinn. Þar er að finna um 17 metra langa úti­laug, tvo heita potta, vaðlaug, kald­an pott, sána og lík­ams­rækt­ar­stöð. Aðstaðan er frá­bær og út­sýnið ein­stakt.“

Hvar færðu besta mat­inn á Vest­fjörðum?

„Á sunn­an­verðum Vest­fjörðum erum við með mikið úr­val æðis­legra veit­ingastaða. Á Bíldu­dal er að finna ein­stak­an veit­ingastað sem heit­ir Vega­mót. Þar bjóða þeir upp á lík­lega einn besta fisk og fransk­ar sem hægt er finna, ásamt ljúf­feng­um ham­borg­ur­um og kjúk­linga­sal­atið er klár­lega það besta sem ég hef smakkað. Ef þú sit­ur uppi ertu með flott út­sýni yfir fjörðinn og hafn­ar­svæðið.“

Ertu búin að skipu­leggja sum­arið þitt?

„Í sum­ar er mik­il vinna fram und­an en frí­tím­ann minn fær fjöl­skyld­an. Við ætl­um að fara á eitt fót­bolta­mót og á eitt ætt­ar­mót. Síðan ætl­um við að grípa tæki­færið þegar tími gefst til þess að njóta lífs­ins hér á Vest­fjörðum í faðmi fal­legr­ar nátt­úru.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert