Stórkostlegt að upplifa stillurnar fyrir vestan

Kristín Bogadóttir horfir á Ísland með augum ljósmyndarans.
Kristín Bogadóttir horfir á Ísland með augum ljósmyndarans. mbl.is/Arnþór Birkisson

Krist­ín Boga­dótt­ir, ljós­mynd­ari og leiðsögumaður, mæl­ir með því að fara hægt yfir í frí­inu og njóta þess sem landið hef­ur upp á að bjóða. Sjálf veit hún fátt betra en að vera á Vest­fjörðum.

Krist­ín seg­ir ljós­mynd­un og leiðsögn fara vel sam­an. „Ég er búin að fara víða um landið í gegn­um árin og mynda og hef auga fyr­ir því hvað er fal­legt og hvað er skemmti­legt að skoða. Svo hef ég hef kennt mikið og leiðsögn og kennsla eru tvær hliðar á sama pen­ingi. Enda eru marg­ir kenn­ar­ar að leiðsegja því þetta snýst um að halda utan um hóp og miðla. Það get­ur ekki verið verið til­vilj­un hvað það eru marg­ir kenn­ar­ar að leiðsegja.“

Krist­ín seg­ist reynd­ar ekki vinna við nátt­úru­ljós­mynd­un í starfi sínu sem ljós­mynd­ari en hef­ur gert meira af slíku í frí­tíma sín­um. „Ég hef líka gam­an af hvers­dags­leik­an­um og litlu hlut­un­um og ég hef óskap­lega gam­an af veðrinu,“ seg­ir Krist­ín.

Kristín tók þessa mynd á Flateyri en hún er lýsandi …
Krist­ín tók þessa mynd á Flat­eyri en hún er lýs­andi fyr­ir vet­ur­inn í þorp Ljós­mynd/​Krist­ín Boga­dótt­ir

Skemmti­legt að vera í rign­ingu og roki

Hvernig mynd­ar maður veðrið?

„Með því að vera ekki alltaf bara á ferðinni í góðu veðri. Við ætt­um að end­ur­skil­greina hvað er gott veður og fá okk­ur betri pollagalla og njóta þess að vera úti í rign­ing­unni og rok­inu. Þetta er bara hluti af upp­lif­un­inni finnst mér,“ seg­ir Krist­ín. Hún seg­ir meðal ann­ars hægt að fanga veðrið á mynd með því að mynda skýja­farið, vind­inn og sjó­inn.

„Talandi um veðrið þá er ein af mín­um áhrifa­mestu upp­lif­un­um í leiðsögn þegar ég var með franska ferðamenn á Ísaf­irði. Ég sigldi yfir Djúpið út á Hesteyri, það var ekki gott veður en sigl­ing­in yfir Djúpið var stór­kost­leg. Það voru hval­ir sem komu að kíkja á okk­ur. Við geng­um þar á land og geng­um um í því­lík­um rign­ing­ar­sudda og í göng­unni önduðum við að okk­ur sög­unni. Tínd­um upp í okk­ur aðal­blá­ber af því að þetta var í byrj­un sept­em­ber. Ég kenndi þeim að búa til berjatínu úr fingr­un­um, setja bara lóf­ana und­ir aðal­blá­berja­lyngið og tína þannig. Við kom­um síðan öll renn­andi blaut og berja­blá inn í Lækn­is­húsið á Hesteyri þar sem við feng­um rjúk­andi heitt kaffi og með því. Þetta var stór­kost­legt.“

Spegilsléttur Ísafjörður.
Speg­il­slétt­ur Ísa­fjörður. Ljós­mynd/​Krist­ín Boga­dótt­ir

Nýt­ur þess að fara ró­lega um Vest­f­irði

Krist­ín seg­ir að hún aðhyll­ist hæg­læt­is­ferðalög í sín­um frí­um og legg­ur áherslu á að njóta og skoða hvert og eitt svæði vel og vand­lega.

„Ég hef oft verið fyr­ir vest­an og hef á síðari árum verið mikið á norðan­verðum Vest­fjörðum. Vest­f­irðirn­ir bjóða upp á að keyra hring á nokkr­um dög­um. Það er til dæm­is hægt að keyra Djúpið og taka tíma í það, stoppa, fara út úr bíln­um og ganga upp á alla litlu höfðana og ofan í all­ar litlu fjör­urn­ar. Fá sér kannski kaffi á Ögri eða í Litla­bæ í Skötuf­irði. Stoppa aðeins og njóta á leiðinni. Á leiðinni heim er svo hægt að fara nýju göng­in og Dynj­and­is­heiði sem er nú held­ur bet­ur búið að laga.

Svo finnst mér Ísa­fjörður, bær­inn sjálf­ur, ótrú­lega skemmti­leg­ur. Þar er líka al­deil­is hægt að fara gott út að borða. Upp­á­halds­heiti pott­ur­inn minn á land­inu er í Bol­ung­ar­vík en hann er með út­sýni beint upp á fjall. Önund­ar­fjörður er fal­leg­ur á su­mar­kvöld­um, sjór­inn speg­il­slétt­ur, fjöll­in á hvolfi í sjón­um og þessi fal­legi hvíti sand­ur. Dýra­fjörður er óskap­lega fal­leg­ur líka og alltaf gam­an að koma á Þing­eyri,“ seg­ir Krist­ín um Vest­f­irðina.

Önundarfjörður er einstakur.
Önund­ar­fjörður er ein­stak­ur. Ljós­mynd/​Krist­ín Boga­dótt­ir

Í staðinn fyr­ir að keyra frá A til B mæl­ir Krist­ín með því að fara hægt yfir og taka kannski nýtt og nýtt þema fyr­ir á hverju svæði fyr­ir sig. Með því að ein­beita sér að nýju þema má sjá landið í nýju ljósi. „Ég fór með for­eldr­um mín­um fyr­ir nokkr­um árum í ferðalag og við vor­um fyr­ir norðan og fór­um einn dag­inn og skoðuðum kirkj­ur í Eyjaf­irðinum en það er mikið af fal­leg­um kirkj­um fyr­ir norðan.“ 

Ætlar að njóta í tjald­inu

Krist­ín seg­ist hafa verið dug­leg að nýta hina ýmsu gisti­mögu­leika á und­an­förn­um árum en ætl­ar að draga tjaldið fram í ár. „Ég var að fara yfir tjaldið mitt og held að við ætt­um að fara að vera meira í tjöld­um. Það er nátt­úru­lega langó­dýr­ast og það er svo mikið frelsi í því að tjalda. En auðvitað held ég að fólk eigi bara að blanda þessu sam­an,“ seg­ir Krist­ín og nefn­ir bændag­ist­ingu, stétt­ar­fé­lags­í­búðir og sum­ar­bú­staði.

Á ferðalög­um tek­ur Krist­ín gjarn­an dag­inn snemma en finnst ekki síður nota­legt að horfa út á sjó­inn á fögr­um su­mar­kvöld­um. „Það eru þess­ar still­ur fyr­ir vest­an sem mér finnst svo stór­kost­legt að upp­lifa ver­andi úr rok­inu í Reykja­vík. Eitt af mín­um upp­á­halds­lög­um er Sting­um af eft­ir Mug­i­son og mér finnst það lag kjarna þessa til­finn­ingu hvað er gott við að ferðast. And­vöku­bjart og him­inn – kvöld­sól­ar­skart, þetta með að finna lít­inn læk og litla laut og speg­il­slétt­an fjörð. Text­inn fjall­ar svo mikið um að njóta – og njóta með börn­un­um og fjöl­skyldu­hjörðinni.“

Lífið á Ísafirði.
Lífið á Ísaf­irði. Ljós­mynd/​Krist­ín Boga­dótt­ir

Er hver árstíð ein­stök fyr­ir vest­an?

„Mér finnst það. Mér finnst all­ar árstíðir hafa sinn sjarma. Ég á alltaf pínu­lítið erfitt með vorið af því að það get­ur verið svo grátt og hrá­slaga­legt. Að vísu finnst mér alltaf fal­legt þegar fjöll­in verða rönd­ótt í fjörðunum fyr­ir vest­an og aust­an þegar snjó­inn tek­ur upp. Mér finnst líka fal­legt á haust­in þegar allt byrj­ar að fölna og það er þessi fal­lega birta. Þá verður eins og það sé búið að sáldra flór­sykri yfir fjöll­in, þegar byrjað er að snjóa efst í fjöll­un­um.“

Að lok­um bend­ir Krist­ín á að það sé vel hægt að verja öllu sum­ar­frí­inu á Vest­fjörðum og mæl­ir líka með því að skoða sunn­an­verða Vest­f­irði. „Það er hægt að fara á Rauðasand, Látra­bjarg og Selár­dal­inn,“ seg­ir hún og mæl­ir með tjald­stæðinu á Tálknafirði og sund­laug­un­um á svæðinu.

Ströndin í Önundarfirði er falleg.
Strönd­in í Önund­arf­irði er fal­leg. Ljós­mynd/​Krist­ín Boga­dótt­ir
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert