Besta hugleiðslan að sitja í berjalyngi á góðum sumardegi í Mjóafirði

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir ólst upp fyrir austan.
Ragnhildur Aðalsteinsdóttir ólst upp fyrir austan. Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Aust­ur­land er Ragn­hildi Aðal­steins­dótt­ur afar kært en hún ólst upp á Vaðbrekku í Hrafn­kels­dal, bjó síðan í Fella­bæ á mennta­skóla­ár­un­um en flutti til Reykja­vík­ur um tví­tugt. Hún seg­ist vera nokkuð dug­leg að heim­sækja æsku­slóðirn­ar en stór hluti fjöl­skyldu henn­ar býr enn fyr­ir aust­an. Hún sam­gleðst þeim sem eiga eft­ir að upp­lifa að koma í Stór­urð í fyrsta skipti.

Ragn­hild­ur á að baki nám í fjöl­miðla­fræði, ljós­mynd­un og leiðsögn og starfaði lengi sem blaðamaður á Vik­unni og fleiri blöðum. Um þess­ar mund­ir vinn­ur hún við leiðsögn bæði hér heima og er­lend­is. Ragn­hild­ur tek­ur einnig að sér fjöl­breytt ljós­mynda­verk­efni og hún hef­ur verið dug­leg að taka fal­leg­ar mynd­ir á ferðalög­um sín­um um landið enda mik­ill úti­vist­ar- og göngugarp­ur og varla til ís­lenskt fjall sem Ragga, eins og hún er oft­ast kölluð, hef­ur ekki klifið. Hún seg­ir Aust­ur­land vera dá­sam­legt á svo marga vegu. „Þetta svæði er mitt „heim“ og sér­hver þúfa sem tek­ur á móti mér umfaðmar þá til­finn­ingu. Aust­ur­landið býr yfir fjöl­breyttri nátt­úru­feg­urð með háum tind­um og mjó­um fjörðum við aust­ur­strönd­una, ein­um gróður­sæl­asta stað lands­ins uppi á Héraði og síðan víðáttu ör­æf­anna uppi á heiðunum norðan Vatna­jök­uls. Mögu­leik­arn­ir til úti­vist­ar eru því gríðarmarg­ir.“

Upp­á­haldsstaðir Röggu eru þónokkr­ir og fyrst seg­ist hún verða að nefna Stór­urð sem sé ein­hver stór­kost­leg­asti staður í víðri ver­öld sem hún hef­ur heim­sótt. „Ég sam­gleðst öll­um sem eiga eft­ir að heim­sækja staðinn, það jafn­ast ekk­ert á við að koma þangað í fyrsta sinn, ég varð alla vega fyr­ir ein­hverri and­legri upp­lif­un. Þar fyr­ir ofan tróna síðan Dyr­fjöll­in sem eru með fal­legri tind­um á land­inu. Hell­is­heiði eystri býður upp á frá­bært út­sýni yfir Héraðsfló­ann. Sum­um finnst nokkuð bratt að keyra þarna yfir en þegar skyggnið er gott er það sann­ar­lega þess virði.“ Hún bæt­ir við að Atla­vík í Hall­ormsstaðaskógi bjóði upp á eitt fal­leg­asta og veður­sæl­asta tjald­stæði lands­ins og fátt jafn­ist á við úti­legu þar á aust­firsk­um góðviðris­dög­um.

Útsýni yfir Héraðsflóa frá þeim stað sem gengið er niður …
Útsýni yfir Héraðsflóa frá þeim stað sem gengið er niður Þerri­bjarg, norðan af Hell­is­heiði eystri. Ljós­mynd/​Aðsend

Marg­ir spenn­andi og flott­ir tind­ar

Hún bend­ir á nokkra tinda niðri á fjörðum sem séu henni sér­stak­lega kær­ir. „Hólmat­ind­ur milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, Hvítserk­ur við Húsa­vík­ur­heiði milli Borg­ar­fjarðar eystri og Húsa­vík­ur og Eystra­horn við Lón í Aust­ur-Skafta­fells­sýslu eru all­ir ein­stak­ir. Að lok­um verð ég að nefna bæði Fljóts­dals­heiði og Jölul­dals­heiði með sinni kraft­miklu víðáttu, oft eyðimerk­ur­lands­lagi og fal­leg­um vötn­um, tjörn­um, gróðri og mýr­um inn á milli. Þar sem svo tróna yfir Snæ­fellið til suðaust­urs og Herðubreið til norðvest­urs. Á þess­um heiðum eru einnig ein af aðal­heim­kynn­um hrein­dýr­anna sem mér þykir afar vænt um.“

Hólmatindur á Eskifirði er myndarlegt fjall.
Hólmat­ind­ur á Eskif­irði er mynd­ar­legt fjall. Ljós­mynd/​Aðsend

Þrjár magnaðar göngu­leiðir – Þerri­bjarg, Magna­hell­ir og Hólma­nes

Ragga held­ur upp á nokkr­ar göngu­leiðir á svæðinu og nefn­ir fyrst Þerri­bjarg. „Það er nokkuð erfið ganga og brött en verðlaun­in því betri. Það sem er kannski óvenju­leg­ast við göngu­leiðina er að hún byrj­ar í um 600 metra hæð yfir sjáv­ar­máli, gengið er niður að sjó, og síðan aft­ur upp. Mesta erfiðið er því eft­ir að aðal­nátt­úruperl­an hef­ur verið heim­sótt. Ekið er upp á Hell­is­heiði eystri og þaðan eft­ir veg­slóða þar til komið er að skilti með upp­lýs­ing­um um göngu­leiðina. Nauðsyn­legt er að vera á fjór­hjóla­drifn­um bíl. Fyrst er gengið út fjall­g­arðinn, síðan niður bratta brekku al­veg að Múla­höfn. Loks er gengið meðfram sjón­um þar til komið er að út­sýn­is­staðnum þar sem Þerri­bjarg blas­ir við. Ég mæli með því að fólk fari frá út­sýn­is­staðnum og alla leið niður á Langasand til að njóta feg­urðar­inn­ar enn bet­ur. Gang­an er í heild­ina um 11 km með 820 metra heild­ar­hækk­un.“

Ragnhildur segir að það sé magnað að ganga á Þerribjarg …
Ragn­hild­ur seg­ir að það sé magnað að ganga á Þerri­bjarg þótt gang­an sé erfið og brött. Ljós­mynd/​Aðsend

Hún nefn­ir líka Magna­helli sem henti flest­um að ganga að en leiðin er um 2,5 km. „Þessi hell­ir er í Hafra­hvömm­um við Dimm­ug­ljúf­ur. Ekið er að Kára­hnjúka­virkj­un og mal­ar­veg í norður með Dimm­ug­ljúfr­um vest­an við stífl­una. Þá er fljót­lega komið að slóða sem ligg­ur niður að bíla­stæðinu með upp­lýs­inga­skilti þar sem gang­an hefst. Á leiðinni að hell­in­um er út­sýn­ispall­ur þar sem við blas­ir hrika­leg nátt­úru­feg­urð þessa mik­il­feng­lega gljúf­urs.“ Síðasta göngu­leiðin sem hún vill nefna er Hólma­nesið sem er friðlýst­ur fólkvang­ur milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. „Þetta er um 4 km lang­ur hring­ur frá bíla­stæðinu við ræt­ur Hólmat­inds. Þar eru áhuga­verðar berg­mynd­an­ir og mikið fugla­líf. Stund­um eru líka hrein­dýr á vappi á nes­inu.“

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir hefur ferðast mikið um Austurland og er gjarnan …
Ragn­hild­ur Aðal­steins­dótt­ir hef­ur ferðast mikið um Aust­ur­land og er gjarn­an með mynda­vél­ina að vopni. Ljós­mynd/​Aðsend

Álfa­drottn­ing, lund­ar og sel­ir

Ragga seg­ir það eig­in­lega vera skyldu að rúnta niður á Borg­ar­fjörð eystri til að skoða lunda­byggðina í Hafn­ar­hólm­an­um og fá sér eitt­hvað gott að borða á veit­inga­stöðum heima­manna og eiga svo fund við álfa­drottn­ing­una sjálfa í Álfa­borg­inni. „Mig lang­ar auk þess að nefna sela­skoðun á hest­baki á bæn­um Hús­ey en hann er við Héraðsflóa milli Lag­ar­fljóts og Jök­uls­ár á Dal. Þar er mikið fugla­líf, kyrrð og nátt­úru­feg­urð. Svo er ekki annað hægt en að nefna Óbyggðasetrið í Fljóts­dal en þar er sýn­ing um æv­in­týri óbyggðanna og sam­band fólks við nátt­úr­una og óblíð nátt­úru­öfl­in hér á árum áður. Þar er einnig boðið upp á heim­il­is­leg­ar veit­ing­ar, gist­ingu og ýmsa afþrey­ingu, eins og göng­ur, hjól­reiða- og hesta­leigu. Skammt frá er end­ur­gerður kláf­ur fyr­ir jök­ulsána sem gest­ir mega prófa.“

Hafnarhólminn á Borgarfirði eystri.
Hafn­ar­hólm­inn á Borg­ar­f­irði eystri. Ljós­mynd/​Aðsend

Fjöl­breytt afþrey­ing fyr­ir börn­in

Á Aust­ur­landi er margt að gera fyr­ir börn og nefn­ir Ragga sund­laug­arn­ar á Eskif­irði og Eg­ils­stöðum í því sam­hengi sem séu prýðileg­ar þó þær láti ekki mikið yfir sér. „Göngu­ferð með börn­in upp að Far­daga­fossi fyr­ir ofan Eg­ilsstaði er stutt og skemmti­leg, ekki síst þegar lítið er í ánni má með smá klöngri fara fyr­ir aft­an foss­inn. Einnig er gam­an að heim­sækja hrein­dýrag­arðinn á Vín­landi í Fell­um þar sem tömdu hrein­dýr­in Garp­ur og Mosi búa.“ Hún bæt­ir við að einn flott­asti baðstaður lands­ins sé fyr­ir aust­an, Vök Baths við Urriðavatn. „Þar er dá­sam­legt að liggja í heitu laug­inni upp við aðstöðuhúsið sem og í heitu pott­un­um sem liggja ofan í Urriðavatn­inu. Þá er næst­um því skylda að fara ofan í vatnið sjálft og taka smá sund­sprett.“

Í hellinum bak við Fardagafoss.
Í hell­in­um bak við Far­daga­foss. Ljós­mynd/​Aðsend

Ævin­týra­leg fjöll og fal­leg­ir stein­ar

Aust­f­irðirn­ir eru afar sér­stak­ir í jarðfræðileg­um skiln­ingi seg­ir hún. „Þeir eru elsta svæði lands­ins á eft­ir Vest­fjörðum. Í fjöll­un­um má sjá hraunstafl­ana hvern ofan á öðrum, við firði og dali sem jökl­ar hafa grafið á hinum mörgu kulda­skeiðum ís­ald­ar. Á nokkr­um stöðum á Aust­ur­landi eins og á Borg­ar­f­irði eystri og í Lóns­ör­æf­um má finna stór lípar­ítsvæði sem gefa okk­ur til kynna að þarna eru gaml­ar út­brunn­ar meg­in­eld­stöðvar. Á Aust­ur­landi má finna margs kon­ar fal­leg­ar stein­teg­und­ir sem finna má á Steina­safni Petru á Stöðvarf­irði, en Petra Sveins­dótt­ir upp­hafs­kona safns­ins gekk reglu­lega um fjöll­in á Aust­fjörðum og safnaði fá­gæt­um stein­teg­und­um.“ Hún seg­ist mæla með heim­sókn á safnið.

Steinasafn Petru á Stöðvarfirði
Steina­safn Petru á Stöðvarf­irði Ljós­mynd/​Aðsend

Spenn­andi svæði fyr­ir sæl­kera

Aust­ur­landið er stund­um kallað ís­lenska mat­arkarf­an en hvað verða all­ir að smakka? „Ein­hvers kon­ar hrein­dýra­kjöt, til dæm­is á veit­inga­stöðunum Niel­sen eða Lyng á Hót­el Héraði. Á Seyðis­firði er veit­ingastaður­inn Norð Aust­ur sus­hi&bar þar sem hægt er að fá eitt besta sus­hi lands­ins. Svo verð ég að nefna veit­ingastaðinn Bókakaffi í Fella­bæ sem býður upp á strang­heiðarleg­an ís­lensk­an mat. Í há­deg­inu á miðviku­dög­um eru t.d. alltaf kótilett­ur í raspi og eft­ir há­degi á föstu­dög­um er boðið upp á kaffi­hlaðborð sem myndi sóma sér vel í hvaða ferm­ing­ar­veislu sem er. Ís með dýfu í Sölu­skál­an­um (nú N1 Eg­ils­stöðum) er síðan al­ger skylda,“ bæt­ir Ragga við mjög ákveðin og bæt­ir við að Klaust­ur­kaffi á Skriðuk­laustri sé upp­á­haldsveit­ingastaður­inn henn­ar fyr­ir aust­an. Þar sé áhersla á ís­lenska mat­ar­gerð gerða frá grunni og hrá­efni úr nærum­hverf­inu, eins og t.d. lamba­kjöt, hrein­dýra­kjöt, hrúta­ber og lerk­i­sveppi.

Veitingastaðurinn Klausturskaffi er í miklu uppáhaldi hjá Ragnhildi.
Veit­ingastaður­inn Klaust­ur­skaffi er í miklu upp­á­haldi hjá Ragn­hildi. Ljós­mynd/​Aðsend

Gisti­mögu­leik­arn­ir marg­ir en tveir í upp­á­haldi hjá Röggu

Mæl­ir með því að ferðalang­ar gisti aðeins úti í sveit. „Mig lang­ar að nefna tvo af mín­um upp­á­halds­stöðum, ann­ars veg­ar gisti­staðinn Fljóts­dals­grund sem er á ein­um veður­sæl­asta stað Aust­ur­lands, inn­ar­lega í Fljóts­dal á Héraði og hins veg­ar Hót­el Stuðlagil sem er í gamla heima­vist­ar­skól­an­um mín­um á Jök­ul­dal. Þetta eru kannski ekki mest „fansí“ gisti­staðirn­ir, ef svo má að orði kom­ast, en á báðum þess­um stöðum eru af­bragðs-staðar­hald­ar­ar, virki­lega sjarmer­andi andi og góð þjón­usta.“ Hún vill einnig benda fólki á að uppi uppi á Fljóts­dals­heiði, á leiðinni inn að Kára­hnjúka­virkj­un, sé ferðaþjón­ust­ustaður­inn Lauga­fell. „Þar er virki­lega fal­lega göngu­leið niður með Laugará, upp með Jök­ulsá í Fljóts­dal og til baka. Á eft­ir er svo hægt að skella sér í heitu pott­ana sem búið er að hlaða í kring­um heitu lind­ina á svæðinu.“ 

Þegar hún er spurð hvar sé best að hvíla sig og hlaða batte­rí­in á svæðinu svar­ar hún ákveðin: Mjóifjörður. „Þar er mesta orku að finna þegar kem­ur að því að hlaða batte­rí­in, ekki síst síðsum­ars þegar ber­in eru kom­in. Að sitja í berja­lyngi á góðum sum­ar­degi í fal­legri brekku í Mjóaf­irði er ein sú besta hug­leiðsla sem hægt er að hugsa sér,“ bæt­ir hún bros­andi við að lok­um.

Jökulsá í Fljótsdal og Snæfellið í bakgrunni. Myndin var tekin …
Jök­ulsá í Fljóts­dal og Snæ­fellið í bak­grunni. Mynd­in var tek­in á göngu­leiðinni frá Lauga­felli. Ljós­mynd/​Aðsend
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert