Besta hugleiðslan að sitja í berjalyngi á góðum sumardegi í Mjóafirði

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir ólst upp fyrir austan.
Ragnhildur Aðalsteinsdóttir ólst upp fyrir austan. Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Austurland er Ragnhildi Aðalsteinsdóttur afar kært en hún ólst upp á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, bjó síðan í Fellabæ á menntaskólaárunum en flutti til Reykjavíkur um tvítugt. Hún segist vera nokkuð dugleg að heimsækja æskuslóðirnar en stór hluti fjölskyldu hennar býr enn fyrir austan. Hún samgleðst þeim sem eiga eftir að upplifa að koma í Stórurð í fyrsta skipti.

Ragnhildur á að baki nám í fjölmiðlafræði, ljósmyndun og leiðsögn og starfaði lengi sem blaðamaður á Vikunni og fleiri blöðum. Um þessar mundir vinnur hún við leiðsögn bæði hér heima og erlendis. Ragnhildur tekur einnig að sér fjölbreytt ljósmyndaverkefni og hún hefur verið dugleg að taka fallegar myndir á ferðalögum sínum um landið enda mikill útivistar- og göngugarpur og varla til íslenskt fjall sem Ragga, eins og hún er oftast kölluð, hefur ekki klifið. Hún segir Austurland vera dásamlegt á svo marga vegu. „Þetta svæði er mitt „heim“ og sérhver þúfa sem tekur á móti mér umfaðmar þá tilfinningu. Austurlandið býr yfir fjölbreyttri náttúrufegurð með háum tindum og mjóum fjörðum við austurströnduna, einum gróðursælasta stað landsins uppi á Héraði og síðan víðáttu öræfanna uppi á heiðunum norðan Vatnajökuls. Möguleikarnir til útivistar eru því gríðarmargir.“

Uppáhaldsstaðir Röggu eru þónokkrir og fyrst segist hún verða að nefna Stórurð sem sé einhver stórkostlegasti staður í víðri veröld sem hún hefur heimsótt. „Ég samgleðst öllum sem eiga eftir að heimsækja staðinn, það jafnast ekkert á við að koma þangað í fyrsta sinn, ég varð alla vega fyrir einhverri andlegri upplifun. Þar fyrir ofan tróna síðan Dyrfjöllin sem eru með fallegri tindum á landinu. Hellisheiði eystri býður upp á frábært útsýni yfir Héraðsflóann. Sumum finnst nokkuð bratt að keyra þarna yfir en þegar skyggnið er gott er það sannarlega þess virði.“ Hún bætir við að Atlavík í Hallormsstaðaskógi bjóði upp á eitt fallegasta og veðursælasta tjaldstæði landsins og fátt jafnist á við útilegu þar á austfirskum góðviðrisdögum.

Útsýni yfir Héraðsflóa frá þeim stað sem gengið er niður …
Útsýni yfir Héraðsflóa frá þeim stað sem gengið er niður Þerribjarg, norðan af Hellisheiði eystri. Ljósmynd/Aðsend

Margir spennandi og flottir tindar

Hún bendir á nokkra tinda niðri á fjörðum sem séu henni sérstaklega kærir. „Hólmatindur milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, Hvítserkur við Húsavíkurheiði milli Borgarfjarðar eystri og Húsavíkur og Eystrahorn við Lón í Austur-Skaftafellssýslu eru allir einstakir. Að lokum verð ég að nefna bæði Fljótsdalsheiði og Jöluldalsheiði með sinni kraftmiklu víðáttu, oft eyðimerkurlandslagi og fallegum vötnum, tjörnum, gróðri og mýrum inn á milli. Þar sem svo tróna yfir Snæfellið til suðausturs og Herðubreið til norðvesturs. Á þessum heiðum eru einnig ein af aðalheimkynnum hreindýranna sem mér þykir afar vænt um.“

Hólmatindur á Eskifirði er myndarlegt fjall.
Hólmatindur á Eskifirði er myndarlegt fjall. Ljósmynd/Aðsend

Þrjár magnaðar gönguleiðir – Þerribjarg, Magnahellir og Hólmanes

Ragga heldur upp á nokkrar gönguleiðir á svæðinu og nefnir fyrst Þerribjarg. „Það er nokkuð erfið ganga og brött en verðlaunin því betri. Það sem er kannski óvenjulegast við gönguleiðina er að hún byrjar í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli, gengið er niður að sjó, og síðan aftur upp. Mesta erfiðið er því eftir að aðalnáttúruperlan hefur verið heimsótt. Ekið er upp á Hellisheiði eystri og þaðan eftir vegslóða þar til komið er að skilti með upplýsingum um gönguleiðina. Nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. Fyrst er gengið út fjallgarðinn, síðan niður bratta brekku alveg að Múlahöfn. Loks er gengið meðfram sjónum þar til komið er að útsýnisstaðnum þar sem Þerribjarg blasir við. Ég mæli með því að fólk fari frá útsýnisstaðnum og alla leið niður á Langasand til að njóta fegurðarinnar enn betur. Gangan er í heildina um 11 km með 820 metra heildarhækkun.“

Ragnhildur segir að það sé magnað að ganga á Þerribjarg …
Ragnhildur segir að það sé magnað að ganga á Þerribjarg þótt gangan sé erfið og brött. Ljósmynd/Aðsend

Hún nefnir líka Magnahelli sem henti flestum að ganga að en leiðin er um 2,5 km. „Þessi hellir er í Hafrahvömmum við Dimmugljúfur. Ekið er að Kárahnjúkavirkjun og malarveg í norður með Dimmugljúfrum vestan við stífluna. Þá er fljótlega komið að slóða sem liggur niður að bílastæðinu með upplýsingaskilti þar sem gangan hefst. Á leiðinni að hellinum er útsýnispallur þar sem við blasir hrikaleg náttúrufegurð þessa mikilfenglega gljúfurs.“ Síðasta gönguleiðin sem hún vill nefna er Hólmanesið sem er friðlýstur fólkvangur milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. „Þetta er um 4 km langur hringur frá bílastæðinu við rætur Hólmatinds. Þar eru áhugaverðar bergmyndanir og mikið fuglalíf. Stundum eru líka hreindýr á vappi á nesinu.“

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir hefur ferðast mikið um Austurland og er gjarnan …
Ragnhildur Aðalsteinsdóttir hefur ferðast mikið um Austurland og er gjarnan með myndavélina að vopni. Ljósmynd/Aðsend

Álfadrottning, lundar og selir

Ragga segir það eiginlega vera skyldu að rúnta niður á Borgarfjörð eystri til að skoða lundabyggðina í Hafnarhólmanum og fá sér eitthvað gott að borða á veitingastöðum heimamanna og eiga svo fund við álfadrottninguna sjálfa í Álfaborginni. „Mig langar auk þess að nefna selaskoðun á hestbaki á bænum Húsey en hann er við Héraðsflóa milli Lagarfljóts og Jökulsár á Dal. Þar er mikið fuglalíf, kyrrð og náttúrufegurð. Svo er ekki annað hægt en að nefna Óbyggðasetrið í Fljótsdal en þar er sýning um ævintýri óbyggðanna og samband fólks við náttúruna og óblíð náttúruöflin hér á árum áður. Þar er einnig boðið upp á heimilislegar veitingar, gistingu og ýmsa afþreyingu, eins og göngur, hjólreiða- og hestaleigu. Skammt frá er endurgerður kláfur fyrir jökulsána sem gestir mega prófa.“

Hafnarhólminn á Borgarfirði eystri.
Hafnarhólminn á Borgarfirði eystri. Ljósmynd/Aðsend

Fjölbreytt afþreying fyrir börnin

Á Austurlandi er margt að gera fyrir börn og nefnir Ragga sundlaugarnar á Eskifirði og Egilsstöðum í því samhengi sem séu prýðilegar þó þær láti ekki mikið yfir sér. „Gönguferð með börnin upp að Fardagafossi fyrir ofan Egilsstaði er stutt og skemmtileg, ekki síst þegar lítið er í ánni má með smá klöngri fara fyrir aftan fossinn. Einnig er gaman að heimsækja hreindýragarðinn á Vínlandi í Fellum þar sem tömdu hreindýrin Garpur og Mosi búa.“ Hún bætir við að einn flottasti baðstaður landsins sé fyrir austan, Vök Baths við Urriðavatn. „Þar er dásamlegt að liggja í heitu lauginni upp við aðstöðuhúsið sem og í heitu pottunum sem liggja ofan í Urriðavatninu. Þá er næstum því skylda að fara ofan í vatnið sjálft og taka smá sundsprett.“

Í hellinum bak við Fardagafoss.
Í hellinum bak við Fardagafoss. Ljósmynd/Aðsend

Ævintýraleg fjöll og fallegir steinar

Austfirðirnir eru afar sérstakir í jarðfræðilegum skilningi segir hún. „Þeir eru elsta svæði landsins á eftir Vestfjörðum. Í fjöllunum má sjá hraunstaflana hvern ofan á öðrum, við firði og dali sem jöklar hafa grafið á hinum mörgu kuldaskeiðum ísaldar. Á nokkrum stöðum á Austurlandi eins og á Borgarfirði eystri og í Lónsöræfum má finna stór líparítsvæði sem gefa okkur til kynna að þarna eru gamlar útbrunnar megineldstöðvar. Á Austurlandi má finna margs konar fallegar steintegundir sem finna má á Steinasafni Petru á Stöðvarfirði, en Petra Sveinsdóttir upphafskona safnsins gekk reglulega um fjöllin á Austfjörðum og safnaði fágætum steintegundum.“ Hún segist mæla með heimsókn á safnið.

Steinasafn Petru á Stöðvarfirði
Steinasafn Petru á Stöðvarfirði Ljósmynd/Aðsend

Spennandi svæði fyrir sælkera

Austurlandið er stundum kallað íslenska matarkarfan en hvað verða allir að smakka? „Einhvers konar hreindýrakjöt, til dæmis á veitingastöðunum Nielsen eða Lyng á Hótel Héraði. Á Seyðisfirði er veitingastaðurinn Norð Austur sushi&bar þar sem hægt er að fá eitt besta sushi landsins. Svo verð ég að nefna veitingastaðinn Bókakaffi í Fellabæ sem býður upp á strangheiðarlegan íslenskan mat. Í hádeginu á miðvikudögum eru t.d. alltaf kótilettur í raspi og eftir hádegi á föstudögum er boðið upp á kaffihlaðborð sem myndi sóma sér vel í hvaða fermingarveislu sem er. Ís með dýfu í Söluskálanum (nú N1 Egilsstöðum) er síðan alger skylda,“ bætir Ragga við mjög ákveðin og bætir við að Klausturkaffi á Skriðuklaustri sé uppáhaldsveitingastaðurinn hennar fyrir austan. Þar sé áhersla á íslenska matargerð gerða frá grunni og hráefni úr nærumhverfinu, eins og t.d. lambakjöt, hreindýrakjöt, hrútaber og lerkisveppi.

Veitingastaðurinn Klausturskaffi er í miklu uppáhaldi hjá Ragnhildi.
Veitingastaðurinn Klausturskaffi er í miklu uppáhaldi hjá Ragnhildi. Ljósmynd/Aðsend

Gistimöguleikarnir margir en tveir í uppáhaldi hjá Röggu

Mælir með því að ferðalangar gisti aðeins úti í sveit. „Mig langar að nefna tvo af mínum uppáhaldsstöðum, annars vegar gististaðinn Fljótsdalsgrund sem er á einum veðursælasta stað Austurlands, innarlega í Fljótsdal á Héraði og hins vegar Hótel Stuðlagil sem er í gamla heimavistarskólanum mínum á Jökuldal. Þetta eru kannski ekki mest „fansí“ gististaðirnir, ef svo má að orði komast, en á báðum þessum stöðum eru afbragðs-staðarhaldarar, virkilega sjarmerandi andi og góð þjónusta.“ Hún vill einnig benda fólki á að uppi uppi á Fljótsdalsheiði, á leiðinni inn að Kárahnjúkavirkjun, sé ferðaþjónustustaðurinn Laugafell. „Þar er virkilega fallega gönguleið niður með Laugará, upp með Jökulsá í Fljótsdal og til baka. Á eftir er svo hægt að skella sér í heitu pottana sem búið er að hlaða í kringum heitu lindina á svæðinu.“ 

Þegar hún er spurð hvar sé best að hvíla sig og hlaða batteríin á svæðinu svarar hún ákveðin: Mjóifjörður. „Þar er mesta orku að finna þegar kemur að því að hlaða batteríin, ekki síst síðsumars þegar berin eru komin. Að sitja í berjalyngi á góðum sumardegi í fallegri brekku í Mjóafirði er ein sú besta hugleiðsla sem hægt er að hugsa sér,“ bætir hún brosandi við að lokum.

Jökulsá í Fljótsdal og Snæfellið í bakgrunni. Myndin var tekin …
Jökulsá í Fljótsdal og Snæfellið í bakgrunni. Myndin var tekin á gönguleiðinni frá Laugafelli. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert