Fóru víða um Vestfirði á fjórhjólum

Steingrímur Birgisson, til vinstri, og Páll Kristinsson hér við fjórhjólin …
Steingrímur Birgisson, til vinstri, og Páll Kristinsson hér við fjórhjólin sín. Þeir hlakka til næstu ferðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Slark! Vestfirðir eru heillandi landshluti, hver sem ferðamátinn er. Páll Kristinsson og Steingrímur Birgisson tengdasonur hans gerðu víðreist á dögunum í flandri á fjórhjólum. Kjaransbraut, Ketildalir og Látrabjarg voru meðal viðkomustaða.

Á Vestfjörðum eru margar áhugaverðar leiðir upp til fjalla og út með nesjum sem gaman er að ferðast um. Sérstaklega er gaman að þræða þessar slóðir á fjórhjólum, því þannig nær maður alveg frábærri tengingu við náttúruna og umhverfið. „Þetta er ferðamáti sem ég mæli svo sannarlega með,“ segir Steingrímur Birgisson.

Margir möguleikar á ferðum um stórbrotna náttúru fyrir vestan blöstu við, þegar Steingrímur og Páll Kristinsson, tengdafaðir hans, settust niður með landakortið fyrir framan sig. Þetta var nú í júlí, en eftir að hafa kannað gistimöguleika og fleira lögðu þeir af stað. Settu fjórhjól sín – sem eru mjög af stærri gerðinni – á jeppakerru og stefnan sett vestur. Steinshús við Nauteyri á Langadalsströnd var fyrsti áfangastaður og þaðan var lagt á brattann.

Hjólin í einni röð nærri Svalvogavegi, frægu einstigi við ysta …
Hjólin í einni röð nærri Svalvogavegi, frægu einstigi við ysta haf.

Ótrúlegt umhverfi

„Við stefndum um heiðarbraut upp að Drangajökli og komumst nokkuð áleiðis. Vandinn var hins vegar sá að þarna lá þoka yfir og því snerum töldum við ráðlegt að snúa við, áður en í ógöngur væri komið. Ég veit að áður voru slóðir að jöklinum, sem hefur hopað mjög á síðustu árum svo vegir eru honum víðsfjarri. Landið er alltaf að breyast sem í sjálfu sér er mjög spennandi,“ segir Steingrímur sem er múrarameistari og rekur fyrirtæki í borginni. Páll tengdafaðir hans er járnsmiður: var lengi einn af eigendum Stálsmiðjunnar og rak slippinn við Reykjavíkurhöfn.

Velþekkt er fyrir vestan svonefnd Svalvogaleið, sem aðrir kenna við Elís Kjaran, sem brautina ruddi. Þetta er á skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og á köflum er þarna um tæpar götur að fara. Sérstaklega er raunin sú í svonefndu Hrafnholum við utanverðan Dýrafjörð. Þar er vegurinn tæpast meira en bílbreiddin; rispa í hamrastáli.

„Þarna er einstök náttúrufegurð og í raun alveg ótrúlegt umhverfi. Á ferð um þessar slóðir lögðum við upp frá Þingeyri og fórum hringinn. Sérstaklega var gaman að virða landið fyrir sér þegar við komum suður fyrir skagann í Lokinhamradal þar sem sér vel yfir Arnarfjörðinn, suður í Ketildali. Þangað fórum við næsta dag; meðal annars í Selárdal; skoðuðum listasafn Samúels Jónssonar og bæ Gísla á Uppsölum. Þarna er sagan nærri og sérstakar byggingar sem verið er að gera upp af mikum myndarskap,“ segir Steingrímur og heldur áfram:

„Að koma á þessar slóðir er stendur eiginlega upp úr eftir þessa Vestfjarðaferð. Einnig fórum við upp á Þingmannaheiði, út á Látrabjarg og niður á Rauðasand. Vegirnir þarna eru upp og ofan og fjórhjólin reyndust þar vel.“

Stapasund við Arnarfjörðinn.
Stapasund við Arnarfjörðinn.

Kröftug hjól

Fjórhjól Steingríms er af gerðinni Canam og er 90 hestöfl. Hjól Páls er sömu gerðar en lítið eitt aflminna, en samt kröfugt í meira lagi.

„Við erum með sumarhús í Kjós og oft að leika okkur þar í kring á hjólunum,” segir Steingrímur. „Nú væri tilvalið að fara á Langjökul og bruna þar á snjó. Ég er kominn með þann búnað á hjólið mitt að geta hleypt úr dekkjum og pumpað í sitt á hvað og á ferð, sem kemur sér vel í vetrarfærð eða slíkar aðstæður. Sunnanvert hálendið er ævintýraheimur fjórhjólamanna, hvort sem ferðast er á sumri eða vetri. Reykjanesskaginn raunar líka og þangað mun leið margra liggja þegar og ef eldsumbrotum slotar.“

Eyðibýið Uppsalir þar sem Gísli Gíslason bjó alla sína tíð.
Eyðibýið Uppsalir þar sem Gísli Gíslason bjó alla sína tíð.
Ekið í þæfingsfærð.
Ekið í þæfingsfærð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert