Okkur Íslendinga dreymir oft um frí á suðrænum og sólríkum slóðum, enda fáum við flest alveg nóg af kuldanum yfir vetrartímann. Suma dreymir þó um að heimsækja enn kaldari staði þar sem snjór, frost og magnað landslag skapar einstakt andrúmsloft.
Á dögunum birtist grein á vef Lonely Planet þar sem köldustu áfangastaðir í heimi voru teknir saman – þessir staðir eru fyrir þá allra hörðustu!
Suðurskautslandið líkist helst annarri plánetu þar sem ísbreiðurnar þekja yfirborðið og skapa ótrúlegt sjónarspil. Marga dreymir um að heimsækja Suðurskautslandið einhvern tímann á ævinni.
Longyearbyen er nyrsti byggði staðurinn í heiminum og höfuðborg Svalbarða í Noregi. Það er svo snjóþungt í bænum að oftast þarf að nota vélsleða til að komast á milli staða. Þar getur þú upplifað einstakt dýralíf og guðdómleg norðurljós.
Á austurströnd Grænlands er að finna eina afskekktustu byggð heims í bænum Ittoqqortoormiit. Þar er framúrskarandi dýralíf og skammt frá er stærsti þjóðgarður heims, Norðaustur-Grænland.
Í Denali-þjóðgarðinum í Alaska stendur hæsta fjall ríkisins, en tindurinn er sá kaldasti í heimi þar sem hitinn mælist allt niður í -30°C yfir hásumarið. Þjóðgarðurinn er vinsæll meðal útivistar- og ævintýrafólks, enda er nóg af gönguleiðum og spennandi hlutum að sjá.
Rétt fyrir neðan tinda Hakkōda-fjallanna stendur Aomori, snjóþungasta borg heims, sem er grafin undir mörgum metrum af snjó í um fjóra mánuði á ári hverju. Þar í kring eru vinsæl skíðasvæði og margt fallegt að sjá.