Segja hringveginn vera fegurstu leið í Evrópu

Mikil fegurð blasir við undir Eyjafjöllunum þegar keyrt er um …
Mikil fegurð blasir við undir Eyjafjöllunum þegar keyrt er um hringveginn. Ljósmynd/Unsplash/Martin Sanchez

Banda­rísku ferðahand­bóka­höf­und­arn­ir og sjón­varps­menn­irn­ir Rick Steves og Ca­meron Hewitt gáfu ný­verið út sjón­varpsþátt um Ísland þar sem þeir keyrðu hring­inn í kring­um landið og heim­sóttu hina ýmsu út­sýn­is­staði og nátt­úruperl­ur. 

Hewitt birti í kjöl­farið færslu á Face­book-síðu sinni þar sem hann sagði frá ferðalagi fé­lag­anna um hring­veg­inn, en þeir voru sam­mála um að leiðin væri ein sú allra feg­ursta í Evr­ópu.

Fé­lag­arn­ir tóku hring­veg­inn á sex dög­um, en leiðin er sam­tals 1.321 km á lengd og ligg­ur um alla lands­hluta að und­an­skyld­um Vest­fjörðum og Miðhá­lend­inu.

„Við tök­ur á glæ­nýju sjón­varps­efni síðasta sum­ar fór­um við hring­inn í kring­um Ísland um hring­veg­inn ... 700 míl­ur á sex dög­um. Það þýddi marga fjög­urra eða fimm tíma akst­urs­daga í röð, ásamt mjög anna­söm­um upp­tök­um af hríf­andi nátt­úru­und­um og heill­andi þjóðsöfn­um, þar sem oft­ast var gist í eina nótt á hverj­um stað. Þetta var í byrj­un júlí sem þýddi að dags­birt­an var enda­laust – sem gerði það auðveld­ara fyr­ir okk­ur að vinna og keyra langt fram á kvöld, en í raun of auðvelt svo við gerðum okk­ur ekki einu sinni grein fyr­ir því hversu þreytt­ir við vor­um að verða fyrr en við vor­um orðnir ör­magna,“ skrif­ar hann í færsl­unni, en fé­lag­arn­ir voru oft­ar en ekki að keyra í hlaðið hjá hót­el­un­um um níu eða tíu leytið á kvöld­in og þá voru all­ir veit­ingastaðir lokaðir og því enduðu þeir oft­ar en ekki á því að fá sér pylsu á næstu bens­ín­stöð. 

„Sem sagt, þetta var frá­bær veg­ferð sem hæf­ir hinum dá­sam­lega hring­vegi. Hvert stopp, hver dag­ur og hver beygja á leiðinni bauð upp á enn meiri töfra en sú síðasta. Á Suðaust­ur­landi hoppuðum við í gúmmíbát og sigld­um á milli ís­jaka í jök­ullóni. Það var eina stoppið á allri leiðinni þar sem við feng­um hrika­legt veður ... og það var samt guðdóm­legt,“ bæt­ir hann við.

Í færsl­unni seg­ir Hewitt einnig frá því þegar þeir keyrðu meðfram aust­ur­strönd­inni á Aust­fjörðum þar sem þeir urðu agndofa af feg­urðinni. Þegar þeir voru hálfnaðir með veg­inn keyrðu þeir vest­ur með norður­strönd­inni og stoppuðum við Mý­vatn sem hann líkti við Yellow­st­one í Banda­ríkj­un­um. Að lok­um komu þeir við í torf­hús­un­um við Glaum­bæ og fengu feg­urðina á Snæ­fellsnesi beint í æð.

„Eft­ir 800 míl­ur vor­um við sam­mála um að hring­veg­ur­inn hlyti að vera feg­ursta leið í Evr­ópu,“ skrifaði hann að lok­um.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert